Fréttir
ljósmynd
Öræfajökull, mynd tekin í rannsóknaflugi 18. nóvember 2017. Sólin skín úr suðri. Hvannadalshjúkur fjærst til vinstri. Smellið á myndina til að stækka hana.

Frá stöðufundi um Öræfajökul

18.11.2017

Í kvöld milli 18:30-20:30 var haldinn stöðufundur á Veðurstofunni um Öræfajökul. Vísindamenn Jarðvísindastofnunar Háskólana og Veðurstofunnar ásamt fulltrúum almannavarna flugu yfir Öræfajökul í dag.

Farið var á þyrlu Landhelgisgæslunnar og flugvél Isavia auk þess sem vísindamenn voru við árnar og söfnuðu vatni. Gerðar voru mælingar á gasi og rafleiðni vatns í ám, vatnssýnum safnað og yfirborðshæð jökulsins mæld í öskju Öræfajökuls. Sigketilinn sem greint var frá í gær var m.a. mældur og er hann um 1 km í þvermál og 15-20 m djúpur. Vatn úr katlinum rennur í Kvíá og á meðan svo er eru ekki taldar miklar líkur á umtalsverðu jökulhlaupi.

Ljóst er að verulegur jarðhiti er kominn upp í öskju Öræfajökuls en ekki nein merki eru um að eldgos sé að hefjast. Verulegt óvissa er um framhald þeirrar atburðarásar sem nú er í gangi. Fylgjast þarf náið með henni og auka eftirlit og rannsóknir. Á Veðurstofunni er sólarhringsvakt þar sem fylgst er með jarðskjálftum og óróa. Næstu daga þarf að vinna að fullu úr gögnum frá ferðum dagsins.

Óvissustig almannavarna verður áfram í gildi meðan sú vinna fer fram. Litakóði Öræfajökuls vegna flugs verður áfram gulur.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica