Fréttir
Eldgosið í ljósaskiptunum að kvöldi 3. ágúst. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Halldór Björnsson)

Fréttir af eldgosinu á Reykjanesskaga 2022

21.8.2022

Uppfært 21.08.

Kaflaskil hafa orðið í gosinu í Meradölum en síðustu daga hefur gosóróinn minnkað jafnt og þétt og í nótt datt hann alveg niður. Samhliða því hefur virknin í gígnum minnkað og er nú nánast engin. Myndin hér að neðan sýnir óróann frá því áður en gosið hófst, meðan á því stóð og svo núna þegar svo virðist sem því sé að ljúka. Hins vegar sést að hraun rennur frá gígnum bæði á gervitunglamynd sem tekin var kl. 5:55 í morgun og á vefmyndavél okkar frá kl. 4 í nótt. Af þessu má ráða að nýr kafli sé að hefjast í Fagradalsfjallseldum en hvort jarðskjálftavirknin taki sig upp aftur og það gjósi á ný á næstunni eða ekki verður tíminn að leiða í ljós.
Ennþá er eldgosavá og óvissa á svæðinu og fólk beðið að sýna aðgát þegar svæðið er heimsótt.
300869798_461756489313684_5768733127457900778_n
300418539_461757115980288_1300695980862507837_n

Uppfært 9.8. kl. 16:45

Vísindaráð Almannavarna fundaði í morgun um eldgosið á Reykjanesskaga. Farið var yfir nýjustu gögn og mælingar til að meta stöðuna og framhald gossins. Er það mat vísindamanna að framgangur gossins sé eins og við mátti búast. Gosvirknin hefur haldist nokkuð stöðug síðustu daga og er mikilvægt að undirbúa sig fyrir að gosið standi yfir í nokkuð langan tíma.

Á gervihnattamyndum sem sýna landbreytingar á Reykjanesskaga frá lok júlí má sjá merki um aflögun skammt norðaustur af Grindavík (sjá svæði innan svarta kassans á myndinni hér að neðan). Aflögunin sem sést á gervihnattamyndunum er við upptök skjálftans sem varð 31. júlí og mældist M5.5. Á fundi vísindaráðs var farið yfir önnur gögn frá svæðinu s.s. GPS mælingar, skjálftagögn og sýna þau engar vísbendingar um að kvika sé þarna á ferðinni og líklegast skýringin sé breytingar á yfirborði sem urðu í skjálftanum fyrir um 10 dögum síðan. Engu að síður munu vísindamenn safna frekari gögnum til að staðfesta enn frekar að svo sé. Rætt var að mikilægt væri að auka vöktun enn frekar á þeim umbrotasvæðum sem geta haft áhrif nærri byggð með því að setja upp fleiri mælitæki til rauntímavöktunar.


Aflögunin sem sést á gervihnattamyndunum og er afmörkuð af svarta kassanum er við upptök skjálftans sem varð 31. júlí og mældist M5.5. Á fundi vísindaráðs var farið yfir önnur gögn frá svæðinu s.s. GPS mælingar, skjálftagögn og sýna þau engar vísbendingar um að kvika sé þarna á ferðinni og líklegast skýringin sé breytingar á yfirborði sem urðu í skjálftanum fyrir um 10 dögum síðan.


Uppfært 5.8. kl. 13:00

Eftir að gos hófst hefur þenslumerkið sem mældist samfara kvikuinnskotinu minnkað verulega. Þetta má lesa úr GPS gögnum sem benda til þess að komið sé jafnvægi á þrýsting í kvikuganginum undir gossprungunni. Það þýðir að jafnvægi sé smám saman að komast á milli magns kviku sem streymir af dýpi inn í kvikuganginn og magns kviku sem flæðir frá eldgosinu upp á yfirborðið.

Þetta jafnvægi í kvikuflæði þýðir minni skjálftavirkni þar sem þrýstingur á jarðskorpuna hefur minnkað. Daginn fyrir gos mældust um 2.700 skjálftar á einum sólarhring en í gær mældust aðeins 900 skjálftar og í dag ennþá færri eða um 300 þegar að þessi grein er skrifuð.

Csk_igram_4aug_is

Gervihnattamynd sem sýnir breytingar sem hafa átt sér stað á yfirborði á Reykjanesskaga milli 27. júlí og 4. ágúst. Gosið hófst 3. ágúst. Á myndinni sést vel aflögunin vegna myndunar kvikugangsins en einnig vegna stærri skjálfta sem urðu í tengslum við innskotið. (Myndvinnsla: Michelle Parks)


Uppfært 5.8. kl 11:37

Ný gasdreifingarspá er komin út og hægt er að nálgast hana hérna. Vindur snýst smám saman í suðaustan 5-10 m/s á gosstöðvunum og gasmengunina leggur því til norðurs, og síðar norðvesturs undir kvöld. Á morgun er vestlæg átt, gasið leggur þá til austurs en spár gera ekki ráð fyrir að gasmengunin verði við yfirborð fyrr en annað kvöld, og leggi að suðurströndinni austur af gosstöðvunum. Samkvæmt athugasemd veðurfræðings verða aðstæður til eldgosaskoðunnar lélegar í kvöld en það hvessir af suðaustri með rigningu og súld á umbrotasvæðinu. Betra veður til útsýnisferða verður á morgun, laugardag. Á sunnudag gengur í suðaustan 13-18 m/s á svæðinu með mikilli rigningu og verður ekkert ferðaveður á svæðinu.

Uppfært 4.8. kl. 17.30

Það er mikilvægt að hafa í huga að næsta nágrenni gosstöðvanna er hættulegt svæði og geta aðstæður breyst hratt.

Vísindaráð Almannavarna varar fólk við að dvelja nálægt gosstöðvunum. Helstu hættur í næsta nágrenni þeirra eru:

  • Viðvarandi gasmengun og hættan eykst þegar vind lægir. Hættulegar gastegundir geta safnast í dældum og jafnvel verið banvænar.
  • Nýjar gossprungur geta opnast í næsta nágrenni eldstöðvanna með litlum fyrirvara.
  • Glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðrinum og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram úr hraunjaðrinum með miklum hraða sem erfitt er að forðast á hlaupum.

Á kortinu hér fyrir neðan má sjá skilgreind hættusvæði (smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu)

Haettusvaedi_Meradalir_04082022_v3


Uppfært kl 12:10, 4. ágúst 2022

Virkjuð hefur verið gasdreifingarspá fyrir eldgosið í Meradölum. Birtist hún hér. Eins er hægt að nota flýtihnappinn á forsíðunni sem stendur Reykjanesskagi . Mikilvægt er að vera á varðbergi gagnvart óvæntri gasmengun sem getur orðið og safnast gas í lautum, hlíðum og öðrum stöðum.


Uppfært kl 10:12, 4. ágúst 2022

Eldgosið sem hófst í gær í vestanverðum Meradölum heldur áfram. Um 400 skjálftar hafa mælst, þó nokkuð færri og einnig töluvert minni en hafa verið að mælast fyrir gosið. Þetta er þróun sem búist er við þegar líður á gosið líkt og sást í fyrra gosi í Fagradalsfjalli, þ.e. að draga fer úr skjálftum. Veðurstofan vill ítreka að fólk fari varlega við gosstöðvarnar þar sem mikil gasmengun getur verið á svæðinu. „Það er norðanátt sem þýðir að gasið er að stefna í átt að gönguleiðum svo fólk þarf að passa sig“ segir náttúruvársérfræðingur Veðurstofunnar. Líklegt er að vind lægi í kvöld og gas getur því safnast saman í lautum, hlíðum og öðrum stöðum. Veðurstofan mun setja upp gasmæla á svæðinu á morgun og nýta daginn í dag til að skipuleggja framkvæmdina.

Merardalir04082022Myndin sýnir gosstöðvarnar gær. (Ljósmynd: Veðurstofan/Halldór Björnsson)

Uppfært kl. 18.10

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor við Jarðvísindastofnun Háskólans sem var í eftirlitsfluginu yfir gosstöðvarnar í dag, metur að rennslið úr sprungunni vera um 5-10 sinnum meira en rennslið við upphaf gossins 2021.

Veðurstofan vinnur að gerð rennslislíkans út frá fyrstu tölum til að áætla mögulega dreifingu á hraunflæði úr sprungunni, en hægt er að áætla dreifingu hrauns frá sprungunni með því að skoða eldri líkön sem gerð hafa verið sem gera ráð fyrir sambærilegri sviðsmynd.


Við gerð hættumats vegna eldgoss við Fagradalsfjall var gert hraunrennslislíkan sem gerir ráð fyrir sprungu á svipuðum slóðum og þar sem nú gýs. Þetta líkan gerir ráð fyrir svipuðu rennsli og mælist nú. Kortið sýnir dreifingu hrauns ef gosið stendur óbreytt í allt að 200 daga. Það skal tekið fram að óvíst er hvort styrkur gossins og staðsetning helst óbreytt allan þennan tíma. Út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir í dag sýnir líkanið engu að síður að ekki er talið líklegt að þetta gos ógni mikilvægum innviðum.

Gasmengun við gosstöðvarnar og ekki auðveld ganga

Veðurstofan bendir á að líkt og í gosinu í fyrra fylgir þessu gosi töluverð gasmengun. Fram kom í samtali RÚV við Hjálmar Hallgrímsson hjá lögreglunni á Suðurnesjum að svæðinu við gosstöðvarnar hafi ekki verið lokað en hann segir að gönguleiðin að nýju sprungunni sé mjög strembin. „Það er ákveðinn hluti svæðisins, gamla hraunið, sem er alveg öruggt að við teljum, og fólk vill sjá það. Við teljum það vera í lagi - en að labba alveg inn eftir að nýja gosinu er mjög löng leið og erfið og það er ekki fyrir alla að fara þá leið.“

Veðurstofan vinnur nú að því að birta aftur gasdreifingarspár á vefnum vedur.is

Gasmokkur_Fagradaslfjall_Agust-2022

Á þessari mynd sem Halldór Björnsson á Veðurstofunni tók í flugi yfir gosstöðvarnar fyrr í dag, sést vel hvernig gasmengunin í gosmekkinum leggst yfir svæðið. (Ljósmynd: Veðurstofan/Halldór Björnsson)


Færsla birt kl. 13:50

Eldgos er hafið í vestanverðum Meradölum um 1,5 km norður af Stóra-Hrút og jarðeldurinn virðist koma upp um norðuraustur suðvestur sprungu á þeim stað. Við fyrstu skoðun á vefmyndavélum virðist kvika hafa komið upp á yfirborð kl 13:18.


Fyrsta myndin sem við birtum af nýju sprungunni við Fagradalsfjall. Hún er staðsett við norðurjaðar nýja hraunsins um 1,5 km norður af Stóra-Hrúti. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Halldór Björnsson)

Á fyrstu myndum sem Halldór Björnsson á Veðurstofu Íslands tók úr eftirlitsflugi með Landhelgisgæslunni sést að sprungan er staðsett í norður jaðri nýja hraunsins sem kom upp í síðasta gosi.

Sprungan virðist um 300 m löng út frá fyrstu mælingum.



Kort sem sýnir gróflega staðsetningu á sprungunni út frá fyrstu myndum. Sprungan er staðsett í norður jaðri hraunsins sem myndaðist í gosinu sem hófst í mars í fyrra.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica