Fréttir
Veðurstöðin Víðidalur, í bakgrunni er Fella- og Hólahverfi, 15. janúar 2019
Veðurstöðin Víðidalur

Áhugaverðar mælingar frá nýrri veðurstöð

Í froststillunni í lok janúar og byrjun febrúar 2019 mældist mun meira frost á Veðurstöðinni Víðidal en annars staðar á höfuðborgarsvæðinu

11.2.2019

Í lok ársins 2018 bættist við ný veðurstöð á höfuðborgarsvæðinu , Víðidalur. Bæta á við fimm nýjum stöðvum á höfuðborgarsvæðinu fyrir lok ársins 2019 og er Víðidalur sú fyrsta í röðinni. Víðidalur var ekki lengi að koma sér á kortið, en í frostkaflanum 26. janúar til 4. febrúar s.l. mældist töluvert meira frost þar en annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.

Veðurstöðin Víðidalur, í bakgrunni er  Fella- og Hólahverfi.

Veðurstöðin Víðidalur fyrir miðri mynd, í bakgrunni er  Fella- og Hólahverfi. Veðurstöðin er staðsett á Víðivöllum, félagssvæði Hestamannafélagsins Fáks, í Víðidal. Vel sést að byggðin stendur hærra í landi en veðurstöðin. (Ljósmynd: Jón Bjarni Friðriksson)

Mikill munur á lágmarkshita á milli veðurstöðva í mesta frostinu

Veðurstöðin í Víðidal er í 71 m hæð yfir sjávarmáli en dalurinn er mjög flatur og liggur lægra en byggðin í kring. Í næsta nágrenni, í 2,5 km fjarlægð, er veðurstöð Vegagerðarinnar við Arnarnesveg. Sú veðurstöð er í 116 m hæð yfir sjávarmáli, ofan á hljóðmön við austurenda golfvallar Garðabæjar. Í froststillum í lok janúar og byrjun febrúar mældist mikið frost á veðurstöðinni Víðidal. Frost mældist yfir 20 stig aðfararnótt 31. janúar sem og að morgni 2. febrúar, en þá mældist rétt fyrir hádegisbil -21.3°C.  Við Arnarnesveg var mesta frost -14.9°C sama morgun og í veðurreit Veðurstofunnar -12.1°C. Gaman er að bera saman lágmarkshita hverjar klukkustundar á þessum þremur veðurstöðvum á öllu tímabilinu 26. janúar til 4. febrúar. Mikill munur var á lágmarkshitanum í mesta frostinu og þá var mun kaldara í Víðidal en á hinum tveimur stöðvunum. Í vægara frosti var aftur á móti lítill sem enginn munur á milli stöðvanna.

Lágmarkshiti (°C) á veðurstöðvunum Reykjavík, Víðidal og Arnarnesvegi 26. janúar til 4. febrúar 2019.

Lágmarkshiti (°C) á veðurstöðvunum Reykjavík, Víðidal og Arnarnesvegi 26. janúar til 4. febrúar 2019. 

Fjölbreytileiki hitafars á höfuðborgarsvæðinu

Ástæða þessa liggur í mismun legu stöðvanna. Segja má að bæði veðurstöðin Arnarnesvegur og Reykjavík séu á hæðum. Víðidalur er hinsvegar á flatlendi, með hærra landslagi í kring. Í froststillum myndast þar kuldapollur vegna útgeislunar frá yfirborðinu sem og að kalt loft leitar niður í lægðir í landslagi. Kalt loft hefur meiri eðlismassa en hlýtt loft og því er kaldast næst yfirborði við þessar aðstæður. Sjá fróðleiksgreinina " Næturfrost " fyrir nánari útskýringar. Um leið og hreyfir vind blandast loftið betur og dregur hratt úr frostinu.  Kuldapollar eru þekktir á fleiri stöðum á landinu, t.d. eru þeir algengir á Þingvöllum og við Mývatn að vetri til.

Lágmarkshiti (°C) á veðurstöðinni Víðidal, 26. janúar til 4. febrúar 2019. Línan er lituð eftir mesta vindhraða (m/s)

Lágmarkshiti (°C) á veðurstöðinni Víðidal, 26. janúar til 4. febrúar 2019. Línan er lituð eftir mesta vindhraða (m/s). Sjá má að þrátt fyrir að vindhraði hafi sjaldan verið mikill á þessu tímabili þá dró að jafnaði úr frosti þegar hreyfði vind og frost mældist þá samsvarandi og við Arnarnesveg og í veðurreit Veðurstofunnar.

Fjölgun veðurstöðva á höfuðborgarsvæðinu liður í að bæta þjónustu Veðurstofunnar

Með fjölgun veðurstöðva á höfuðborgarsvæðinu munu veðurmælingar sýna enn betur að veðurlag á svæðinu er jafn fjölbreytt og landslagið, hæð yfir sjávarmáli og fjarlægð frá sjó. Það verður spennandi að fylgjast áfram með mælingum í Víðidal. Líklegt er að þar verði hámarkshiti að sumarlagi nokkuð hærri en í veðurreit Veðurstofunnar, þar sem hafgolan er oft ríkjandi á sumardögum.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica