Grænlandsjökull rýrnar um sem nemur einum Hofsjökli á ári hverju
Niðurstöður ráðstefnunnar Cryosphere 2022 sem haldin var í Hörpu fyrr á árinu kynntar á COP27
Afkoma Grænlandsjökuls hefur aðeins mælst jákvæð í tvö skipti og hann hefur að jafnaði rýrnað um rúmlega 200 gígatonn á ári frá aldamótum. Nemur það rúmmál heilum Hofsjökli á ári hverju og rúmlega það.
Á nýafstöðnum loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna, COP27, í Egyptalandi stóð Veðurstofa Íslands og Alþjóðaveðurmálastofnunin (WMO) fyrir málstofu um breytingar á freðhvolfinu. Freðhvolf er íslenskt hugtak sem notað er yfir alþjóðlega heitið cryosphere sem nær yfir allt frosið vatn á hnettinum, hvort sem um er að ræða, snjó, lagnaðarís, hafís, klaka í jörð eða jökulís. Hægt var að fylgjast með viðburðinum í lifandi streymi auk þess sem hann var tekinn upp og er aðgengilegur hér.
Á málstofunni kynntu vísindamenn meðal annars niðurstöður frá alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin var í Reykjavík fyrr á árinu, Cryosphere 2022. Á ráðstefnunni, sem haldin var að frumkvæði Veðurstofu Íslands, var sérstaklega fjallað um niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið á freðhvolfinu víðsvegar um heim.
Greinilegar breytingar á jöklum Íslands og Grænlandsjökli
Á málstofunni á COP27 gerði Þorsteinn Þorsteinsson, jöklafræðingur hjá Veðurstofu Íslands, stuttlega grein fyrir nýlegum jöklabreytingum á Íslandi og nálægum löndum. Í máli hans kom fram að í heild hefur rúmmál jökulíss á Íslandi minnkað um 7% frá árinu 1995. Þorsteinn og samstarfsmenn hans hafa fylgst sérstaklega með afkomu Hofsjökuls yfir 35 ára tímabil. Á þessu tímabili hefur ársafkoma jökulsins mælst neikvæð í 30 skipti en jákvæð í aðeins fimm skipti (mynd 1). Rannsóknir benda auk þess til að frá lokum Litlu ísaldar (í kringum 1890) hafi flatarmál jökulsins minnkað úr 1040 km2 í um 800 km2.
Mynd 1. Ársafkoma Hofsjökuls 1988-2022. Rauðar súlur gefa til kynna neikvæða afkomu (massatap) en bláar jákvæða afkomu (massaviðbót). Massatap árið 2022 var minna en oftast áður og er það rakið til mikillar snjókomu á jökulinn veturinn 2021-2022 (20% umfram meðaltal) auk þess sem sumarið var í svalara lagi (sumarhiti var t.d. 0.7°C undir meðaltali á Hveravöllum (júní, júlí, ágúst)).
Til samanburðar kynnti Þorsteinn ný gögn frá Grænlandi, Noregi og svissnesku Ölpunum. Jarðfræðistofnun Danmerkur og Grænlands (GEUS) hefur mælt og reiknað afkomu Grænlandsjökuls aftur til ársins 1987. Eins og sjá má á mynd 2 hafa sveiflur í afkomu hans síðastliðin 35 ár verið áþekkar breytingum á afkomu jökla hérlendis en munurinn á árlegu massatapi er hins vegar mjög mikill, svo sem vænta má. Afkoma Grænlandsjökuls hefur aðeins mælst jákvæð í tvö skipti og hann hefur að jafnaði rýrnað um rúmlega 200 gígatonn á ári frá aldamótum. Nemur það rúmmál heilum Hofsjökli á ári hverju og rúmlega það. Hofsjökull hefur hinsvegar að jafnaði rýrnað um tæplega 1 gígatonn á ári frá aldamótum.
Mynd 2. Ársafkoma Grænlandsjökuls 1987-2022, metin af GEUS skv. líkanreikningi sem studdur er mæligögnum frá um 35 veðurstöðvum víðs vegar um jökulinn. Einnig er metið massatap við kelfingu skriðjökla út í sjó. Heimild: GEUS
Svissneskir jöklar eiga undir högg að sækja
Samkvæmt frumniðurstöðum frá Noregi hörfuðu og rýrnuðu margir jöklar þar á liðnu sumri en sumir bættu þó við sig massa. Frá Ölpunum er hins vegar aðra sögu að segja. Jöklaleysing sló þar öll met frá upphafi mælinga, sem ná þar lengra aftur í tímann en í nokkru öðru landi. Að jafnaði lækkuðu jöklar í svissnesku Ölpunum um 4 metra á þessu ári. Er það rakið til óvenju lítillar vetrarsnjókomu og endurtekinna hitabylgna, sem gengu yfir Evrópu á liðnu sumri. Einnig settist ryk frá Sahara á jöklana og olli aukinni leysingu. Hefur rúmmál jökla í svissnesku Ölpunum nú minnkað um rúman þriðjung á þessari öld, frá um 77 km3 niður í 49 km3, samkvæmt upplýsingum frá Matthias Huss við Zurichháskóla.
Rannsóknir sem kynntar voru frá öðrum svæðum norðurslóða, svo sem Kanada og Síberíu, sýna sambærilegar niðurstöður. Jöklar eru að tapa massa, lagnaðarís brotnar fyrr upp og aukinnar þiðnunar gætir í efstu lögum sífrera. Snjóhula bráðnar fyrr að vori og afrennsli frá hinum miklu meginlöndum norðurhvels til Norður-Íshafsins fer vaxandi.
Bráðnun íss á Suðurskautinu stór óvissuþáttur
Á málstofunni voru rannsóknir á breytingum á ísbreiðu Suðurskautsins kynntar. Vitað er með vissu að massatap hefur átt sér stað á ákveðnum svæðum þess en enn ríkir óvissa um þróun annarra svæða. Sú óvissa hefur sérstaklega með samspil íss og sjávar að gera og hversu hröð bráðnun við slíkar aðstæður getur orðið. Suðurskautið er því enn stór óvissuþáttur þegar kemur að framlagi þess til hækkunar sjávarborðs í framtíðinni. Vert er þó að benda á að samkvæmt nýjustu upplýsingum virðist það leggja meira til hækkunar heimshafanna á ári hverju en Grænlandsjökull, sem skilað hefur mestu framlagi flest árin frá aldamótum.
Staða vatnsauðlindar heimsins
Á dögunum gaf Alþjóðaveðurmálastofnunin út skýrslu um stöðu vatnsauðlindarinnar í heiminum, State of Global Water Resources. Skýrslan fjallar um fallvötn, vatnsgeyma á landi og jökla og setur í samhengi við loftslagsbreytingar. Um er að ræða nokkurs konar samantekt á lagerstöðu ferskvatns í heiminum og aðgengi að vatni, en eftirspurn fer nú vaxandi eftir takmarkaðri auðlind.
Í skýrslunni kemur fram að freðhvolfið sé stærsti náttúrulegi geymir ferskvatns. Oft er talað um fjöll þar sem hluta freðhvolfsins er að finna sem „vatnstanka“ vegna þess að þau eru uppspretta fallvatna og vatnsbirgða fyrir um það bil 1,9 milljarða íbúa jarðarinnar. Breytingar á freðhvolfinu hafa áhrif á fæðuöryggi, heilbrigði, viðhald vistkerfa og hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir efnahag og samfélag. Breytingarnar fela einnig í sér hættur vegna árflóða og hlaupa úr jaðarlónum vegna hopunar jökla.
„Áhrif loftslagsbreytinga endurspeglast í vatni; ákafari og tíðari þurrkum, öfgafyllri flóðum, óreglulegri árstíðabundinni úrkomu og hraðari bráðnun jökla – með áhrifum á efnahag, vistkerfi og allt okkar daglega líf. Þrátt fyrir það er skilningur á áhrifum loftslagsbreytinga á dreifingu, magn og gæði ferskvatns enn takmarkaður,“ sagði aðalritari Alþjóðaveðurmálastofnunarinnar, Petteri Taalas.