Hættustigi og óvissustigi vegna snjóflóða hefur verið aflýst á Vestfjörðum
Uppfært 9.2. kl. 10.00
Hættustigi og óvissustigi hefur verið aflýst á Vestfjörðum en óvissustig hefur verið í gildi á norðanverðum Vestfjörðum frá því á sunnudag. Rýmingarreitur 9 á Ísafirði var rýmdur um tíma, sem og sorpvinnslusvæðið við Funa. Tveir sveitabæir, annar í Skutulsfirði og hinn við Bolungarvík voru einnig rýmdir. Í gærmorgun féll flóð á rýmingarreit 9 sem var rýmdur.
Á sunnanverðum Vestfjörðum var lýst yfir óvissustigi í gær, þriðjudag og hættustigi í kjölfarið á Patreksfirði með rýmingu á ytri hluta rýmingareits 4. Nýr varnargarður ver nú innri hluta rýmingareits 4 en framkvæmdir eru hafnar á garði sem verja á ytri hlutann. Aðfaranótt mánudags féllu flóð ofan við Patreksfjörð og fóru kögglar af einu flóðinu yfir framkvæmdarsvæðið utanvert. Í morgun kom í ljós um 200 m breitt snjóflóð í innanverðri skálinni í Brellum og annað lítið flóð í utanverðri skálinni.
Veðrið er gengið niður á Vestfjörðum, lítil ofankoma en minniháttar skafrenningur í fjöllum. Gert er ráð fyrir að það dragi áfram úr vindi og ofankomu í dag og spáð er hæglætis veðri næstu daga.
Rýmingu á reit 9 á Ísafirði var aflétt nú síðdegis. Snjóflóð hafa fallið úr farvegum ofan við reitinn og ekki er talinn nægur snjór í fleiri flóð sem ógnað geta húsum.
Færsla kl. 14.00
Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi fyrir Vestfirði. Snjóað hefur á svæðinu í norðlægum og austlægum áttum síðan um miðja síðustu viku og vitað er um veikleika í snjóþekjunni. Spár gera ráð fyrir áframhaldandi hvassri NA-átt með snjókomu og síðan éljagangi í dag og fram á morgundag.
Hættustigi hefur verið lýst yfir á Ísafirði þar sem rýmingarreitur 9, undir Steiniðjugilinu, hefur verið rýmdur. Einnig hafa nokkrir sveitabæir verið rýmdir sem og sorpvinnslusvæðið við Funa. Allmörg snjóflóð hafa fallið á norðanverðum Vestfjörðum síðustu daga og þar af nokkur í Skutlusfirði. Síðast í gær féllu tvö snjóflóð utan við Kirkjubæ og þrjú flóð í Fossahlíð. Nánar á bloggsíðu ofanflóðavaktar Veðurstofunnar.