Alþjóðlegur dagur veðurfræði 23. mars
Viðvaranakerfi og viðvaranir í tæka tíð
Í dag, á alþjóðlegum degi veðurfræði, kynntu Sameinuðu þjóðirnar metnaðarfullt markmið til að bregðast við aukinni tíðni náttúruváratburða vegna loftslagsbreytinga. Markmiðið er að innan fimm ára eigi allir jarðarbúar að búa við það öryggi sem fylgir viðvaranakerfum vegna veðurógna og loftslagsbreytinga.António Guterres
aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefur lagt það í hendurnar á Alþjóða veðufræðistofnunni (WMO) að leiða verkefnið og kynna aðgerðaráætlun á næstu
loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Egyptalandi í nóvember næstkomandi um
hvernig þessu markmiði verður náð.
Þetta kom fram í dag,
23. mars á alþjóðlega veðufræðideginum þar sem þemað er „Viðvaranakerfi og
viðvaranir í tæka tíð“.
En hvað eru sérstök viðvörunarkerfi?
Sérstök viðvörunarkerfi fyrir flóð, þurrka, hitabylgjur og storma, er kerfi sem að gefur fólki til kynna að hættuleg veður eru líkleg og gefur ríkisstjórnum, sveitarfélögum og öðrum viðbragðsaðilum tækifæri til að draga úr mögulegum áhrifum þess. Dæmi um viðvörunkerfi líkt og þetta er viðvörunarkerfi Veðurstofunnar sem byggir á alþjóðlegum staðli sem kallast CAP. Hvert CAP skeyti inniheldur upplýsingar um þá náttúruvá sem varað er við, landshlutann sem viðvörunin nær til, gildistíma og mat á því hversu mikil áhrif umrædd vá getur haft á samfélagið.
Með því að fylgjast með ástandi andrúmsloftsins ástamt því að fylgjast með veðurspám sem reiknaðar eru í ofurtölvum má senda áreiðanlegar viðvaranir með góðum fyrirvara. Markmiðið er að skilja betur hvaða hættur fyrirsjáanlegur stormur getur haft í för með sér á ákveðin svæði, hvaða breytur geta verið þegar að um borg, dreifbýli, strandlengjur, eða hálendissvæði er að ræða.
Dæmi um bætta þjónustu á sviði viðvarana vegna veðurs er samstarf Veðurstofa
Íslands við Veðurstofur Danmerkur,
Írlands og Hollands hafa tekið höndum saman um rekstur reiknilíkana og
úrvinnslu veðurgagna með nýrri ofurtölvu sem staðsett verður á Veðurstofu
Íslands. Grunnurinn í þessu samstarfi liggur í aukinni þörf fyrir áreiðanleika
veðurspár sem undirbyggja og styðja ákvarðanatöku þegar kemur að vályndu veðri
og áhrifum loftslagsbreytinga. Ofurtölvan á að vera komin í gagnið snemma árs
2023 og mun þá veita aðgang að nákvæmari háupplausna veðurspám sem bæta
veðurþjónustu til framtíðar með áreiðanlegri veðurviðvörunum.