Fréttir
Icpp

Baráttan gegn loftslagsbreytingum er ekki töpuð, en bregðast þarf fljótt við

Til staðar eru fjölmargar lausnir sem nýta þarf á þessum áratug

13.4.2023

Á fréttamannafundi Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (Intergovernmental panel on Climate Change, IPCC) þann 20. mars var kynnt samantektarskýrsla um stöðu og horfur loftslagsmála á heimsvísu. Þar með var bundinn endahnútur á margra ára vinnu hundruða sérfræðinga við mat á viðfangsefninu.   

Á fundinum kom meðal annars fram að:  

 • Loftslagsbreytingar eiga sér nú þegar stað.    

 • Loftslagsbreytingar eru raunveruleg ógn við heilbrigði jarðar og velsæld mannkyns.   

 • Velsæld mannkyns er samofin heilbrigði jarðar.   

 • Við nálgumst 1,5°C mörk Parísarsáttmálans, sem hvorki er öruggt mönnum né náttúru.   

 • Loftslagsbreytingar koma verst niður á þeim sem eru hvað berskjaldaðastir.  

 • Sameiginlegur brestur allra ríkja við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda mun leiða til aukinna áhrifa loftslagsbreytinga með meiri öfgum í veðurfari, hnignun vistkerfa og alvarlegum áhrifum á líf og lífsviðurværi mannkyns.   

 • Við verðum að bregðast við og það sem allra fyrst, á þessum áratug.  

 • Við höfum nú þegar aðgang að tækni og þekkingu til þess að bregðast við.

Leggja skyldi áherslu á:  

 • Endurnýjanlega orku í stað jarðefnaeldsneytis.   

 • Grænar samgöngur.   

 • Græna innviði.   

 • Stöðvun eyðingu skóga.  

 • Aukna orkunýtni.   

 • Endurheimt vistkerfa.   

 • Sjálfbæra matvælaframleiðslu.   

 • Þessar aðgerðir munu hjálpa til við að koma loftslaginu í jafnvægi, draga úr hningnum líffræðilegs fjölbreytileika og draga úr mengun og úrgangsmyndun. Slíkt hefði í för með sér ýmis konar ávinning svo sem betri loftgæði, heilbrigðari náttúru, sæmandi störf og aukið réttlæti.  

Ítarlegri umfjöllun um efni skýrslunar er að finna hér að neðan.  

Sjötta matshring IPCC lokið með útgáfu samantektarskýrslu 

Í mars síðastliðnum gaf Millríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar út sína sjöttu samantektarskýrslu ( IPCC AR6 Synthesis report) . Í skýrslunni er dregin saman staða þekkingar á loftslagsbreytingum, áhrifum þeirra og áhættum og mótvægisaðgerðum og aðlögun.  

Um er að ræða lokaskýrslu sjötta matshrings nefndarinnar sem staðið hefur yfir frá því 2015. Skýrslan samþættir meginniðurstöður sjöttu matsskýrslu (AR6) nefndarinnar sem samanstendur af framlagi þriggja vinnuhópa og þriggja sérfræðiskýrsla. Niðurstöðurnar byggja á rýndum vísindalegum, tæknilegum og samfélagslegum vísindagreinum sem komið hafa út frá því að fimmta matsskýrsla nefndarinnar (AR5) var gefin út árið 2014.  

Skýrslan viðurkennir samspil loftslags, vistkerfa, líffræðilegs fjölbreytileika og samfélags manna. Í henni er lögð áhersla á verðmæti margskonar þekkingar, sterk tengsl aðlögunar- og mótvægisaðgerða, mikilvægi vistkerfa, velsældar mannkyns og sjálfbærrar þróunar. Auk þess sem hún endurspeglar fjölbreytileika þeirra sem að loftslagsaðgerðum koma.  

Skýrslan styður enn frekar við það sem vísindamenn hafa haldið fram í ár og áratugi. Heimurinn er ekki nálægt því að takast á við loftslagsvána. Þó eru lausnir til staðar í nær hverjum geira sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og byggja upp loftslagsþol. Mikilvægt sé að nýta þær þegar í stað, á þessum áratug, til þess að koma í veg fyrir óafturkræf áhrif fyrir komandi kynslóðir.  

Samantekt á niðurstöðum IPCC 

Eftirfarandi eru meginatriði samantektarskýrslunnar (Synthesis Report) eins og þau voru sett fram í ágripi fyrir stefnumótendur (Summary for Policy Makers).  

Í skýrslunni er notað visst kvarðað orðalag til þess að tilgreina líkur á tiltekinni atburðarás eða niðurstöðu. Slík orð eru skáletruð og innan sviga í textanum, s.s. (mikil vissa), (miðlungs vissa). Hægt er að skoða töflu aftast í fréttinni sem sýnir merkingu orða sem notuð eru fyrir staðhæfingar þar sem hægt er að leggja mat á líkindi. 

A Núverandi staða og gangur mála   

Mæld hlýnun og orsakir hennar   

Athafnir mannsins, þá sérstaklega losun gróðurhúsalofttegunda, hafa ótvírætt leitt til hnattrænnar hlýnunar. Á tímabilinu 2011-2020 mældist meðalhiti jarðar um 1,1°C hærri en meðalhiti árabilsins 1850-1900. Ósjálfbær orkunotkun, landnotkun og breytingar á landnotkun, lífsvenjur og neyslumynstur og framleiðsla svæða, ríkja og einstaklinga hefur leitt til og mun leiða til aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda (mikil vissa). 

Mældar breytingar og áhrif  

Víðtækar og hraðar breytingar í lofthjúpi, hafi, freðhvolfi og lífhvolfi hafa átt sér stað. Öll svæði jarðar hafa þegar fengið að kenna á öfgum í veðurfari vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum. Þær hafa haft í för með sér víðtækar neikvæðar afleiðingar og tap og tjón fyrir náttúru og íbúa (mikil vissa). Viðkvæm samfélög sem bera minnstu ábyrgð á hlýnun jarðar hafa orðið hvað verst úti vegna áhrifa loftslagsbreytinga (mikil vissa).

Figure_SPM_1_isl

(Smelltu á myndina til að sjá hana stærri) Mynd 1 SPM1: (a)Loftslagsbreytingar hafa þegar haft víðtæk áhrif á mannleg kerfi og leitt til breytinga á vistkerfum á landi, ferskvatni og í hafi á heimsvísu. (b) Orðin áhrif tengjast loftslagsbreytingum sem í mörgum tilfellum er hægt að rekja til athafna mannsins eins og valdir loftslagsvísar sýna. (c) Orðnar (1900-2020) og áætlaðar (2021-2100) breytingar á yfirborðshita jarðar (í samanburði við 1850-1900) sem tengjast breytingum í loftslagi og áhrifum sýna hvernig loftlsag hefur þegar breyst og mun breytast samhliða líftíma þriggja kynslóða (fædd 1950, 1980 og 2020). Fimm framtíðarsviðsmyndir (2021-2100) byggja á mismunandi losun gróðurhúsalofttegunda: mjög lítil (SSP1-1,9), lítil (SSP1-2,6), miðlungs (SSP2-4,5), mikil (SSP3-7,0) og mjög mikil (SSP5-8,5).  

Framvinda á sviði aðlögunar, eyður og ákoranir  

Áætlanagerð á sviði aðlögunar og innleiðingar hefur miðað áfram þvert á geira og svæði með greinilegum en misjöfnum árangri. Þrátt fyrir framfarir skilur enn á milli hvað aðlögun varðar og mun bilið halda áfram að aukast miðað við núverandi hraða innleiðingar. Mörkum aðlögunar hefur þegar verið náð innan ákveðinna vistkerfa og svæða. Slæmar aðlögunaraðgerðir eiga sér stað innan geira og svæða. Núverandi flæði fjármagns á hnattræna vísu er ekki nægjanlegt fyrir aðlögunaraðgerðir og heldur auk þess aftur af þeim, sérstaklega í þróunarlöndunum (mikil vissa).  

Framvinda á sviði mótvægisaðgerða, eyður og áskoranir   

Mótvægisaðgerðir hafa fengið stærri sess í stefnum og lögum frá því að AR5 kom út. Samkvæmt tölum um landsframlag aðilarríkja, frá október 2021, er líklegt að losun gróðuhúsalofttegunda árið 2030 leiði til þess að hlýnun verði meiri en 1,5°C á 21. öldinni og verði til þess að erfiðara reynist að halda hlýnun innan við 2°C. Spám sem taka mið af staðfestum samningum og spám sem taka mið af landsframlagi ber ekki saman og flæði fjármagns nær ekki þeim hæðum sem nauðsynlegar eru til þess mæta loftslagsmarkmiðum þvert á geira og svæði (mikil vissa).  

B Loftlagsbreytingar til framtíðar, áhættur og viðbrögð til langs tíma 

Loftslagsbreytingar til framtíðar  

Reikningar með ólíkum sviðsmyndum af losun gróðurhúsalofttegunda sýna að áframhaldandi losun mun leiða til aukinnar hnattrænnar hlýnunar, í besta falli um 1,5°C í nálægri framtíð. Hvert brotabrot af hlýnun mun ýkja margþætta og samverkand vá (mikil vissa). Mikill, hraður og viðvarandi samdráttur í losun gróðuhúsalofttegunda myndi draga merkjanlega úr hlýnun jarðar innan tveggja áratuga og leiða til greinilegra breytinga í samsetningu lofthjúpsins innan fárra ára (mikil vissa).  

Figure_SPM_2_isl

Mynd 2, SPM2: Áætlaðar breytingar á heitasta degi ársins, ársmeðaltal á breytingum á rakainnihaldi jarðvegs og rakabreyting á úrkomumesta degi ársins miðað við 1,5°C, 2°C, 3°C og 4°C samanborið við 1850–1900. Áætlaðar (a) breytingar á heitasta degi ársins (°C), (b) ársmeðaltal á breytingum á rakainnihaldi jarðvegs, (c) breytingar á úrkomumesta degi ársins (%). 

Áhrif loftslagsbreytinga og loftslagsáhættur  

B.2 Líkur á margskonar loftslagsáhættu aukast meira með hverju stigi hlýnunar en talið var í AR5. Auk þess er spáð fyrir um margfalt meiri áhrif til langs tíma en nú mælast (mikil vissa). Áhættur, neikvæð áhrif og tilheyrandi tap og tjón vegna loftslagsbreytinga stigmagnast með hverju brotabroti af hlýnun (mjög mikil vissa). Loftslagsáhætta mun í auknum mæli samtvinnast annars konar áhættu sem leiðir til samverkandi og kerfislægrar áhættu sem er flóknara og erfiðara að takast á við (mikil vissa). 

Figure_SPM_3_isl

Mynd 3, SPM3: Áætluð áhætta og áhrif loftslagsbreytinga á náttúruleg og mannleg kerfi við mismunandi stig hnattrænnar hlýnunar miðað við 1850-1900. Áætlaðar áhættur og áhrif sem sýnd eru á kortunum eru byggð á niðurstöðum frá mismunandi undirhópum jarðkerfa og áhrifamódelum sem notuð voru til að spá fyrir um hvern áhrifavísi án frekari aðlögunar. WGII veitir frekara mat á áhrifum á mannleg og náttúruleg kerfi með því að nota þessar spár og viðbótar sannanir. 

Óhjákvæmilegar, óafturkræfar og óvæntar breytingar – líkur og áhættur 

Sumar breytingar til framtíðar eru óhjákvæmilegar og/eða óafturkræfar en unnt er að draga úr þeim með miklum, hröðum og viðvarandi samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Líkur á óvæntum og/eða óafturkræfum breytingum aukast með aukinni hlýnun. Á sama hátt aukst líkur á ólíklegum atburðum með miklum neikvæðum afleiðingum í samræmi við aukna hlýnun (mikil vissa). 

Aðlögunarkostir og takmörkun þeirra í hlýrri heimi  

Með aukinni hlýnun verða aðlögunarkostir, sem eru framkvæmanlegir og árangursríkir í dag, takmarkaðir og síður vænlegir til árangurs. Tap og tjón mun aukast með aukinni hnattrænni hlýnun og mann- og náttúruleg kerfi færast nær mörkum aðlögunar. Hægt er að forðast slæmar aðlögunaraðgerðir, aðgerðir sem minnka loftslagsþol, með sveigjanlegum langtímaáætlunum sem taka mið af öllum og innleiðingu aðlögunaraðgerða þvert á geira með afleiddum ávinningi fyrir aðra geira og kerfi (mikil vissa).  

Kolefniskvóti og nettó núll losun 

Nettólosun koldíoxíðs þarf að vera núll svo hægt sé að takmarka hnattræna hlýnun af mannavöldum. Uppsöfnuð kolefnislosun fram að því að nettó núll losun er náð og samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda á þessum áratug ávarðar að miklu leyti hvort hægt verði að takmarka hlýnun við 1,5°C eða 2°C (mikil vissa). Áætlað er að losun CO2 frá núverandi innviðum jarðefnaeldsneytis fari fram úr eftirstandandi kolefniskvóta fyrir 1,5°C (50%) án frekari förgunar og föngunar (mikil vissa).  

Brautir losunar 

Allir útreikningar ar sem losun er slík að hlýnun takmarkast við 1,5°C (>50%) og fer lítið sem ekkert umfram það og þar sem hlýnun er takmörkuð við 2°C (67%) fela í sér hraðan eða, í flestum tilfellum, tafarlausan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í öllum geirum á þessum áratug. Nettó núll losun koldíoxíðs fyrir þessar brautir losunar er náð snemma á sjötta áratug þessarar aldar fyrir fyrri sviðsmyndina eða snemma á áttunda áratug þessarar aldar fyrir seinni sviðsmyndina (mikil vissa).  

Figure_SPM_5_isl

Mynd 4 Hluti af SPM5:  Hnattrænar brautir losunar í samræmi við innleiddar stefnur og áætlanir til að draga úr losun. 

Framúrkeyrsla: Farið yfir mörk hlýnunar 

Ef hlýnun fer fram úr tilteknum gildum, svo sem 1,5°C, er mögulegt að draga úr henni aftur með því að ná og viðhalda nettó neikvæðri losun koldíoxíðs. Það krefðist aukinnar föngunar og förgunar koldíoxíðs samanborið við þær sviðsmyndir þar sem hlýnun fer ekki yfir tiltekin gildi. Framúrkeyrsla felur í sér óhagstæð áhrif, sum óafturkræf, og aukna áhættu fyrir mannleg og náttúrleg kerfi, sem aukast með umfangi og tímalengd framúrkeyrslunnar (mikil vissa). 

C Viðbrögð í náinni framtíð  

Mikilvægi samþættra loftslagsaðgerða í náinni framtíð  

Loftslagsbreytingar eru ógn við velsæld mannkyns og heilbrigði jarðar (mjög mikil vissa). Tækifæri til þess að tryggja byggilega og sjálfbæra framtíð fyrir alla er að glatast (mjög mikil vissa). Loftslagsþolin þróun samþættir aðlögun og mótvægisaðgerðir til þess að þoka áfram sjálfbærri þróun fyrir alla. Hún er gerð möguleg með auknu alþjóðlegu samstarfi sem felur í sér bætt aðgengi að fjármagni, sérstaklega fyrir berskjölduð svæði, geira og hópa, stjórnun sem tekur tillit til allra og samþættum stefnum (mikil vissa). Þær aðgerðir sem innleiddar eru á þessum áratug munu hafa áhrif þegar í stað og til þúsunda ára (mikil vissa). 

Ávinningur af aðgerðum í nálægri framtíð  

Miklar, hraðar og viðvarandi mótvægisaðgerðir og hraðari innleiðing aðlögunaraðgerða á þessum áratug myndu draga úr væntu tapi og tjóni fyrir mannkyn og vistkerfi (mjög mikil vissa) og hafa í för með sér samlegð, sérstaklega fyrir loftgæði og heilsu (mikil vissa). Ef mótvægis- og aðlögunaraðgerðir dragast á langinn munu innviðir sem fela í sér mikla losun festast í sessi, hætta á eignatjóni aukast og kostnaður fara stigvaxandi, fýsileiki aðgerða minnka og tap og tjón aukast (mikil vissa). Aðgerðir og viðbrögð í nálægri framtíð fela í sér miklar fyrirfram fjárfestingar og neikvæðar breytingar sem hægt er að takmarka með réttri stefnumótun (mikil vissa).  

Figure_SPM_7_isl

Mynd 5, SPM7: Fjölmörg tækifæri til þess að útvíkka loftslagsaðgerðir. (a) sýnir hagkvæmni aðlögunaraðgerða og viðbragða við loftslagsbreytingum og möguleika mótvægisaðgerða í nálægri framtíð. Vinstra megin eru loftslags- og aðlögunaraðgerðir metnar út frá hagkvæmni og samlegð við mótvægisaðgerðir í nálægðri framtíð allt að 1,5°C. Hægra megin má sjá valdar mótvægisaðgerðir ásamt áætluðum kostnaði og mögulegu framlagi til samdráttar í losun. Hlutfallslegt mögulegt framlag til samdráttar í losun og kostnaður er mismunandi eftir staðsetningu, samhengi og tíma og til lengri tíma litið miðað við árið 2030. Mögulegt framlag til samdráttar í losun (lárétti ásinn) er hreinn samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda sem er sundurliðaður í kostnaðarflokka (litaða súluhluta) miðað við grunngildi fyrir losun sem samanstendur af núverandi viðmiðunarsviðsmyndum (fyrir árið 2019). (b) sýnir möguleika á því hvernig hægt er að draga úr eftirspurn fyrir árið 2050. Möguleikar eru metnir út frá um það bil 500 rannsóknum sem spanna öll svæði heims. Grunnlínan (hvít strik) tekur mið af geirabundinni meðallosun gróðurhúsalofttegunda árið 2050 skv. sviðsmyndunum tveimur (IEA-STEPS og IP_ModAct) sem eru í samræmi við stefnur sem ríkisstjórnir landanna hafa tilkynnt fram til ársins 2020. Græna örin táknar möguleika á að draga úr losun á eftirspurnarhliðinni. Spann á möguleikum til samdráttar er sýnt með línu milli punkta sem sýna mestu og minnstu möguleika sem greint er frá í heimildum. Síðasta röðin sýnir hvernig valkostir til að draga úr eftirspurn í öðrum geirum geta haft áhrif á heildareftirspurn eftir raforku. Dökkgráa strikið sýnir áætlaða aukningu raforkueftirspurnar umfram grunnlínu 2050 vegna aukinnar rafvæðingar í öðrum geirum. Hægt að komast hjá þessari áætluðu aukningu á eftirspurn með aðgerðum sem draga úr eftirspurn á sviði innviða og félagsmenningarlegum þáttum sem hafa áhrif á raforkunotkun í iðnaði, landflutningum og byggingum (græna örin). 

Mótvægis- og aðlögunaraðgerðir þvert á kerfi  

Hraðar og víðtækar breytingar þvert á geira og kerfi eru nauðsynlegar til þess að ná miklum og viðvarandi samdrætti í losun og tryggja byggilega og sjálfbæra framtíð fyrir alla. Til þess að kerfisbreytingar eigi sér stað er mikilvægt að útvíkka mótvægis og aðlögunarkosti. Þegar eru til staðar framkvæmanlegir, áhrifaríkir og ódýrir valmöguleikar fyrir mótvægis- og aðlögunaraðgerðir, mismunandi á milli kerfa og svæða (mikil vissa).  

Samlegðaráhrif og fórnarkostir 

Það er mikilvægt fyrir sjálbæra þróun að réttlátum mótvægis- og aðlögunaraðgerðum vegna loftslagsbreytinga sé flýtt. Mótvægis- og aðlögunaðgerðir hafa meiri samlegðaráhrif en minni með sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Samlegðaráhrif og fórnarkostir eru háðir samhengi og umfangi innleiðingar (mikil vissa).  

Réttlæti og þátttaka 

Með því að forgangsraða sanngirni, jöfnuði, þátttöku og réttlátum umskiptum er unnt að stuðla að aðlögun, metnaðarfullum mótvægisaðgerðum og loftslagsþolinni þróun. Afrakstur aðlögunar er hægt að magna með auknum stuðningi við svæði og íbúa sem eru hvað berkjaldaðastir fyrir loftslagsvá. Með því að samþætta aðlögun vegna loftslagsbreytinga inn í verkefni sem snúa að félagslegri vernd byggist upp loftslagsþol. Margar leiðir, svo sem breytt hegðun og lífsstíll, eru til staðar til þess að draga úr neyslu með jákvæðum áhrifum á samfélagslega velsæld (mikil vissa). 

Stjórnarhættir og stefnur  

Árangursríkum loftslagsaðgerðum verður náð með skuldbindingu stjórnvalda, samþættingu allra stiga stjórnsýslunnar, lögum, stefnum og áætlunum og bættu aðgengi að fjármagni og tækni. Skýr markmið, samræming á milli stefnumótenda og stjórnhættir sem taka mið af öllum greiða fyrir áhrifaríkum loftslagsaðgerðum. Regluverk og efnahagsleg stjórntæki geta stutt við mikinn samdrátt í losun og loftslagsþol ef þau eru útvíkkuð og notuð ríkulega. Með því að beita fjölbreyttri þekkingu er stutt við loftslagsþolna þróun (mikil vissa).   

Efnahagsmál, tækni og alþjóðlegt samstarf  

Fjármagn, tækni og alþjóðlegt samstarf ráða úrslitum um hvort unnt sé að flýta loftslagsaðgerðum. Fjármagn til aðlögunar- og mótvægisaðgerða þarf að aukast margfalt ef ná á loftslagsmarkmiðum. Nægt fjármagn er til staðar til þess að koma til móts við fjármagnsþörf en enn eru hindranir í vegi fyrir því að fjármagni sé veitt í loftslagsaðgerðir. Áframhaldandi tækniþróun er lykillinn að því að unnt sé að flýta fyrir upptöku nýrrar tækni og starfshátta (mikil vissa). 

Fyrirvari 

Í þessari frétt eru þýðingar á myndum, SPM1, SPM2, SPM3 og SPM7 og hluti af mynd SPM5, úr samantektarskýrslu sjöttu matsskýrslu IPCC, samantekt fyrir stefnumótendur. Ekki er um þýðingu IPCC að ræða heldur hefur Veðurstofa Íslands þýtt myndirnar. Veðurstofa Íslands er tengiliður Íslands við IPCC. Myndirnar eru þýddar með það í huga að endurspegla eins og frekast er unnt skilaboð IPCC. Sem eining innan Sameinuðu þjóðanna birtir IPCC skýrslur sínar á sex opinberum tungumálum samtakanna (arabísku, kínversku, ensku, frönsku, rússnesku og spænsku). Hægt er að nálgast útgáfur á þessum tungumálum hér, www.ipcc.ch. Frekari upplýsingar er hægt að nálgast hjá skrifstofu IPCC (heimilisfang: 7bis Avenue de la Paix, C.P. 2300, 1211 Geneva 2, Switzerland; tölvupóstur: ipcc-sec@wmo.int)

“This translation of  Figures SPM1, SPM2, SPM3, SPM7 and part of Figure SPM5 of the Synthesis report of the IPCC Sixth Assesment Report (AR6), Summary for Policymakers, is not an IPCC translation. It has been provided by the Icelandic Climate Service and Adaptation Centre at the Icelandic Met Office with the aim of reflecting in the most accurate way the language used in the original text.”    

"As a body of the United Nations, the IPCC publishes its reports in the six official UN languages (Arabic, Chinese, English, French, Russian), Spanish). Versions in these languages are available for download at www.ipcc.ch. For further information, please contact the IPCC Secretariat (Address: 7bis Avenue de la Paix, C.P. 2300, 1211 Geneva 2, Switzerland; e-mail: ipcc-sec@wmo.int).

Kvarðað orðalag

Kvarda

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica