Fréttir
COP26 var haldin í Glasgow dagana 1.-12. nóvember síðastliðinn.
COP26 var haldin í Glasgow dagana 1.-12. nóvember síðastliðinn.

COP26 - Samvinna, samstarf og samstaða

15.11.2021

 Líklega hefur það ekki farið framhjá mörgum að COP26, Loftslagsráðstefna Sameinuðu Þjóðanna, er ný afstaðin. COP ráðstefnan (Conference of Parties) var haldin í Glasgow að þessu sinni, en Anna Hulda Ólafsdóttir, sem fer fyrir nýrri skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar, var fulltrúi Veðurstofu Íslands.

Loftslagsváin er yfirvofandi og mikil áhersla er lögð á að draga úr losun til að bregðast við því sem António Gueterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna  kallar „neyðarástand í heiminum“. Á ráðstefnunni í Glasgow var því er mikið rætt um víðtækar kerfisbreytingar, aukið fjármagn til þróunarlanda, aukið samráð og samvinnu. „Rauði þráðurinn í COP26 finnst mér hafa verið samvinna, samstarf, samstaða og kerfisbreytingar“, segir Anna Hulda.

Image-20211104-103832-4167c358

Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Anna Hulda Ólafsdóttir

„Lykil skilaboðin er þörfin fyrir víðtækt samstarf þvert á landamæri og ekki síst þvert á fyrirtæki og stofnanir. Eftir ráðstefnuna tel ég að eitt helsta markmiðið, að halda hlýnun jarðar innan við 1,5 gráðu, sé ekki lengur í órafjarlægð að því gefnu að allar þjóðir standi við þær yfirlýsingar sem hafa verið gefnar út. Við þurfum að fara í víðtækar kerfisbreytingar út frá þeim forsendum að ekki er hægt að reikna með endalausum hagvexti byggðan á takmörkuðum auðlindum jarðarinnar. Við getum ekki stólað á heilbrigt líf á veikri jörð” segir Anna Hulda.   

Anna Hulda sótti ýmsa fundi og fyrirlestra þar sem sérstaklega var lögð áhersla á aðlögun og vísindi en þar voru settar fram ólíkar sviðsmyndir, þar sem kemur skilmerkilega fram að við spilum stórt hlutverk í eigin framtíð og ekki síst framtíð komandi kynslóða. „Það getur verið erfitt að hlusta á vísindamenn og stjórnmálamenn mála upp neikvæða stöðu af loftslagsmálum líkt og skýrsla IPCC gerir, en hinsvegar er gífurleg tækniþróun og aukin þekking á þessum málaflokki sem að gefur mikla von um að hægt sé að bregðast við með viðeigandi hætti“.  Anna Hulda segir að mikilvægi þess að aðlögun og losun spili saman hafi verið ofarlega á baugi COP26. Í því samhengi mega þær aðlögunaraðgerðir sem við kunnum að grípa til ekki vinna gegn mótvægisaðgerðum varðandi losun og öfugt. Á ráðstefnunni voru settar fram aðgerðir til þess að bregðast við helstu forgangsatriðum hvað varðar aðlögun og áhrifum loftslagsbreytinga fram að COP27. Í forgangi eru aðgerðir til að styðja við þróunarlöndin og þær þjóðir sem eru í mestri hættu vegna afleiðinga loftslagsbreytinga. Oft eru það þær þjóðir sem eru með frekar lítið kolefnisspor miðað við stærri iðnaðarþjóðir en sitja eftir með afleiðingarnar.  

Image-20211106-155457-b8a08cec

„Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn á framtíðina, þrátt fyrir ákveðin vonbrigði um þær breytingar sem áttu sér stað á lokametrum ráðstefnunnar. Þjóðir heims er að mestu samstíga um þá áhættu sem skapast ef hlýnun jarðar verður yfir 1,5 gráðum. Það er alveg ljóst að við þurfum kerfisbreytingar, en eins og með svo margt annað þá virðast peningar vera svolítið rót vandamálsins að mínu mati. Það var mikið fjallað um hvert fjármagnið fer, en fjárfesting stærstu bankastofnanna heims í því sem kallað er “loftslags skaðandi atvinnugreinum” eins og t.d. jarðefnaeldsneyti hleypur á trilljónum Bandaríkjadala. Einmitt sú staðreynd er partur af þeirri kerfisbreytingu sem þarf að eiga sér stað og ég held að þetta samtal hafi farið af stað á COP26“ segir Anna Hulda.

Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Anna Hulda Ólafsdóttir


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica