Fréttir
Glitský í Skagafirði. Mynd: Evelyn ÝR

Glitský yfir Skagafirði — vetrarlegt háloftafyrirbæri

5.1.2026

Glitský eru ákaflega fögur ský sem myndast í heiðhvolfinu, að jafnaði í um 15 - 30 km hæð. Þau sjást helst um miðjan vetur, við sólarlag eða sólarupprás þegar sólin skín upp á skýin þótt annars sé rökkur eða jafnvel myrkur við jörðu. Litadýrðin minnir á perlumóður, það er að segja lagið sem sést innan á sumum skeljum, og víða eru þau því nefnd perlumóðurský. Enska heitið „nacreous clouds“ merkir einmitt perlumóðurský.

Glitský eru algengust í desember og janúar og sjást einnig talsvert í febrúar, en hverfa yfirleitt þegar líður á mars og sjást sjaldan fyrir 10. nóvember. Um þetta tímabil ríkja kjörskilyrði í heiðhvolfinu: mjög mikill kuldi  sem er grundvallaratriði fyrir myndun þeirra og lág sólstaða svo þau verða sýnileg frá jörðu.

Um þetta tímabil ríkja kjörskilyrði í heiðhvolfinu: mjög mikill kuldi  sem er grundvallaratriði fyrir myndun þeirra og lág sólstaða svo þau verða sýnileg frá jörðu.
Glitský myndast þegar óvenjukalt er í heiðhvolfinu eða um eða undir -70 til -90 °C. Þau eru úr ískristöllum, eða úr samböndum ískristalla og saltpétursýru-hýdrötum. Kristallarnir beygja sólarljósið á mismunandi hátt eftir bylgjulengd þess; blátt ljós beygir meira en rautt og litirnir því aðgreindir á ólíkum stöðum í skýinu. Litamynstrið ræðst einnig af stærðardreifingu agna, þannig að rauðir, gulir og grænir flekkir birtast oft saman.

Glitskýja er einnig getið í eldri heimildum, meðal annars á 17. öld. Dæmið hér að neðan er talið það elsta og á við árið 1644:

„Morgun annars dags jóla sáust ský mörg og stór á lofti í austur og landssuður og suður, undrafögur, rauð og blá, græn og gul, eitt í miðið fagurt sem tungl, þau sáust þar til bjart var af degi, var þá veður kyrt og andaði lítið sunnan. Sást einnig nokkuð til þeirra á þriðja daginn, þau sáust syðra og um allt Ísland fyrir jól og eftir.“


Meðfylgjandi myndir af glitskýjum eru hluti af úrvali mynda sem Evelyn Ýr Kuhne á Lýtingsstöðum í Varmahlíð hefur sent Veðurstofunni undanfarinn áratug, þrjár neðstu myndanna voru teknar í liðinni viku.

Nánari umfjöllun um myndun, árstíðasveiflu og sögulegar heimildir um glitský má finna í greinum Halldórs Björnssonar og Trausta Jónssonar á vef Veðurstofu Íslands.


Glitsky-4

Glitsky-5

Glitsky-6

Glitsky-9

Glitsky-10

Glitsky-1

Glitsky-3






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica