Fréttir
Hópur frá Veðurstofunni fór að skaflinum 21. september þegar þessi mynd var tekin og þá reyndist skaflinn ekki vera nema ~4 x 1 m klaka hella, 0.1 - 0.15 m á þykkt. Skaflinn var svo horfinn viku síðar
Hópur frá Veðurstofunni fór að skaflinum 21. september.

Fylgst hefur verið með skaflinum í Gunnlaugsskarði síðan á 19. öld

Skaflinn hvarf í fyrsta skipti svo vitað sé 1929

13.11.2019

Fylgst hefur verið með skaflinum í Gunnlaugsskarði síðan á 19. öld og til eru skráðar samtíma athuganir frá því skaflinn tók upp á því að hverfa kringum 1930. Helstu niðurstöður eru þær að skaflinn hvarf líklega aldrei eftir 1850 þar til hann hvarf í fyrsta skipti svo vitað sé árið 1929. Á tímabilinu 1932 til 1947 hvarf skaflinn oftast og svo nokkrum sinnum til 1964. Frá 1965 til 1997 hvarf skaflinn aldrei en yfirleitt alltaf 1998  til 2012. Það virðist mjög greinilegt að á köldu tímabilunum lifir skaflinn og þá þeim hlýju hverfur hann.

Þó svo skaflar í Esjunni geti verið mælikvarðar á gæði sumartíðar á Reykjavíkursvæðinu, hvort og hve lengi þeir lifa fram á haust, þá er það ekki algild regla. Á köldum tímabilum hefur skaflinn tilhneigingu til að festa sig í sessi. Snjórinn þykknar þá ár frá ári og harðnar. Þá þarf nokkur hlý sumur til að skaflinn taki upp á því að fara að hverfa aftur. Haustið 2015 var skaflinn óvenju stór, um 500 m langur og yfir 5 m þykkur. Þessi skafl lifði, þrátt fyrir vætutíð og milt veður. Hann minnkaði ár frá ári þar til hann hvarf nú um 25. september.


Myndin sýnir hvenær skaflinn í Gunnlaugsskarði hvarf frá júlí til október síðan um aldamótin 1900. Skaflinn lifði þau ár sem súlan nær 120 dögum, þ.e. út október. Skaflinn hvarf fyrst 25. ágúst 1929, þ.e. 56 dögum eftir 1. júlí. Tvö ár hvarf skaflinn um miðjan júlí, þ.e. 1941 og 2010.

Þegar horft er á þróun ársmeðalhita frá því hitamælingar hófust á Íslandi um miðja 19. öld, er að það hafa skipst á hlý og köld tímabil. Það var tiltölulega milt veður hér á landi um 1850 og svo aftur um 1940. Hins vegar var hér kuldi 1870 til 1920 og svo aftur 1965 til 1990. Á heildina litil hefur hiti einnig farið hækkandi samfara aukningu koltvísýrings í andrúmslofti, þ.e. hlýju tímabilin hafa farið hlýnandi og þau köldu eru mildari. Afleiðing veðurfarsbreytinga er mjög greinileg í hörfum jökla og einnig sem minnkandi sjór til fjalla að sumarlagi. Íbúar Reykjavíkursvæðisins geta fylgst með þessum breytingum í sínu nánasta umhverfi í sumarfönnum Esju.

Heimildamenn eru: Jón Erlendsson bóndi á Mógilsá frá um 1863 og fram yfir 1920, Jón Eyþórsson veðurfræðingur sem fylgdist með skaflinum 1929 til 1964, Vigfús Guðmundsson bóndi á Keldum sem fylgdist með skaflinum 1929 til 1951 og Páll Bergþórsson veðurfræðingur sem hefur fylgst með skaflinum síðan um 1960.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica