Ársfundur EUROVOLC samstarfsverkefnisins hófst í dag
Um 120 sérfræðingar frá 9 Evrópulöndum taka þátt fundinum sem stendur fram í næstu viku
Í dag hófst ársfundur alþjóðlega EUROVOLC samstarfsins. EURopean Network of Observatories and Research Infrastructures for VOLCanology er samstarfsvettvangur fjölda sérfræðinga í jarðvísindum frá níu Evrópulöndum, en verkefnið hófst í byrjun árs 2018 og mun standa fram í lok nóvember á þessu ári. Fundurinn er allur rafrænn.
EUROVOLC er víðtækt samstarfsverkefni í eldfjallafræði, styrkt af Innviðaáætlun Horizon 2020 rammaáætlunar Evrópusambandsins. Verkefnið tekur til 19 samstarfsaðila þar af eru þrír á Íslandi. Veðurstofa Íslands leiðir verkefnið og helstu samstarfsaðilar í verkefninu eru Eldfjalla- og Jarðeðlisfræðistofnun Ítalíu (INGV) í Cantania, á Sikiley og Jarðvísindastofnun Háskólans. Verkefnið er styrkt um 5 milljónir evra (um 780 millj. íslenskar krónur) en heildarumfang þess eru 6 milljónir evra. Um fjórðungur styrkfjárins rennur til íslenskra stofnana, en auk Veðurstofunnar og Háskólans eru Almannavarnir einnig þátttakendur í verkefninu. Fjórum af 25 aðalverkþáttum verkefnisins stýrir jarðvísindafólk á Veðurstofu Íslands.
Markmiðið að efla þekkingu okkar og getu til að vakta og
skilja hegðun eldstöðva
„Markmið verkefnisins er að auka samvinnu milli þeirra stofnanna og vísindamanna innan Evrópu sem vakta og rannsaka Evrópsk eldgosasvæði“, segir Kristín S. Vogfjörð hópstjóri jarðar og eldgosa á Veðurstofu Íslands sem leiðir verkefnið. „Það er mikilvægt að þessi stóri hópur vísindamanna deili þekkingu og upplýsingum sín á milli til að efla þekkingu okkar og getu til að vakta og skilja hegðun eldstöðva“, segir Kristín.
EUROVOLC er samsett úr þrem mismunandi tegundum verkefna; svonefndum "networking"-verkefnum, rannsóknarverkefnum og verkefnum sem veita aðgengi að gögnum og rannsóknarinnviðum í eldfjallaeftirlits- og rannsóknarstofnunum Evrópu. Bæði Veðurstofan og Háskóli Íslands munu veita aðgengi að rannsóknarinnviðum sínum til umsækjenda sem hyggjast stunda rannsóknir á íslenskum eldfjöllum, en önnur eldfjallasvæði sem eru í boði eru Etna og Vesúvíus á Ítalíu og eldfjöll á Azoreyjum ásamt eldfjöllum á Reunion-eyju í Indlandshafi og á Gualdeloupe og Montserrat eyjum í Karíbahafi. Þá er einnig veitt agengi að rannsóknarstofum á Spáni og Ítalíu.
Umfangsmikið verkefni sem skilar miklum ávinningi
„Þetta samstarfsverkefni er mjög umfangsmikið og gríðarlega verðmætt fyrir rannsóknarstofnanir og þær stofnanir sem stunda vöktun eldstöðva“, segir Kristín. „Við sáum það til dæmis í gosinu í Eyjafjallajökli hversu víðtæk áhrif gossins voru um alla Evrópu þannig að það er ekki síst þess vegna sem samstarf innan Evrópu í eldfjallafræði er mikilvægt. Verkefnið styrkir einnig stöðu íslensks jarðvísindafólks í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum og mörg þessara verkefna fjármagna vöktun og rannsóknir á eldstöðvum hér á Íslandi. Þannig skilar EUROVOLC verkefnið miklum ávinningi til náttúruváreftirlits og rannsókna hér á Íslandi“, segir Kristín.
Ein af mikilvægustu afurðum EUROVOLC samstarfsins er Evrópska eldfjallavefsjáin. Vefsjáin, sem er náskyld Íslensku eldfjallavefsjánni, geymir mikið magn upplýsinga og fróðleiks um eldstöðvar Evrópu, bæði fyrir rannsóknasamfélagið sem og almenning.
Fundurinn nú er þriðji ársfundur EUROVOLC verkefnisins, og mörgum af rannóknarverkþáttum þess er að ljúka. Helsta áhersluatriði fundarins nú er að styrkja tengsl starfsfólks eldfjallaeftirlitsstofnana við vísindasamfélagið. Fundurinn stendur yfir í sex daga og verður m.a. fjallað um opnun Evrópsku Eldfjallavefsjárinnar sem leidd er af Söru Barsotti, en hún leiðir einnig eldfjallavöktun Veðurstofunnar. Einnig verða kynntar helstu niðurstöður og afrakstur hópa sem vinna að rannsóknum á: (1) kvikuhreyfingum og ferlum í jarðskorpunni; (2) samspili eldfjalla og lofthjúps; (3) eldfjallavá og samskiptum við viðbragðsaðila; (4) ásamt nýjungum í mælitækni. Ennfremur verður farið yfir atburðarrás yfirstandandi eldgoss í Etnu og jarðhræringa á Reykjanesskaga.
EUROVOLC byggir á afrakstri og eða tengist öðrum stórum Evrópuverkefnum (EPOS, FUTUREVOLC og MED-SUV) sem miða öll að uppbyggingu rannsóknarinnviða Evrópu í jarðvísindum, sem og eflingu og samtengingu rannsóknarumhverfis jarðvísindafólks álfunnar.
Það eru allmörg virk eldfjallasvæði í Evrópu og hér eru þau helstu merkt inn á kort. Einnig nær EUROVOLC verkefnið yfir önnur virk svæði sem tengjast löndum Evrópu s.s. eldfjöllum á Reunion-eyju í Indlandshafi og á Gualdeloupe og Montserrat eyjum í Karíbahafi.