Enn um veðurspá og flóðaástand
Skil hafa verið kyrrstæð yfir landinu síðustu tvo sólarhringa og fært landsmönnum stöðuga rigningu langt sunnan úr hafi. Skilin eru nú á leið vestur út af landinu og því dregur smám saman úr úrkomu sunnan- og vestanlands og styttir að mestu upp í kvöld og nótt.Vesturland
Ár á vesturlandi náðu hámarki snemma í morgun.
Við Mýrdalsjökul og Vatnajökul
Mjög mikið vatn er í ám við Mýrdalsjökul og sunnanverðan Vatnajökul eins og t.d. í Krossá, Jökulsá á Sólheimasandi, Múlakvísl og Djúpá. Enn er mikil rigning á svæðinu og styttir ekki upp fyrr en í kvöld.
Hvítá, Ölfusá og Sogið
Rennsli er enn að vaxa í Hvítá og Ölfusá og er mikið vatn í öllum þverám Hvítár og mjög mikið í Soginu en rennsli þar fór í 250 m³/s og hefur ekki verið jafn mikið síðan 1999. Rennsli hefur ekki náð hámarki í Hvítá við Fremstaver svo líklega nær Ölfusá við Selfoss ekki hámarki fyrr en á föstudagskvöld eða laugardagsmorgun. Líklegt er að hámarksrennsli Ölfusár við Selfoss geti farið yfir 1.000 m³/s en það gerðist síðast í febrúar 2013.
Höfuðborgarsvæðið
Mjög mikið rennsli hefur verið í ám á höfuðborgarsvæðinu. Rennsli er farið að minnka nema í Elliðaánum þar sem það er enn að vaxa. Hámarksrennsli Korpu fór í 32 m³/s sem er mesta flóð í Korpu síðan í febrúar 1994.