Fréttir
Mynd af gígnum sem tekin var um hádegi í dag. 9. desember 2024 sem sýnir enga virkni í gígnum. (Mynd: Björn Oddsson/Almannavarnir Ríkislögreglustjóra)

Sjöunda eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni lokið

Skýr merki um landris á Svartsengissvæðinu

9.12.2024

Uppfært 9. desember kl. 14:20

  • Síðast sást virkni í gígnum á vefmyndavélum um kl. 7 í gærmorgun
  • Engin virkni í gígnum þegar dróna var flogið yfir í dag
  • Eldgosið stóð yfir í 18 daga
  • Hættumat hefur verið uppfært , gildir til 17. desember að öllu óbreyttu

Eldgosinu austur af Stóra-Skógfell er lokið. Þetta var staðfest í dag þegar Almannavarnir flugu drónaflug yfir svæðið og var engin virkni sjáanleg. Síðast sást glóð í gígnum á vefmyndavélum að morgni 8. desember. Eldgosið hófst að kvöldi 20. nóvember og stóð yfir í 18 daga og var annað stærsta gosið að flatarmáli á Sundhnúksgígaröðinni af þeim sjö sem hafa orðið frá desember 2023.

BO09122024

Mynd af gígnum sem tekin var um hádegi í dag og sýnir enga virkni í gígnum. (Mynd:  Björn Oddsson/Almannavarnir Ríkislögreglustjóra)

Eins og áður var greint frá hefur landris hafist að nýju og haldið áfram síðustu daga. Þetta bendir til þess að kvikusöfnun undir Svartsengissvæðinu sé hafið á ný.

GPSSENG09122024

Færslur á GPS stöðinni HS02 á Svartsengissvæðinu síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (8. desember) er sýnd með grænum punkti. Rauðu línurnar eru tímasetningar á upphafi síðustu sjö eldgosa (18. desember 2023, 14. janúar, 8. febrúar, 16. mars, 29. maí, 22. Ágúst og 20. nóvember 2024). Bláu línurnar tákna tímasetningar kvikuhlaupa sem hafa orðið án þess að hafi komið til eldgoss (10. nóvember 2023 og 2. mars 2024).

Hættumat uppfært

Hættumatið hefur verið endurskoðað og uppfært í ljósi þess að eldgosinu er lokið. Helstu breytingarnar eru á svæði 3 (Sundhnúksgígarðinni) þar sem heildarhættan fyrir svæðið fer úr „mjög mikilli“ hættu (fjólublátt) yfir í „mikla“ hættu (rauð). Svæði 5 fer einnig úr "töluverðri" hættu (appelsínugul) í "nokkur" hætta. Kortið gildir til 17. desember, að öllu óbreyttu. 

Haettusvaedi_VI_9des_2024

Uppfært 6. desember kl. 15:00


  • GPS mælingar og gervitunglagögn staðfesta að landris er hafið að nýju
  • Gasmengun áfram til staðar þrátt fyrir minnkandi virkni
  • Hættumat óbreytt

Virkni í eldgosinu hefur farið hægt minnkandi síðustu daga. Minni virkni er sýnileg á vefmyndavélum og gosórói hefur farið hægt minnkandi þegar horft er til síðustu daga.

Hraunflæði hefur haldið sig innan eldri hraunbreiðunnar og er lítið sem ekkert framskrið greinilegt utan hennar.

Nýjustu aflögunargögn benda til þess að landris sé hafið á ný í Svartsengi. GPS mælingar sýna hæga breytingu upp á við á nokkrum stöðvum. Nýjustu gervitunglamyndir frá ICEYE staðfesta þau merki sem berast frá GPS mælum.

ICEYE06122024

Gervitunglamynd sem sýnir LOS (Line Of Sight) færslu á tímabilinu 30. nóvember til 4. desember 2024. Myndin er unnin úr gervitunglagögnum frá ICEYE (InSAR). Rauða svæðið sýnir landris (~1 cm).

Gasmengun áfram varasöm þrátt fyrir minni virkni

Þrátt fyrir minni virkni í eldgosinu er gasmengun áfram til staðar. Gasdreifingarspá gerir ráð fyrir hæg breytilegri átt í dag og því ólíklegt að mikillar gasmengunar verði vart á svæðinu í dag.

Um helgina er spáð norðan átt á laugardag sem breytist svo í sunnan átt á sunnudag. Því má búast við að gas geti mælst í Vogum á sunnudag.

Þeir sem eru á ferð á svæðinu eru hvattir til að fylgjast með gasdreifingarspá Veðurstofunnar og leiðbeiningum varðandi gasmengun á loftgadi.is

Hættumat óbreytt

Hættumat er óbreytt þangað til 10. desember, nema að einhverjar breytingar verða.


Uppfært 3. desember kl. 15:00
  • Hraunflæði frá virka gígnum stöðugt síðustu daga

  • Framrás hraunjaðars hæg og ógnar ekki innviðum

  • Jafnvægi á milli streymis kviku inn í söfnunarsvæðið og hraunflæðis á yfirborði

  • Hættumat uppfært


Lítil breyting hefur orðið á virkni gígsins síðustu daga og styðja óróamælingar við þessa niðurstöðu. Hraunflæði frá virka gígnum heldur áfram að renna að mestu til suðausturs í átt að Fagradalsfjalli.

Lítilsháttar breytingar hafa verið á hraunjaðrinum, en almennt er framrás hraunjaðrana lítil. Gígurinn hleðst áfram upp, sem eykur hættu á að hann brotni niður. Ef slíkt gerist gæti hraun breytt um stefnu, en miðað við staðsetningu gígsins eru innviðir ekki taldir í hættu.

Aflögunargögn sýna að jafnvægi er á milli streymis kviku inn í söfnunarsvæðið undir Svartsengi og flæðis kviku upp á yfirborð úr virka gígnum.

Gasmengun mældist á Húsafjalli, austan Grindavíkur, um helgina, en ríkjandi norðanátt var um helgina leiddi til þess að gas barst suður frá gosstöðvunum.

Þeir sem eru á ferð á svæðinu eru hvattir til að fylgjast með gasdreifingaspá Veðurstofunnar og leiðbeiningum varðandi gasmengun á loftgadi.is

Hættumat uppfært

Hættumatið hefur verið endurskoðað og uppfært í ljósi nýjustu mælinga og gagna. Helstu breytingarnar hafa áhrif á svæði 1 (Svartsengi) sem heildarhættan fyrir svæðið fer úr „töluverðri“ hættu (appelsínugul) yfir í „nokkra“ hættu (gul). Það sem hefur áhrif á þá breytingu er að ekki hefur verið  hraunflæði í átt að Svartsengi undanfarna daga. Svæði 6 fer úr „mikil“ hætta (rautt) yfir í „töluverða“ hættu (appelsínugul) þar sem hættan vegna gjóskufalls er talin lítil. Hætta vegna gasmengunar er enn mikil á svæði 5 og 6, sem og svæði 3 þar sem hún er metin mjög mikil.

Hættumatið gildir til 10. desember, að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_3des_2024


Uppfært 29. nóvember kl. 15:20
  • Vísbendingar um að kvika streymi áfram af dýpi inn í söfnunarsvæðið undir Svartsengi
  • Gasmengun óholl á gönguleiðum við gosstöðvarnar
  • Hættumat uppfært

Eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni hefur haldið áfram með stöðugri virkni í nótt líkt og undanfarna daga og litlar breytingar eru á gosóróa. Hraunflæðið frá virka gígnum er nú mest allt til suðausturs að Fagradalsfjalli.

Sérfræðingar Veðurstofunnar mældu útstreymi SO2 frá eldgosinu í gær, 28. nóvember. Mælingarnar sýndu að um 64 – 71 kg/s af SO2 streymdu frá eldgosinu. Áfram má því gera ráð fyrir gasmengun frá eldgosinu næstu daga sem gæti valdið óþægindum eða verið óholl. Þetta á sérstaklega við á gönguleiðum við Fagradalsfjall og eru nálægt gosstöðvunum. Hér má nálgast gasdreifingaspár veðurvaktar.

Webcam_kast_20241129_1010

Mynd sem tekin var kl. 10:10 í morgun úr vefmyndavél Veðurstofunnar. Myndavélin sem sett var uppí gær á vestanverðu Fagradalsfjalli horfir til norðvesturs á virka gíginn og hraunánna sem rennur frá honum til suðausturs.

Næst stærsta gosið á Sundhnúksgígaröðinni

Sérfræðingar Náttúrfræðistofnunar voru einnig við mælingar í gær og flugu yfir gosstöðvarnar. Niðurstöður úr þeirra mælingum sýndu að hraunbreiðan sem hefur myndast í þessu eldgosi er orðin 9,1 km2 að flatarmáli, rúmmál hennar er um 47 milljón m3 og er hraunbreiðan að meðaltali rúmlega 5 m þykk.

Þetta eldgos sem hófst fyrir 9 dögum er þar með orðið það næst stærsta að rúmmáli af þeim eldgosum sem hafa orðið á Sundhnúksgígaröðinni síðan í desember 2023.

Hraunbreidan_29112024

Kort sem sýnir útbreiðslu hraunsins sem hefur myndast í þessu gosi eog staðsetningu virka gígsins eins gossprungunnar (rauð lína) eins og hún var kl. 03:39 í nótt. Einnig eru sýndar þær hraunbreiður sem hafa myndast á svæðinu frá desember 2023 (Fjólubláar þekjur). Kortið er byggt á gögnum úr ICEYE gervitungli.

