Fyrsta aðlögunaráætlun íslenskra stjórnvalda samþykkt
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur gefið út fyrstu aðlögunaráætlun íslenskra stjórnvalda vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Þar gegnir Veðurstofa Íslands lykilhlutverki í stuðningi við viðbúnað samfélagsins gagnvart vaxandi loftslagsáhættu.
Áætlunin markar mikilvægt skref í því að styrkja getu íslensks samfélags til að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga og byggir á bestu vísindalegu þekkingu. Hún tekur mið af helstu loftslagstengdum áhættuþáttum á Íslandi, þar á meðal aukinni náttúruvá, hopun jökla og hækkandi sjávarstöðu, sem og kerfislægri áhættu. Með áætluninni er lagður grunnur að markvissum aðgerðum, forgangsröðun og samhæfingu aðlögunar þvert á stjórnsýslu til framtíðar.
Veðurstofa Íslands í lykilhlutverki
Veðurstofa Íslands hefur unnið náið með umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og verkefnisstjórn loftslagsaðgerða við mótun aðlögunaráætlunar Íslands og mun leiða innleiðingu hennar í samstarfi við verkefnisstjórn.
Í áætluninni eru settar fram nokkrar forgangsaðgerðir. Tvær þeirra snúa að Veðurstofu Íslands:
Efling loftslagsþjónustu og samræmd miðlun upplýsinga um aðlögun að loftslagsbreytingum.
Mótun samræmdrar aðferðafræði við gerð viðkvæmni- og áhættumats vegna loftslagsbreytinga.
„Með því að skapa vettvang fyrir miðlun þekkingar og reynslu á milli vísindasamfélags, stjórnvalda, sveitarfélaga og annarra hagaðila og leiða vinnu við viðkvæmni- og áhættumat vegna loftslagsbreytinga getur Veðurstofa Íslands stutt við ákvarðanatöku, dregið úr áhættu og styrkt viðnámsþrótt samfélagsins gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga,“ segir Anna Hulda Ólafsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands.
Veðurstofan leiðir jafnframt fjölda annarra aðgerða áætlunarinnar á næstu árum sem snerta kjarnahlutverk hennar í vöktun, greiningu og miðlun upplýsinga. Þar er meðal annars um að ræða aukna vöktun og greiningu gagna um veðurfar, vatnafar, jöklafar og sjávarstöðu.
Aðgengi og áframhaldandi vinna
Aðlögunaráætlunin er aðgengileg almenningi á vefnum www.co2.is/adlogun, þar sem hægt er að skoða aðgerðir út frá því hvaða málaflokkum þær tilheyra og fá yfirlit yfir markmið, ábyrgðaraðila og stöðu innleiðingar. Áætlunin verður endurskoðuð reglulega í takt við nýja þekkingu og breyttar aðstæður.
Frétt á vef stjórnarráðs:
Stjórnarráðið | Fyrsta aðlögunaráætlun íslenskra stjórnvalda vegna áhrifa loftslagsbreytinga




