Fréttir

Gular viðvaranir gefnar út fyrir fimm spásvæði

Spáð er mikilli ölduhæð við Faxaflóa og við strendur Suðurlands

7.2.2022

Uppfært kl. 14.30

Við bendum á næsta skammt af viðvörunum sem hefur verið gefinn út. Gular viðvaranir hafa verið gefnar út fyrir fimm spásvæði. Við bendum á að mikilli ölduhæð er spáð á miðunum suðvestur og vestur af landinu, allt að 18 m. Þetta hefur áhrif á tvö spásvæði, Faxaflóa og Suðurland, en reikna má með að ölduhæð við ströndina nái 10-12 m og hún nái hámarki á mánudagskvöld og það ástand vari fram á þriðjudag.

Uppfært kl. 11.30

Vindur er að ganga niður á Norðausturlandi, Austurlandi og Austfjörðum, en þar eru appelsínugular viðvaranir í gildi fram að og yfir hádegi.  Ennþá snjóar hinsvegar töluvert og þá helst á norðanverðum Austfjörðum og mun snjóa þar áfram fram yfir hádegi.

Ezgif.com-gif-maker--3-

Uppfært kl. 7.50

Lægðarskilin eru nú á hraðri leið norðaustur. Veðrið hefur verið verst á suðvestur horni landsins en færist nú yfir á Norðvesturland og svo austur yfir land. Appelsínugular viðvaranir eru í gildi fyrir öll spásvæðin utan suðvestur hornsins. Veðrið á að ganga yfir um hádegisbil, en síðasta appelsínugula viðvörunin fellur úr gildi kl. 13.30 fyrir Austfirði. Miðja lægðarinnar gengur svo suður fyrir land.

Ezgif.com-gif-maker--2-

Uppfært kl. 7.15

Í gulum viðvörunum sem gefnar hafa verið út og taka gildi síðar í dag fyrir höfuðborgarsvæðið, Faxaflóa og Suðurland er talað um auknar líkur á eldingum. Eftir því sem loftið er óstöðugra eykst hætta á myndun skúraflóka og við mikinn óstöðugleika, líkt og fylgir veðrinu sem nú gengur yfir, er hætta á þrumuveðrum. Rétt fyrir klukkan sjö urðu íbúar á suðvestur horninu varir við eldingu og fylgdi henni langar og miklar þrumur.


Uppfært 7.2. kl. 6.50

Spár hafa gengið eftir og víða hefur mikill vindhraði mælst á suðvestur horni landsins það sem af er morgni. Mesti vindhraði milli kl. 4 og 5. mældist á Reykjanesvita 39 m/s og Hafnarfjall 33,7 m/s ásamt mörgum öðrum stöðvum sem sýndu yfir 30 m/s. Við Reykjanesvita mældust hviður 53 m/s. Þar er vindur að ganga niður og hámarki verið náð um kl. 5, eins og sjá má á þessu línuriti semsýnir vindhraða og svo vindhviður . Rauðar viðvaranir eru í gildi til kl. 8 fyrir höfuðborgarsvæðið og til klukkan 8.30 fyrir Faxaflóa og Suðurland. 

Reykjanesviti_Vindhradi

Uppfært kl. 18.10

Hættustigi Almannavarna lýst yfir vegna óveðurs um allt land. Samhæfingarmiðstöð Almannavarna og aðgerðastjórnstöðvar um land allt virkjaðar um og eftir miðnætti.

Mikill viðbúnaður er vegna óveðursins sem fram undan er út um allt land. Í dag funduðu Almannavarnir aftur með sérfræðingum Veðurstofunnar, viðbragðsaðilum, ábyrgðaraðilum raforku, fjarskipta og samgangna. Einnig voru á fundinum fulltrúar úr aðgerðastjórnun almannavarna um land allt.  Eins og í gær var farið yfir veðurspár og til hvaða viðbúnaðar þarf að grípa þegar óveðrið skellur á.

Nánar á vef Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra.


Uppfært kl. 17.00Óvissustigi vegna snjóflóðahættu hefur verið lýst yfir á norðanverðum Vestfjörðum og Mið-Norðurlandi sem tekur gildi á miðnætti. Í nótt og í gær féllu mörg snjóflóð á Norðanverðum Vestfjörðum, meðal annars í Skutulsfirði, í Álftafirði og í Önundarfirði. Vitað er um veikt lag í snjóþekjunni á Vestfjörðum og á Norðurlandi sem getur verið varasamt ef fólk er á ferð um brattlendi. Á Tröllaskaga hafa nokkur allstór flóð fallið yfir Ólafsfjarðarveg um helgina. Einnig féllu allstór flóð úr Strengsgili og Jörundarskál ofan Siglufjarðar í nótt, aðfaranótt sunnudags. Í ljósi þessara aðstæðna er rétt að vara fólk sem fer um svæði þar sem snjóflóð geta fallið við hættu á snjóflóðum næsta sólarhringinn.
Uppfært kl. 12.20

Gefnar hafa verið út rauðar veðurviðvaranir fyrir höfuðborgarsvæðið, Faxaflóa og Suðurland. Spáð er suðaustan roki eða ofsaveðri, 23-30 m/s með snjókomu og skafrenningi en slyddu næst sjávarsíðunni. Fólki er ráðlagt að ganga vel frá lausum munum. Verktökum er bent á að ganga vel frá framkvæmdasvæðum. Foreldrum er einnig bent á að fylgjast vel með hvernig skólahaldi verður háttað. Sjá viðvaranir og tímasetningar þeirra á vefnum okkar: https://www.vedur.is/vidvaranir


Uppfært 6.2. kl. 10.30

Undanfarinn sólarhring hefur skafið mikið í norðaustan- og norðlægum vindi á Vestfjörðum og Norðurlandi. Nokkur snjóflóð hafa fallið undanfarna daga á Vestfjörðum, m.a. úr hlíðinni ofan Flateyrar og yfir veg undir Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð. Vitað er um veikt lag í snjóþekjunni á Vestfjörðum sem getur verið varasamt ef fólk er á ferð um brattlendi. Á Tröllaskaga hafa tvö flóð fallið yfir Ólafsfjarðarveg um helgina. Allstórt flóð féll úr Strengsgili ofan Siglufjarðar í nótt, aðfaranótt sunnudags. Í ljósi þessara aðstæðna er rétt er að vara ferðafólk og vegfarendur sem fara um svæði þar sem snjóflóðahætta er. Við bendum útivistarfólki á að snjóflóðaspá fyrir norðanverða Vestfirði og utanverðan Tröllaskaga er á rauðu. https://www.vedur.is/ofanflod/snjoflodaspa/

Snjoflodaspa_06022022

Uppfært 5.2. kl 13:55

Spár vegna óveðursins aðfaranótt mánudags eru nokkuð stöðugar og hefu viðvörunarstig verið hækkað á appelsínugult á öllu landinu. Miklar líkur eru á foktjóni og ófærð og því er fólki ráðlagt að ganga vel frá lausa munum og er verktökum bent á að ganga vel frá framkvæmdarsvæðum.

Vidvorunarkerfi5.2.22

Staðsetning viðvörunar hefur verið uppfærð einnig eins og sést á myndinni hér afyrir ofan.


Gefin hefur verið út gul viðvörun fyrir allt landið sem tekur gildi á aðfaranótt mánudags og gildir til kl. 12 á mánudag. Þetta er sérlega djúp og áköf lægð sem nálgast landið úr suðvestri. Líkur eru á að áhrif veðursins verði umtalsverð. En hvers vegna er viðvörunin „bara“ gul? Jú, við notum gula litinn einnig til að vara við veðri lengra fram í tímann, 3-5 daga.  Í skýringartextanum fyrir gula viðvörun segir: „Gul viðvörun getur einnig gefið til kynna að litlar eða miðlungs líkur séu á mjög áhrifamiklu veðri 3-5 daga fram í tímann.“ Þetta á einmitt við veðrið sem er í vændum. Þegar nær dregur og líkurnar á því spáin gangi eftir aukast hækkar  viðvörunarstigið upp á appelsínugult. Þetta er útskýrt í því sem við köllum „Áhrifafylkið“. Þar er horft á „líkur“ og „áhrif“. Viðvörunarlitur ákvarðast þannig af mati sérfræðinga á áhrifum væntanlegs veðurs og líkum á því að spáin gangi eftir.

Likan

Þegar spáin er skoðuð fyrir aðfaranótt mánudag og mándags morgun er staðsetning viðvörunar í áhrifafylkinu í þeim kassa sem hakað er við á myndinni.  Segjum sem svo að spárnar breyrast ekki hvað varðar ákefðina í veðrinu.  Líkurnar á því að spáin gangi eftir aukast hins vegar eftir því sem að nær dregur sunnudagskvöldið og því myndi viðvörun færast lóðrétt upp líkindaásinn og fá þannig appelsínugulan lit.

Þetta dæmi sýnir að það er mikilvægt að átta sig á því að gul viðvörun 3-5 daga fram í tímann táknar ekki endilega hversu slæmt veður er í vændum. Fylgst er grant með málum og uppfærsla eftir skiptingu landssvæða mun vera gerð á morgun.

Nánar um viðvörunarkerfi Veðurstofunnar.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica
Á þessum vef eru vafrakökur notaðar við nafnlausar notkunarmælingar, en engin virkni tengist markaðssetningu. Sjá nánar