Hraunbreiðan sem myndaðist í eldgosinu sem stóð í um 15 daga, frá 22. ágúst til 5. september, er sú stærsta að rúmmáli eða um 61 milljón m3 . Hraunbreiðan sem myndaðist í eldgosinu frá 29. maí til 22. júní er sú þriðja stærsta eða um 45 milljón m3.

Lengd-eldgosa-2

Rummal-eldgosa

Efra grafið sýnir lengd þeirra eldgosa sem hafa orðið á Sundhnúksgígaröðinni síðan í desember 2023 í dögum. Neðra grafið sýnir rúmmál hraunbreiðanna sem hafa myndast í þeim eldgosum. Útreikningar á rúmmálinu eru afurð samvinnu margra aðila og byggðir á gögnum frá Náttúrufræðistofnun, Eflu, Verkís, Svarma og Veðurstofu Íslands

Vísbendingar um að kvika streymi áfram af dýpi inn í söfnunarsvæðið undir Svartsengi

Aflögunarmælingar á Svartsengissvæðinu sýna áfram litlar breytingar á milli daga. Það bendir til þess að innstreymi í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi sé sambærilegt við flæðið úr eldgosinu.

Á milli mælinga Náttúrufræðistofnunar, frá 23. til 28. nóvember, var meðalhraunflæði frá eldgosinu um 11 m3/s. Út frá SO2 mælingum sem gerðar voru í gær er áætlað að hraunflæðið þá hafi verið 7 – 8 m3/s. Því má gróflega áætla að hraunflæðið nú sé einhversstaðar á bilinu 5-10 m3/s.

Hættumat uppfært

Veðurstofa Ísland hefur uppfært hættumat vegna eldgossins og gildir það að öllu óbreyttu til kl. 15:00 þann 3. desember. Heildarhætta er óbreytt á öllum svæðum frá síðustu útgáfu. Hættumat fyrir svæði 4 (Grindavík) er óbreytt en ein breyting verður á svæði 1 (Svartsengi) þar sem hætta á gasmengun er nú metin töluverð en var áður metin mjög mikil.

Haettusvaedi_VI_29nov_2024




Uppfært 28. nóvember kl. 14:45
  • Hraun rennur nær eingöngu til austurs og suðausturs
  • Virknin er stöðug og áfram gýs úr einum gíg
  • Dregið hefur verulega úr sigi umhverfis Svartsengi
  • Gasmengun berst til suðvesturs í átt að Grindavík. Sjá gasdreifingarspá hér

Virkni í gosinu hefur verið stöðug síðasta sólarhring og rennur hraun nú nær eingöngu til austurs og suðausturs, að og meðfram Fagradalsfjalli. Hraunbreiðan hefur lítið breitt úr sér nærri Fagradalsfjalli en heldur áfram að þykkna. Gosórói hefur verið stöðugur samhliða virkninni í gígnum. Dregið hefur verulega úr sigi umhverfis Svartsengi en þar sem breytingar milli daga eru smávægilegar þarf að skoða þróunina yfir nokkra daga til að meta hvort landris sé hafið að nýju.

Litlaskogfell28112024

Mynd frá því í morgun sem tekin er úr vefmyndavél á Litla-Skógfelli. Myndavélin horfir til suðausturs og sést gígurinn hægra megin á myndinni og hraunstraumurinn frá honum í átt að Fagradalsfjalli sem er vinstra megin á myndinni.

Gasdreifingarspá gerir ráð fyrir norðaustan 10-15 m/s á Reykjanesi í dag (fimmtudag) og gasmengun berst því til suðvesturs í átt að Grindavík. Lægir í kvöld og gæti mengunar orðið vart víða á Reykjanesi en bætir aftur í vind úr norðaustri á morgun (föstudag) og gas berst þá aftur í átt að Grindavík. Ekki er búist við gróðureldum á gosstöðvunum.


Uppfært 27. nóvember kl. 14:45

Gosið hefur haldið áfram af jöfnum krafti síðasta sólahring. Gosórói hefur haldist stöðugur undanfarinn sólarhring og hrauntaumurinn frá gígnum flæðir til austurs í átt að Fagradalsfjalli.

Með minnkandi gosvirkni hefur sig umhverfis Svartsengi minnkað. Þar sem breytingar milli daga eru smávægilegar, þarf að skoða þróunina yfir nokkra daga til að meta hvort landris sé hafið að nýju. Í síðustu tveimur gosum tók það rúma viku áður en landris varð greinilegt eftir að sig hægði á sér. Því er líklegt að viðbótarmælingar í allt að viku verði nauðsynlegar til að meta hvort kvikusöfnun undir Svartsengi muni halda áfram.

SENG-plate-27112024

Færslur á GPS stöðinni SENG við Svartsengi síðustu 90 daga í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landbreytingar í millimetrum, og mælingin í gær (26. nóvember) er sýnd með grænum punkti. Rauða línan er tímasetning á upphafi eldgossins..

Spá veðurvaktar um gasdreifingu

Spá veðurvaktar um gasdreifingu er suðvestanátt í dag (miðvikudag), og mengun mun berast til norðausturs, mögulega á höfuðborgarsvæðið. Í kvöld snýst vindur í vestanátt og síðar norðvestanátt, sem mun færa mengunina til austurs og síðan suðausturs. Á morgun er spáð norðaustanátt, og mun mengun þá berast til suðvesturs. Ekki er gert ráð fyrir gróðureldum á gosstöðvunum. Gasdreifingarspá má nálgast hér og upplýsingar um loftgæði má fylgjast með á vef Umhverfisstofnunar.

Hættumat lækkað fyrir Svartsengi og Grindavík

Veðurstofa Íslands hefur gefið út uppfært hættumat sem gildir til kl. 15:00 þann 29. nóvember, að öllu óbreyttu. Miðað við þróun gossins undanfarna daga og gasdreifingarspá hefur hættumatið tekið breytingum frá síðustu útgáfu. Helsta breytingin er á svæði 1 (Svartsengi) þar sem heildarhætta er nú metin töluverð (appelsínugult) en var áður mikil (rautt) og á svæði 4 (Grindavík) þar sem heildarhætta var áður töluverð (appelsínugult) en er nú metin nokkur (gult).

Á svæði 1 (Svartsengi) er hætta á hraunflæði og gasmengun áfram metin mikil en hætta vegna gjósku er nú metin nokkur en var áður töluverð. Fyrir svæði 4 (Grindavík) er eina breytingin sú að hætta á gasmengun er nú metin „töluverð“ en var áður „mjög mikil“. Samkvæmt gasdreifingarspá eru líkur á gasmengun í Grindavík á föstudaginn 29. nóvember.

Haettusvaedi_VI_27nov_2024

Uppfært 26. nóvember kl. 15:30
  • Einn gígur, austur af Stóra-Skógfelli, virkur

  • Hraun rennur að mestu til austurs í átt að Fagradalsfjalli

  • Gosórói stöðugur síðan í gær

  • Ekki er hægt að staðfesta landris þrátt fyrir vísbendingar um breytingar á GNSS mælum

  • Gasdreifingarspá er hér

Virkni á gosstöðvunum hefur verið frekar stöðug síðan í gær. Gosórói hefur haldist jafn síðan í gær, í takti við stöðuga gosvirkni í gígnum í nótt. Virknin er nú eingöngu bundin við nyrsta gíginn sem er beint austur af Stóra-Skógfelli. Megnið af hrauninu frá honum rennur til austurs í átt að Fagradalsfjalli.

Ekki er hægt að útiloka að enn séu hreyfingar undir storknuðu yfirborði í hraunbreiðunni sem fór til vesturs í átt að Svartsengi þrátt fyrir að engar sjáanlegar hreyfingar hafi sést á þeim hluta hraunbreiðunnar í nótt.

Samfara minnkandi gosvirkni dregur úr sigi umhverfis Svartsengi. Þó er ekki hægt að fullyrða að landris sé hafið að nýju þrátt fyrir að síðustu mælipunktar á GNSS-mælum sýni breytingar í þá átt. Þar sem breytingar milli daga eru það litlar er ekki hægt að draga ályktanir af einstaka punktum, heldur þarf að skoða breytingar yfir nokkurra daga tímabil. Í síðustu tveim gosum dró hægt úr sigi í rúma viku áður en landris varð mælanlegt að nýju. Það er því frekar líklegt að það þurfi allt að viku af viðbótarmælingum áður en hægt verður að meta hvort áframhald verði á landrisi og þar með kvikusöfnun undir Svartsengi

Fagridalur26112024

Mynd úr vefmyndavél VÍ frá því í morgun sem sýnir virka gíginn og hraunstrauminn frá honum. Myndavélin er staðsett í Fagradal rétt norðan Fagradalsfjalls.

Meðfylgjandi kort sem byggt er á gögnum úr loftmyndaflugi Náttúrufræðistofnunar og á gervitunglagögnum frá Iceye sýnir útbreiðslu hraunbreiðunnar sem hefur myndast í þessu eldgosi, eins og hún var kl. 02:49 í gær 25. nóvember.

LavaFlowMap_Icelandic_20241126

Uppfært 25. nóvember kl. 15:25
  • Virknin hefur ekki minnkað jafn hratt og í fyrri eldgosum
  • Hraunflæðið á við kröftugustu gosin í Fagradalsfjalli
  • Hraunrennsli getur enn valdið álagi á varnargarða við Svartsengi
  • Hættumat óbreytt
  • Hlekkur á gasmengunarspá

Frá því um kvöldmatarleytið í gær dró enn frekar úr gosóróa og sýnilegri virkni gossins, en virknin náði síðan aftur stöðugleika eftir miðnætti. Enn er þó talsverður kraftur í gosinu og hefur virknin ekki minnkað jafn hratt og í fyrri eldgosum á Sundhnúksgígaröðinni. Til samanburðar má nefna að hraunflæðið í gosinu þessa stundina er metinn á við hraunflæðið í kröftugustu gosunum í Fagradalsfjalli.

Gororoi25112024

Þetta graf sýnir gosóróann (græn og blá lína) frá upphafi eldgossins þann 20. nóvember. Skörp lækkun í gosóróa varð að morgni 24. nóvember, og enn frekari lækkun að kvöldi sama dags. Með því að bera saman óróagraf í þessu eldgosi saman við óróagröf fyrri eldgosa sést að virknin í þessu eldgosi hefur ekki minnkað jafn hratt og í fyrri eldgosum á Sundhnúksgígaröðinni.

Nyrsti gígurinn er virkastur og frá honum liggur nú megin hraunstraumurinn til austurs. Í nótt sást af og til slettast kvika upp fyrir gígbarma syðsta gígsins en ekki hefur sést til virkni í honum í dag. Svipað á við um miðgíginn sem var virkasti gígurinn fyrstu daga gossins, en verulega dró úr virkni í honum í gær og ekki sést til virkni í honum í dag í vefmyndavélum.

Hraunstraumurinn sem legið hefur til vesturs hefur hægt á sér og kólnað á yfirborði. Enn má þó búast við að hraunrennsli haldi áfram undir yfirborði í átt að varnargörðum við Svartsengi og Bláa Lónið þó svo að dregið hafi töluvert úr framrás þess.

Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar mældu útbreiðslu hraunsins á laugardaginn, þegar gos hafði staðið yfir í um 3 daga. Samkvæmt þeim mælingum var heildarrúmál hrauns orðið um 43 milljónir rúmmetra og þakti það um 8.5 ferkílómetra lands. Þetta er um 65% af því rúmmáli sem kom upp í síðasta eldgosi sem stóð í 14 daga.

Land heldur áfram að síga í Svartsengi, en hægt hefur á því miðað við landsig í upphafi goss. Enn er of snemmt að segja til um hvort kvikusöfnun haldi áfram undir Svartsengi. Draga þarf enn frekar úr hraunflæði gossins áður en hægt er að segja til um það framhald kvikusöfnunar.

Mikilvægt að fylgjast áfram með gasmengun

Í dag snýst vindátt og verður breytileg svo vænta má þess að gosmengun geti dreifst um nærliggjandi svæði á suðvesturhelmingi landsins. Sjá gasdreifingarspá og rauntímamælingar á vef Umhverfisstofnunar

Hættumat óbreytt

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumat og er það óbreytt frá því síðast. Hættumatið gildir til kl. 15, miðvikudaginn 27. nóvember, að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_25nov_2024


Uppfært 24. nóvember kl. 14:30

Virkni í nótt var nokkuð stöðug framan að, en klukkan 5 í morgun dró úr gosóróa og samhliða því minnkaði sjáanleg virkni í miðgígnum, þeim gíg sem hefur verið virkastur hingað til.

Enn eru þrír gígar virkir, sá syðsti hefur verið minnstur undanfarna daga en virkni í honum, sem og í nyrsta gígnum, virðist vera nokkuð stöðug áfram. Miðgígurinn hefur verið að fæða hrauntröð meðfram Stóra Skógfelli og áfram meðfram varnargörðum við Svartsengi og Bláa lónið. Minnkandi virkni í honum ætti að skila sér í minna hraunflæði að varnargörðunum við Svartsengi.

Það skal tekið fram að þrátt fyrir minnkandi virkni í gígunum getur hraunflæði áfram valdið álagi á varnargarða. Í eldgosinu í júní brutu hrauntungur sér leið yfir varnargarð þrátt fyrir að verulega hafi dregið úr virkni á gossprungunni á þeim tíma. 

Gasmengun (SO2) hefur verið að mælast í Grindavík í nótt og í morgun. Við bendum fólki á svæðinu að fylgjast með loftgæðamælingum í rauntíma á vefsíðu Umhverfisstofnunar loftgaedi.is, en þar er einnig að finna upplýsingar um viðbrögð við gasmengun af völdum eldgosa.

Samantek_Sundhnuks_24112024

Meðfylgjandi mynd sýnir óróagraf frá jarðskjálftamæli á Litla-Skógfelli. Græn lína sýnir gosóróa, sem hefur snögga lækkun um kl. 5 í morgun. Mynd af gígunum, úr vefmyndavél VÍ norðan Fagradalsfjalls. Til vinstri er frá miðnætti og til hægri er frá því kl. 9:30 núna í morgun



Uppfært 23. nóvember kl. 15:25

Eldgosið við Sundhnúksgíga heldur áfram. Enn gýs á þremur afmörkuðum svæðum á gossprungunni og er mesta virknin staðsett um miðbik hennar. Virknin hefur haldist nokkuð stöðug í nótt og það sem af er degi á heildina litið.

Gosórói er stöðugur og engir jarðskjálftar hafa mælst á svæðinu. Á nærliggjandi GPS stöðvum mælist landsig, því meiri kvika streymir upp á yfirborð en nær að safnast fyrir í kvikuhólfi.

Enn streymir hraun til vesturs og rennur það meðfram varnargörðum við Svartsengi og Bláa Lónið og þykknar. Einnig rennur hraun til norðurs og austurs frá nyrstu og syðstu gígum. Hraunstraumar til vesturs eru að valda álagi á varnargarða og staðan er viðkvæm hvað varðar möguleg áhrif á innviði í og við Svartsengi vegna hraunflæðis.

Spá veðurvaktar um gasmengun: Áfram er spáð nokkuð stífri norðaustan og norðanátt í dag (laugardag) og á morgun. Gasmengun berst þá til suðvesturs og suðurs í átt að Grindavík og Svartsengi. Ekki er búist við gróðureldum.

Webcam_fagridalur_20241123_1500

Skjáskot úr vefmyndavél við Fagradalsfjall kl. 15:00 í dag, 23. nóvember, sem sýnir þá þrjá staði á gossprungunni sem eru virkastir.

Webcam_stora-skogfell-haegri_20241123_1010

Skjáskot úr vefmyndavél tekið í ljósskiptunum í morgun, 23. nóvember, sem sýnir hraunelf meðfram suðurhlíðum Stóra-Skógfells. Hraunið rennur til vesturs og bætir við hrauntungurnar sem eru að valda álagi á varnargarða við Svartsengi.





Uppfært 22. nóvember kl. 14:50
  • Virkni í þremur gígum nokkuð stöðug síðan í gær
  • Töluvert hægt á framrás hrauntungu við Svartsengi
  • Landsig mælist í Svartsengi
  • Hættumat uppfært, gildir til 25. nóvember, að öllu óbreyttu

Síðan í gær hafa þrjú svæði verið virk á gossprungunni á milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells. Virkni í þeim var nokkuð stöðug í nótt en mesta virknin er í gígnum sem er í miðjunni. Litlar breytingar hafa mælst á gosóróa sem samræmist því að stöðug virkni sé í eldgosinu. Hraunrennslið er aðallega í vestur og kemur sá hraunstraumur frá gígnum í miðjunni, en hraun frá syðri og nyrðri hluta gossprungunnar renna að mestu leyti til austurs en ógnar engum innviðum þar. 

Töluvert hefur hægt á framrás hraunsins norðan varnargarða við Svartsengi. Hrauntungan þar hefur mætt fyrirstöðu í landslaginu og dreifir því úr sér til norðurs frá varnargörðunum og þykknar. Miðað við upphafsfasa eldgossins hefur dregið mikið úr hraunrennsli frá gossprungunni en þó er enn töluvert flæði frá virku gígunum, sérstaklega til vesturs.

Webcam_fagridalur_20241122_0940

Mynd sem tekin var kl. 9:40 í morgun með vefmyndavél VÍ í Fagradal. Vélin horfir til suðvesturs og sýnir þrjú virk svæði á gossprungunni. Hægra megin á myndinni sést Stóra-Skógfell og vinstra megin í bakgrunni er Þorbjörn.

Hraun-221124-0138-ICEYE_uppfaert_2

Kortið sýnir útbreiðslu hraunsins eins og það var kl. 01:38 skv. gervitunglamynd ICEYE.

Landsig mælist í Svartsengi

Land heldur áfram að síga í Svartsengi sem er í samræmi við að talsvert flæði er enn í gosinu. Um 10 milljón rúmmetrar af kviku streymdu úr kvikuhólfinu á fyrstu klukkustundunum sem er um helmingur af því rúmmáli sem safnast hafði í kvikuhólfið síðan í síðasta eldgosi. Þróunin á siginu í Svartsengi er sambærileg miðað við það sem sást í upphafi síðustu tveggja eldgosa. Búast má við að land haldi áfram að síga meðan flæðið í eldgosinu helst hátt.

GPS22112024

Færslur á GPS stöðinni SKSH (Skipastígshraun) í Svartsengi síðan um miðjan september í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Mælipunktar eru á fjögurra tíma fresti og nýjasta mæling síðan kl. 8 í morgun (22. nóvember) sýnir áframhaldandi sig á Svartsengissvæðinu (Mynd frá Háskóla Íslands).

Hættumat uppfært

Hættumat hefur verið uppfært og gildir að öllu óbreyttu til kl. 15:00 þann 25. nóvember. Helsta breytingin er sú að heildarhætta á svæði 4, Grindavík, er nú metin töluverð (appelsínugul). Samkvæmt mælingum og sjónskoðun sem jarðkönnunarteymi Ísor, Eflu og Verkís framkvæmdu í gær, voru engin skýr ummerki um nýjar hreyfingar á sprungum og engar nýjar sprungur sjáanlegar innan Grindavíkur. Því hefur hætta á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingar verið lækkuð og er nú metin eins og fyrir upphaf yfirstandandi goss. Hætta á hraunflæði og gjóskufalli er einnig metin minni á svæði 4 enda stefnir ekkert hraun á bæinn. Vegna ríkjandi vindátta á næstu dögum er hætta á gasmengun metin mjög mikil. Engar breytingar á heildarhættu á öðrum svæðum.

Gasdreifingarspá í dag er norðaustlæg átt og á morgun berst gasmengun til suðvesturs í átt að Grindavík og Svartsengi. Ekki er búist við gróðureldum. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá á vef okkar. Einnig er hægt að fylgjast með loftgæðum á vef Umhverfisstofnunar.

Haettusvaedi_VI_22nov_2024


Uppfært 21. nóvember kl. 16:15
  • Hraun aldrei runnið eins langt til vesturs

  • Jarðskjálftavirkni og aflögun mjög lítil

  • Framrásarhraði hraunsins var metinn rúmlega 100m á klukkustund í dag

  • Hættumat verður uppfært á morgun, 22. nóvember, að öllu óbreyttu

Virkni í eldgosinu milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells virðist vera nokkuð svipuð síðan í morgun. Jarðskjálftavirkni og aflögun á gosstöðvunum er mjög lítil.

Fyrstu mælingar benda til þess að rúmmál kviku sem streymdi frá Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina sé tæplega helmingur af því rúmmáli sem flæddi frá Svartsengi í eldgosinu þann 22. ágúst. Nánari niðurstöður fást á næstu dögum.

Hrauntungan sem rann yfir Grindavíkurveg og heitavatnslögnina vestan hans hefur haldið áfram að renna til vesturs. Um hádegi náði hraunið inn á bílastæði við Bláa lónið og er enn á hreyfingu. Framrásarhraði hraunsins var metinn rúmlega 100m á klukkustund á milli kl. 12:09 og 13:35.

Þessi hraunbreiða hefur nú náð lengra til vesturs en hraunbreiður úr fyrri eldgosum. Meðfylgjandi myndir eru teknar úr vefmyndavél Veðurstofunnar sem staðsett er uppi á Þorbirni. Fyrra myndskeiðið er tekið milli 12:30 og 12:50  í dag og seinna frá kl. 13:40 - 14:30. Þau sýna framrás hraunsins á þeim tíma.

Gif_Hadegi21112024
Gif_Eftirhadegi21112024

Uppfært 21. nóvember kl. 11:00
  • Hraun hefur runnið yfir Grindavíkurveginn
  • Gossprungan hefur dregist saman
  • Hrauntunga hefur náð að heitavatnslögninni, Njarðvíkuræð

Eldgosið sem hófst klukkan 23:14 þann 20. nóvember heldur áfram en virkni á gossprungunni hefur dregist saman um 600 metra frá syðri enda, samkvæmt drónamælingum sérsveitar Ríkislögreglustjóra. Virknin er nú mest um miðbik gossprungunnar, milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells. Hraun rann yfir Grindavíkurveg upp úr klukkan hálf fimm í nótt. Skömmu fyrir klukkan 8 í morgun náði hrauntungan einnig að heitavatnslögninni, Njarðvíkuræð.

21112024_hraun_eldgos

Samkvæmt gervitunglamynd (ICEYE) klukkan 6:16 í morgun hefur hraunbreiðan náð tæplega 7 ferkílómetra útbreiðslu. Útlínur hraunbreiðunnar eru gróflega sýndar á meðfylgjandi korti.

Jarðskjálftavirkni minnkaði verulega stuttu eftir að gos hófst, og síðan þá hafa einungis örfáir skjálftar mælst. Aflögun mældist fyrstu klukkustundirnar eftir að gos hófst en lítil aflögun mælist núna í kringum gossprungunnar.

Samkvæmt spá veðurvaktar um gasdreifingu er norðaustlæg átt í dag (fimmtudag) og á morgun (föstudag) mun gasmengun berast til suðurs og vesturs af gosstöðvunum. Líklegt er að gasmengunar verði vart í Grindavík, Svartsengi og Reykjanesbæ. Ekki er búist við gróðureldum.

Vedurkort_21112024

Gervitunglamyndin sýnir gosmökkinn berast til suðurs kl. 04:41 í nótt þar sem meginhluti makkarins er SO2 gas. Frá því gosið hófst og fram á nótt var norðanátt sem snérist í austanátt undir morgun.

Hættumat uppfært

Veðurstofan uppfærði hættumat í nótt (20. nóvember) sem gildir til klukkan 15:00 þann 22. nóvember, að öllu óbreyttu. Hætta hefur verið aukin á öllum svæðum nema svæði 7. Mikil hætta (fjólublátt) er á svæði 3, þar sem upptök eldgossins eru. Á svæðum 1, 4 og 6 hefur hætta verið aukin í mikla (rauð).

Haettusvaedi_VI_21nov_2024

Uppfært 20. nóvember kl. 01:45

  • Eldgos hófst á milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells kl. 23:14
  • Fyrstu merki um kvikuhlaup sáust á mælum um kl. 22:30
  • Lengd gossprungunnar er áætlaður um 3 km og er syðri endi hennar við Sýlingarfell

  • Eldgosið virðist hafa náð hámarki
  • Gasmengun berst í suður yfir Grindavík
  • Hlekkur á gasmengunarspá


Fréttaþráðurinn verður næst uppfærður kl. 10:00. Sólarhringsvakt Veðurstofunnar mun birta færslur á Facebook ef miklar breytingar verða á virkni eldgossins í nótt.

Virknin í eldgosinu virðist hafa náð hámarki. Gossprunguna er hætt að stækka og samkvæmt þeim merkjum sem sjást á mælum Veðurstofunnar virðist ekkert benda til þess að virknin muni aukast.

Lengd gossprungunnar er metin vera um 3 km. Hraunstraumurinn dreifist bæði til austurs og vesturs. Ekkert hraunflæði er í átt til Grindavíkur. Á þessum tímapunkti eru um 500m frá hraunjaðrinum í vestur að Grindavíkurvegi.

Eldgosið nú er talsvert minna en síðasta eldgos sem hófst 22. ágúst. Áætlað hraunflæði á þessari stundu er um 1.300m3/s, en það var um 2.500m3/s í eldgosinu í ágúst.

Það sem vekur athygli er að skjálftavirknin var ekki tekin að vaxa vikurnar fyrir gos líkt og hafði gerst í fyrri atburðum. Kvikumagnið sem safnast hafði undir Svartsengi var svipað og fyrir síðasta gos. Þróunin undanfarið hefur hins vegar verið sú að sífellt meira magn af kviku hefur þurft að safnast fyrir til að koma af stað næsta atburði. Þetta er vísbending um að það munstur sem sést hefur hingað til í fyrri eldgosum er mögulega að breytast.

Gossprungan_Sudur_21112024

(Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)

Færsla kl. 01:20

Gasdreifingarspá veðurvaktar: Norðanátt í nótt blæs gasmengun til suðurs af gosstöðvunum, en á morgun (fimmtudag) er spáð austlægari vindum, þ.a. gasmengun berst til vesturs og suðvesturs. Líkleg er að gasmengunar verði vart í Grindavík, Svartsengi og Reykjanesbæ.

Screenshot-at-2024-11-21-01-10-30_Gasmengun_21112024

Mynd sem sýnir hvar megi búast við gasmengun næstu 24 klst.

Færsla kl. 01:09

Sprungustadsetning_21112024_kl0040

Endurskoðuð staðsetning gossprungunnar byggð á upplýsingum úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar.


Færsla kl. 00:21

Lengd gossprungunnar er áætlaður um 2.5 km og er syðri endi hennar við Sýlingarfell. Miðað við stöðuna núna er þetta eldgos minna en síðasta eldgos.

Ekki hægt að útiloka að gossprungan eigi eftir að stækka. Á þessari stundu eru engar vísbendingar að sjá á mælum Veðurstofunnar um að gossprungan sé að lengjast í suður.

Gossprungan_21112024_0010

Fyrsta myndin úr eftirlitsflugi með Landhelgisgæslunni. Ljósin í Grindavíkurbæ sjást í fjarska. Ljósin í Svartsengi hægra megin á myndinni. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)

Gossprungan_21112024_kl0020

Mynd sem sýnir hraunstraum í vestur í átt að Grindavíkurvegi. Ljósin í orkuveri HS Orku í forgrunni. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)


Færsla kl. 23:50

Smáskjálftahrina hófst um kl. 22:30 og um 22:37 mældust þrýstingsbreytingar í borholum HS Orku sem voru skýr merki um að kvikuhlaup væri hafið.

Klukkan 23:14 opnaðist gossprunga á milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells. Gosprungan stækkaði í norðaustur.

Fyrstu fréttir af hraunrennsli benda til þess að hraunstraumur renni í vestur og liggur sunnanvert í Stóra-Skógfelli. Enginn hraunstraumur sést í átt að Grindavík.

Stíf norðanátt er á svæðinu sem beinir gasmengun suður á bóginn yfir Grindavík.

Þyrla Landhelgisgæslunnar er að fara í loftið. Upplýsingar úr því flugi munu nánari mynd af stefnu hraunflæðis.

Gos201124_radarhnit

Kort sem sýnir áætlaða staðsetningu gossprungunnar kl. 23:40. Staðsetningin er byggð á radargögnum.



Eldri fréttir





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica