Fréttir
Gosmynd---Copy
Eldgosið nokkrum klukkustundum eftir að kvikan náði upp á yfirborðið en þetta var fyrsta ljósmyndin sem náðist af gosinu, hún var tekin kl. 23:03. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Kristín Jónsdóttir)

Ár liðið frá upphafi eldgossins við Fagradalsfjall

19.3.2022

Í dag, 19. mars, er ár liðið frá því að eldgos hófst við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga. Fyrirboða eldgossins varð í raun fyrst vart í desember 2019 með mikilli  skjálftavirkni  í og við Þorbjörn sem hafði áhrif á allan Reykjanesskagann. Ástæða skjálftanna var kvika sem var að reyna að brjóta sér leið upp á yfirborðið við Þorbjörn. Mat vísindaráðs almannavarna eftir fyrstu hrinurnar við Fagradalsfjall var það að atburðarás eins og var að hefjast á Reykjanesskaga gæti orðið mjög löng og kaflaskipt, þar sem dregur úr virkni tímabundið án þess að henni sé að fullu lokið. Sú varð raunin.

Það var síðan þann 24. febrúar 2021 sem virknin byrjaði á ný, þegar krafmiklir skjálftar riðu um Reykjanesskagann og sem fundust víða um landið.  Hrinan hófst með skjálfta við Keili sem var 5,7 að stærð og komu tugir þúsunda skjálfta í kjölfarið á næstu vikum. Síðustu dagana fyrir eldgosið var skjálftavirknin með minna móti og höfðu engir skjálftar mælst yfir 4 að stærð, en það hafði ekki gerst frá því að skjálftahrinan hófst. Það má segja að það hafi verið lognið á undan storminum. Þann 19. mars kl 20:45 opnaðist sprunga við Fagradalsfjall sem bauð upp á stórfenglega sjón í kvöldbirtunni. Eldgos var hafið.

Mynd1

Þróun jarðskjálftanna í kringum Fagradalsfjall frá desmeber 2019 þangað til eldgos hófst. (Graf: Skjálfta-Lísa fengin af vef Veðustofunnar)

"Lítið gos" en því fylgdu miklar áskoranir

Hraunflæðið úr þessu gosi er tiltölulega lítið á mælikvarða eldgosa sem orðið hafa á Íslandi. En vegna  staðsetningar, nálægðar við byggð og aðgengi almennings og vísindamanna að gosstöðvunum, má segja að áhrif gossins og þær áskoranir sem því fylgdu hafi orðið meiri en með önnur nýleg gos.

„Tímabilið áður en eldgosið hófst var mjög stressandi og því fylgdi álag fyrir teymið“ segir Michelle Maree Parks, þegar hún var spurð um þær áskoranir sem urðu á vegi hennar og hvað hún hafði lært af þeim. Michelle er ein af vísindamönnum í aflögunarteymi Veðurstofunnar, sem fylgist meðal annars með landrisi.  „Óróinn hófst í desember 2019 þannig að þarna í mars 2021 höfðum við  þegar verið búin að vinna hörðum höndum í 14 mánuði við vöktun svæðisins. Við vorum stöðugt að uppfæra aflögunarkort frá gervihnöttum og að keyra líkön til að reyna að finna út hvað aflögunin var að segja okkur“ segir Michelle.

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, segir það hafa reynst mikil áskorun að spá fyrir um hvort og hvenær gos myndi hefjast. „Það kom á óvart að það dróg úr skjálftavirkni í aðdraganda eldgossins og í raun voru merkin um að gos myndi hefjast þennan dag afar lítil“ segir Kristín þegar að hún rifjar upp atburðarás föstudagins fyrir sex mánuðum. „Helst að það mældust nokkrir grunnir skjálftar sem við skiljum nú að voru til marks um að kvikan lá grunnt“, segir Kristín.

Mynd4

Eftirlitssalur Veðurstofunnar rétt eftir miðnætti á fyrsta kvöldi eldgossins. Kristín Vogfjörð, hópstjóri jarðar og eldgosahóps situr fyrir aftan Sigurdísi Björgu Jónasdóttur, náttúruvársérfræðing á vakt, sem ræðir við Söru Barsotti, fagstjóra eldfjallavár. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Haukur Hauksson)

Eldgosið var stöðugt að breyta um takt

Eldgosið var síbreytilegt. Það hefur fært vísindamönnum einstakt tækifæri til að auka við þekkingu sína en jafnframt gefið almenningi kost á því að komast í tæri við náttúruöflin. Það má kannski segja að eldgos séu jafn heillandi og þau geta verið hættuleg.

Þegar ný gosop tóku að opnast við upphaf gossins, reyndu vísindamenn að rýna í gögn til að sjá hvort mögulegt væri að spá fyrir um hvar og hvenær næsta opnun yrði. Fljótlega tókst að greina fyrirboða nýrrar opnunar með því að rýna í óróagröf. Þannig gat sólarhringsvakt Veðurstofunnar sent út viðvörun til viðbragðsaðila á svæðinu sem gátu brugðist við í tíma.

Þetta var ekki síst mikilvægt þar sem að eldgosið hafði mikið aðdráttarafl frá upphafi. Allt að 6000 ferðamenn komu að því fyrstu vikurnar og mikill fjöldi þegar sumarið hófst og útlendingar gátu heimsótt Ísland á ný. „Það var mikil áskorun að vakta svæðið til að reyna að tryggja öryggi fólks, þar sem eldgosið var stöðugt að breytast og hætturnar samfara því“ segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofu Íslands.

„Við sáum hraunflæði, gasmengun, hraunbombur, gróðurelda og auðvitað erfiðar aðstæður vegna veðurs. Þessi samblanda hefur oft verið krefjandi. En samstarf milli vísindamanna og viðbragðsaðila hefur verið framúrskarandi sem hefur gert okkur kleift að tryggja öryggi fólks “ segir Sara að lokum.

Mynd12Gosið var kallað „lítið“ gos, en ef við skoðum stærðarhlutföll á myndinni af vefmyndavél RÚV, þá er „lítið“ gos afstætt hugtak. Innan hringsins í horninu niðri vinstra megin má sjá nokkrar manneskjur við hraunjaðarinn og ofar er hringur utan um þyrlu sem sveimar yfir gosstöðvunum. Viðbragðsaðilar áttu fljótlega fullt í fangi með að koma í veg fyrir að fólk setti sig í bráða hættu við gosstöðvarnar. (Ljósmynd: Fengin af vefmyndavél RÚV)

Hraunflæðilíkön sönnuðu sig

Veðurstofan og Háskóli Íslands hafa verið í samstarfi um notkun og þróun hraunflæðilíkana í verkefni sem styrkt er af Rannsóknarsjóði á vegum RANNÍS. Hraunflæðilíkön voru fyrst notuð í gosinu í Holuhrauni fyrir um sex árum síðan, en það er fyrst núna í eldgosinu við Fagradalsfjall sem veruleg þróun hefur átt sér stað í notkun þeirra hér á landi.

“Við teljum að í eldgosinu við Fagradalsfjall hafi hraunflæðilíkön virkilega náð að sanna sig”, segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofu Íslands. “Líkönin hafa nýst viðbragðsaðilum við að meta hvaða innviðir eru mögulega í hættu vegna hraunflæðis sem og að stýra umferð og bæta öryggi fólks við eldstöðvarnar. Þannig að við teljum að þessi líkön hafi komið að góðum notum”, segir Sara.

„Þegar kemur að hraunflæði er ef til vill ekki eins mikilvægt að svara spurningunni um hvenær hraun nái ákveðinni útbreiðslu eins og hver mögulegur farvegur hraunsins verði“ segir Sara. „Í því samhengi teljum við að hraunflæðilíkön geti áfram nýst okkur vel við gerð viðbragðsáætlanna“.

Unnið að frekari þróun hraunflæðilíkana

„Þegar kemur að því að spá fyrir um hvernig náttúruöflin haga sér þá er alltaf talsverð óvissa í spilunum og það er eins með hraunflæðilíkönum“ segir Dr. Gro Birkefeldt Möller Pedersen, rannsóknasérfræðingur hjá Háskóla Íslands, en hún hefur leitt þetta samvinnuverkefni milli háskólans og Veðurstofunnar. „Jafnvel þó svo að hraunflæði mælist stöðugt frá eldstöðinni þarf að taka tilliti til óreglulegs flæðis og sífeldra breytinga á farvegum hraunsins sem sumir eru liggja nú undir hraunhellunni á nokkrum stöðum. Allt þetta skapar ákveðna óvissu í niðurstöðunni“, segir Gro.


(Smelltu á myndina til að sjá hana stærri). Líkanið sýnir tvær sviðsmyndir af mögulegu hraunflæði suður úr Nátthaga, en áhyggjur voru af því að hraun gæti mögulega flætt yfir Suðurstrandarveg. Sviðsmyndirnar gera ráð fyrir hraunflæði upp á 3.1 milljón m3 annars vegar og 29 milljón m3 hinsvegar. Talsverð óvissa ríkir um hversu lengi það tekur fyrir svæðið í Nátthaga að fyllast áður en hraun fer að flæða niður úr dalnum. (Líkan: Veðurstofan/Háskóli Íslands/Gro Birkefeldt Möller Pedersen)

Geldingadalir_lava_thickness_timeseries_with_logo

Hér er samantekt á þróun á umfangi og þykkt hraunbreiðunnar frá upphafi fram til 9. september, en um það leyti hætti hraunflæðið. Kortlagning hraunsins er dæmi um samstarfsverkefni margra aðila, en Jarðvísindastofnun Háskólans, Náttúrfræðistofnun Íslands og Landmælingar Íslands hafa reglulega útbúið þykktarkort sem þessi mynd er byggð á.  (Samantekt: Veðurstofa Íslands/Ragnar Heiðar Þrastarson)

Hugsanlega atburðarrás sem gæti tekið ár eða áratugi

Kröftug jarðskjálftahrina hófst í lok september við suðurenda Keilis og stóð yfir í um mánuð. Landris mældist einnig á svæðinu eftir að dregið hafði verulega úr virkni gossins, þó engin aflögun á yfirborði hafi sést í tengslum við þá hrinu, sem væri merki um að kvika hafi færst nær yfirborðinu. Ekki er óalgengt að kvikusöfnun eigi sér stað undir eldstöðvakerfum í kjölfar eldgosa, án þess að kvika nái yfirborði.

Á síðustu öld mældist veruleg virkni víða á Reykjanesskaganum á árunum 1927-1955 og 1967-1977. En virknin nú er sú mesta sem mælst hefur á Reykjanesskaganum frá upphafi. Vel er hugsanlegt að um sé að ræða atburðarás sem tekur ár eða áratugi, en erfitt er að spá fyrir um framvindu á þessu stigi. Það eina sem vitað er með vissu er að náttúran fer sínu fram. Áfram verður fylgst náið með þróun mála við Fagradalsfjall og á Reykjanesskaga.

Hér er fréttaþráður sem lýsir aðdraganda gossins allt frá skjálftahrinunni sem hófst 24. febrúar.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica