Árið 2023 var ár andstæðna í Evrópu
Loftslagsþjónusta mikilvæg til þess að bregðast við afleiðingum loftslagsbreytinga
„Árið 2023 voru áhrif loftslagsbreytinga í Evrópu greinileg. Milljónir manna urðu fyrir áhrifum öfgafullra veðuratburða og áframhaldandi þróun mótvægis- og aðlögunaraðgerða er algjört forgangsmál. Til þess að unnt sé að bregðast við er mikilvægt að skilja þróun loftslags.“
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Loftslagsþjónustu Evrópu
(Copernicus, C3S) og Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) um stöðu loftslags í
Evrópu árið 2023, State of the Climate Europe.
Loftslag í Evrópu í hitnandi heimi
Evrópa er ekki undanskilin þegar kemur að afleiðingum
loftslagsbreytinga. Hlýnun mælist hröðust í Evrópu, en hiti álfunnar hækkar
tvöfalt á við hnattræna hlýnun. Árið 2023 mældist hiti í Evrópu 1,0 °C hærri en
meðalhiti viðmiðunartímabilsins 1991-2020 og 2,6 °C hærri en fyrir iðnbyltingu
(mynd 1). Ársmeðalhiti var yfir meðallagi í nær allri álfunni árið 2023, ef frá
eru talin Skandinavía, Ísland og suðausturhluti Grænlands.
Mynd 1. Ársmeðalhiti í Evrópu sem frávik við viðmiðunartímabilið 1991-2020. Gögn: HadCRUT5, NOAAGlobalTemp, GISTEMP, Berkeley Earth, JRA-55, ERA5. Heimild: Alþjóðaveðurfræðistofnunin. Upplýsingar um aðferðafræði er að finna hér.
Sumarið 2023 í Evrópu – árstíð andstæðna
Þó að sumarið 2023 hafi ekki verið það heitasta í sögunni
mátti merkja ýmis konar öfgar í veðurfari í Evrópu. Á tímabilinu júní og út
september september urðu hitabylgjur, gróðureldar, þurrkar og flóð. Sumarið
einkenndist af andstæðum í hita og úrkomu, bæði þvert á álfuna og á milli
mánaða (mynd 2). Júnímánuður í norðvesturhluta Evrópu var sá hlýjasti í sögunni
á meðan úrkoma á svæðum við Miðjarðarhafið var vel yfir meðallagi. Í júlí voru aðstæður einmitt á hinn bóginn, úrkoma norðvestan til en heitt og þurrt sunnar í álfunni. Í
ágúst var hiti í Suður-Evrópu yfir meðallagi og mældist september sá hlýjasti í
sögunni fyrir Evrópu í heild sinni.
Mynd 2. (Efri) Meðalhiti mánaða (°C) og (neðri) meðalúrkoma mánaða (mm) í Evrópu frá júní til september 2023, sem frávik frá meðaltali sömu mánaða á tímabilinu 1991–2020. Gögn: ERA5. Heimild: C3S/ECMWF
Sjávarhiti allt að 5,5°C yfir meðallagi
Fyrir árið 2023 í heild sinni var meðalhiti sjávar á Evrópsku hafsvæði sá mesti í sögunni (mynd 3). Hitabylgja í hafi vísar til langtímakafla þar sem sjávarhiti er einstaklega hár. Slíkt getur haft umtalsverð, og oft afar slæm, áhrif á vistkerfi sjávar og líffræðilegan fjölbreytileika. Árið 2023 var meðalsjávarhiti á ákveðnum hafsvæðum í Evrópu og á stórum hluta Norður-Atlantshafs yfir meðallagi sem rekja má til hitabylgja í hafi yfir sumartímann. Vegna slíkra hitabylgja mældist sjávarhiti allt að 5 °C yfir meðallagi á ákveðnum svæðum í Atlantshafi, vestur af Írlandi og í kringum Bretlandseyjar. Í júlí og ágúst mældist sjávarhiti 5,5 °C yfir meðallagi á einstaka svæðum í Miðjarðarhafinu.
Mynd 3. Flokkun meðalhita sjávar árið 2023 í samanburði við 44 ára tímabil frá 1980-2023. Dökkir litir sýna efsta og neðsta flokk ; dekksti rauði liturinn sýnir svæði sem voru þau heitustu í sögunni árið 2023. Ljósari svæði sýna svæði sem eru nær meðallagi. Gögn: ESA SST CCI Analysis v3.0. Heimild: ESACCI/EOCIS/UKMCAS and C3S/ECMWF.
Loftslagsbreytingar settar í samhengi við heilsufar
Í júlí 2023 lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) því yfir að loftslagsváin og atburðir tengdir henni væru bráð ógn við heilsu fólks. Loftslagsbreytingar geta aukið á fyrirliggjandi sjúkdóma og gert andlát vegna hitabylgja, gróðurelda, storma og flóða líklegri. Þær geta aukið tíðni ýmiskonar ósmitbærra sjúkdóma, eins og geðsjúkdóma, á meðan óbein áhrif fela í sér breytingar á loftgæðum og skert vatns- og fæðuöryggi.
“Loftslagsváin er stærsta áskorun okkar kynslóðar. Kostnaðurinn við að bregðast við virðist hár en kostnaðurinn við að gera ekkert er mun hærri,” segir Celeste Saulo, aðalrritari Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar.
Í skýrslunni eru sérstaklega dregin fram djúpstæð áhrif mikils hita á lýðheilsu. Hitaálag er hugtak sem notað er yfir það hvernig líkami mannsins bregst við áhrifum hás hita í bland við aðra þætti, svo sem raka og vind. Langvarandi hitaálag getur ýtt undir heilsubresti og aukið áhættu á hitatengdum sjúkdómum, sérstaklega meðal viðkvæmra hópa. Við hámark hitabylgjunnar sem skók hluta Evrópu í júlí 2023 er talið að 41% íbúa Suður-Evrópu hafi orðið fyrir miklu hitaálagi. Talið er að hitatengd dauðsföll hafi aukist um 94% á síðustu 20 árum á þeim svæðum þar sem fylgst er með þeim. Þessi þróun vekur sérstakar áhyggur í ljósi þess að í Evrópu fer fjöldi daga þar sem hitaálag er mikið sífellt vaxandi.
Evrópuríki ekki tekið nægt tillit til áhrifa loftslagsbreytinga á heilbrigðiskerfið
Vísbendingar eru um að meðvitund um áhrif hlýnandi loftslags á almenning, viðkvæma hópa og heilbrigðisþjónustu sé góð. Aftur á móti sé skilningur á áhættunni lítill. Í skýrslunni er bent á að viðvörunarkerfi og vöktun auki meðvitund um möguleg áhrif loftslagsbreytinga og geri samfélagið þannig betur í stakk búið til þess að bregðast við. Í því samhengi er bent á mikilvægi þess að sérsníða loftslagsþjónustu fyrir heilbrigðisgeirann. Í því tilfelli liggi beinast við að aðlaga núverandi kerfi að þeim áskorunum sem framundan eru en hingað til hafi framþróun í þeim efnum verið takmörkuð.
Bent er á að minna en fjórðungur evrópskra aðildarríkja Parísarsamningsins hafi tekið mið af heilsu í stefnumótun um aðlögun að loftslagsbreytingum en meiri áhersla lögð á mótvægisaðgerðir. Vert er að benda á að í stefnu Íslands um aðlögun að loftslagsbreytingum, Í ljósi loftslagsvár, er sérstakur kafli sem inniheldur markmið á sviði lýðheilsu. Þar er til að mynda lögð áhersla á að líta til viðkvæmra hópa til að sporna gegn ójöfnuði í heilsu vegna loftslagsbreytinga og að þróa vísa sem snúar að loftslagi og lýðheilsu.