Neyðarstig á Seyðisfirði fært niður á hættustig
Enn er þó hætta á skriðuföllum á ákveðnum svæðum og verða þau áfram rýmd. Rýmingu aflétt á Eskifirði
Uppfært kl. 15:45, 20.12.2020
Rýmingu hefur verið aflétt á Eskifirði, þar sem hús voru rýmd á fimmtudag. Þá var mikil hreyfing á tveimur stöðum í Oddsskarðsveginum, ofan bæjarins, og sprungur opnuðust í malbiki. Náið hefur verið fylgst með aðstæðum síðan og mældir fastpunktar í gær og í dag, sunnudag. Lítil hreyfing hefur verið frá því í gær og ekki eru vísbendingar um að stórt svæði hafi verið á hreyfingu. Því er ekki talin hætta nú á að skriður falli í kjölfar þessara hreyfinga. Áfram verður fylgst með aðstæðum á svæðinu og mælingar gerðar reglulega á næstunni.
Uppfært kl. 15:10, 20.12.2020
Ofanflóðasérfræðingar Veðurstofu Íslands ásamt samstarfsaðilum, hafa metið hættu á frekari skriðuföllum á Seyðisfirði. Enn er hætta á skriðuföllum á ákveðnum svæðum og verða þau áfram rýmd. Þeir íbúar sem búa utan þeirra svæða verður heimilt að snúa aftur.
Í ljósi þessa hefur ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi ákveðið að færa neyðarstig almannavarna, sem verið hefur á Seyðisfirði, niður á hættustig.
Uppfært kl. 10:30, 19.12.2020
Ekki hafa borist fréttir af frekari skriðuföllum á Seyðisfirði en aðstæður verða kannaðar þegar birtir. Bærinn er mannlaus en björgunarsveitarmenn og sérfræðingar fara til þess að kanna aðstæður í dag. Gerðar verða mælingar til þess að kanna hreyfingu yfirborðsjarðlaga og teknar myndir með flygildi eftir því sem aðstæður leyfa.
Sprungur sáust á gamla þjóðveginum um Oddsskarð ofan við Eskifjörð eftir hádegi í gær á tveimur svæðum ofan svæðisins sem rýmt var í gær. Hreyfing hefur verið á þessum sprungum, bæði gliðnun og sig, etv. 10 cm eða meira. Aðstæður verða kannaðar í dag.
Það dró úr úrkomu á Seyðisfirði í gærkvöldi og snérist í norðlæga átt í
nótt. Lítil úrkoma hefur mælst á Austfjörðum í nótt. Spáð er úrkomulitlu veðr i áfram um helgina og kólnandi á sunnudag.
Uppfært kl. 18:10 18.12.2020
Um kl. 15 féll stór skriða úr Botnabrún milli Búðarár og Stöðvarlækjar á Seyðisfirði og lenti á a.m.k. 10 húsum. Ekki er vitað um manntjón en lögregluyfirvöld á staðnum eru að kanna hvort fólk hafi lent í skriðunni. Allmargir sem voru á ferð á svæðinu og í nágrenninu sluppu naumlega. Talið er að flest húsin sem lentu í skriðunni hafi verið rýmd eða mannlaus. Unnið er að frekari rýmingum á Seyðisfirði. Einnig hefur verið ákeðið að rýma nokkra sveitabæi í Seyðisfirði og Eskifirði þar sem talin er skriðuhætta.
Í morgun dró úr úrkomu á Seyðisfirði og á öðrum veðurstöðvum á Austfjörðum eftir mikla úrkomu í gærkvöldi og nótt. Jarðvegur er orðinn vatnsmettaður í neðri hluta hlíða eftir mikla uppsafnaða úrkomu sl. viku. Áframhaldandi úrkoma hefur verið á Seyðisfirði í dag, mun minni þó heldur en í gær. Í kvöld er gert ráð fyrir að stytti upp tímabundið en aftur er spáð rigningu síðla nætur og í fyrramálið. Veðurspár gera ráð fyrir að það stytti upp á Austfjörðum um hádegisbil á morgun, laugardag.![](/media/medium/emil18des_sey.jpg)
Hér má sjá ummerki eftir skriðuna sem féll um kl. 15 í dag. (Ljósmynd: Veðurstofan / Emil Tómasson)
Rýming hefur verið í gildi á stórum svæðum á Seyðisfirði frá því á þriðjudag en í gærkvöldi og í dag voru rýmingar- og varúðarsvæði stækkuð. Í nótt féllu tvær skriður úr Nautaklauf og tók síðari skriðan með sér mannlaust timburhús og flutti það um 50 m. Í dag hafði orðið vart við óstöðugleika á tveimur stöðum í hlíðinni sunnan Seyðisfjarðar áður en stóra skriðan féll.Í nótt féll stór skriða yfir veg og út í sjó nokkru utan við þéttbýlið á Eskifirði en ekki hafa fallið skriður þar í bænum. Úrkoma í bænum á Eskifirði hefur verið mun minni en utar í firðinum og á Seyðisfirði. Í dag hafa opnast sprungur í Oddsskarðsvegi og hafa þær verið að gliðna. Í varúðarskyni hefur verið ákveðið að rýma hús undir svæðinu þar sem sprungurnar hafa opnast.
![](/media/medium/1246989.jpg)
Uppfært kl. 16:40, 18.12.2020
Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að hækka almannavarnastig á Seyðisfirði úr hættustigi í neyðarstig. Stór aurskriða féll úr Botnabrún, milli Búðarár og Stöðvarlækjar, skömmu fyrir klukkan þrjú í dag og féll á nokkur hús. Allir íbúar og aðrir á Seyðisfirði eru beðnir um að mæta í félagsheimilið Herðubreið og gefa sig fram í fjöldahjálparstöð eða hringja í síma 1717. Stefnt er að því að Seyðisfjörður verði rýmdur. Allar björgunarsveitir á Austurlandi hafa verið boðaðar og lögreglumenn frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sérsveit ríkislögreglustjóra og frá logreglunni á Norðurlandi eystra hafa einnig verið sendir á staðinn.
Uppfært kl. 6.10 18.12.2020
Mikil úrkomuákefð hefur verið á Seyðisfirði í gærkvöldi og í nótt og rýmingar því enn í gildi. Í gærkvöldi voru þau svæð þar sem fólk í húsum var beðið um að gæta varúðar stækkuð. Í nótt féllu tvær skriður úr Nautaklauf sem er sami farvegur og stærsta skriðan á þriðjudaginn féll úr.
Fyrri skriðan féll upp úr kl. 1 og önnur skriða féll um tveimur tímum seinna. Sú skriða tók með sér mannlaust timburhús og flutti um 50 m. Það hús var innan svæðis sem hafði verið rýmt. Í kjölfarið var staðan endurmetin og nokkur hús til viðbótar rýmd.
Appelsínugul viðvörun vegna rigningar er í gildi fyrir Austfirði til kl. 9 í dag. Veðurspá gerir ráð fyrir minni úrkomu með morgninum þótt ekki stytti upp fyrr en á laugardag.
![](/media/medium/Skri%C3%B0a_Hus.jpeg)
Húsið færðist til um 50 metra. (Ljósmynd: Daníel Örn Gíslason hjá björgunarfélaginu Ísólfi)
![](/media/medium/Skri%C3%B0a_Hus_2.jpeg)
(Ljósmynd: Veðurstofan / Bjarki Borgþórsson)
Uppfært kl. 10.20 17.12.2020
Rignt hefur í alla nótt á Seyðisfirði og er uppsöfnuð úrkoma frá 15:00 í gær um 80 mm á veðurstöðinni í bænum, og yfir 500 mm frá 10. desember þegar þessi vætutíð hófst. Úrkoma á Austfjörðum jókst síðdegis í gær en í nótt dró úr úrkomu á flestum öðrum veðurstöðvum á Austfjörðum en Seyðisfirði. Nokkru fyrir hádegi eykst úrkoma aftur og ákafri rigningu er spáð fram yfir miðnætti á norðanverðum fjörðunum, þá dregur úr, en úrkoma heldur áfram fram á miðjan morgundag þegar spár gera ráð fyrir því að það stytti upp fram á laugardag. Í gærkvöldi féll skriða úr innanverðri Botnabrún, milli húsa við Botnahlíð. Skriðan féll ekki á hús en drulla og grjót náði niður á götuna. Áfram verður viðbúnaður vegna skriðuhættu á Seyðisfirði og Eskifirði a.m.k. til kvölds. Umferð um svæðið sem rýmt var á Seyðisfirði verður undir eftirliti lögreglu í dag. Appelsínugul viðvörun vegna rigningar er í gildi fyrir Austfirði.
Færsla 16.12.2020
Óvissustig vegna skriðuhættu er í
gildi á Austurlandi og hættustig á Seyðisfirði. Stór skriða féll síðdegis í gær úr Botnabrún utan við
Nautaklauf á Seyðisfirði og olli tjóni. Nokkur hús voru
rýmd undir Botnabrún í innri hluta bæjarins. Þar eru rýmingar
enn í gildi, en fólk hefur fengið að fara í húsin sín undir eftirliti til
þess að sækja nauðsynjar.
Á Austfjörðum hefur verið mikil rigning síðustu
vikuna og neðri hluti hlíða orðinn vatnsmettaður víða. Á Eskifirði hefur t.d.
flætt vatn inn í kjallara í mörgum húsum vegna hárrar grunnvatnsstöðu. Þar hafa
einnig fallið smáskriður ofan í árfarvegi síðasta sólarhringinn. Á Seyðisfirði voru skruðningar í fjallinu fram á nótt. Það hægðist um eftir kl. 2 í
nótt og gert er ráð fyrir því að það verði minni úrkoma í dag en verið hefur
síðustu daga. Aftur á móti er spáð aukinni úrkomuákefð á nýjan leik í
kvöld og verður talsverð rigning á morgun.
Mynd tekin í morgun, 16. desember, sem sýnir vel hvernig skriður umlykja hús í byggðinni. (Ljósmynd: Daníel Örn Gíslason hjá björgunarfélaginu Ísólfi)
Skriðurnar hugsanlega með þeim stærstu sem hafa fallið á svæðinu
Þekkt er að
aurskriður falli á þeim stöðum sem þær féllu á Seyðisfirði í gær. „Það hafa
fallið skriður á öllum þessum stöðum en hugsanlega eru einhverjar þeirra
með þeim stærstu sem fallið hafa á svæðinu“ segir Magni Hreinn Jónsson,
sérfræðingur á ofanflóðavakt á Veðurstofunni. „Það voru alla vega þrjár sem
féllu að byggð að minnsta kosti. Svo voru margar sem stöðvuðust upp í hlíð í
gærkvöldi, svo voru svona skruðningar og læti í hlíðinni í gærkvöldi þar sem
var svona minna grjót að hreyfast og minni hreyfingar,“ segir Magni, í
viðtali við mbl.is. Sérfræðingar Veðurstofunnar hafa þó ekki mælt skriðurnar
sem féllu en það verður gert um leið og aðstæður leyfa.