Alþjóðlegur dagur vatnsins
Þema dagsins í ár er "Enginn útundan"
Þegar rignir sem mest hér á Íslandi getur verið auðvelt að gleyma því að það eru ekki allir jafnheppnir og við Íslendingar, sem eigum gnægð af fersku neysluvatni. En staðreyndin er sú að daglega deyja þúsundir manna í heiminum úr sjúkdómum sem tengjast skorti á vatni og hreinlæti. Rúmlega 2 milljarðar jarðarbúa hafa ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni og tvöfalt fleiri eða 4,3 milljarðar hafa ekki aðgang að viðunandi salernis- og hreinlætisaðstöðu.
Eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem samþykkt voru árið 2015, er að tryggja aðgengi allra jarðarbúa að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu, auk þess að stuðla að sjálfbærri nýtingu vatns. Um er að ræða heimsmarkmiðið sem nefnist „Hreint vatn og hreinlætisaðstaða“. Vatn gegnir þó óneitanlega veigamiklu hlutverki í öðrum heimsmarkmiðum og má þar nefna „Heilsa og vellíðan“, „Ekkert hungur“ og „Sjálfbær orka“.
Vatn gegnir óneitanlega
veigamiklu hlutverki í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna
Hreint vatn fyrir alla
Í dag, þann 22. mars, er dagur vatnsins . Dagurinn hefur verið tileinkaður málefninu síðan 1992, þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna lagði til við aðildarríkin að dagurinn yrði notaður til að skipuleggja atburði, uppákomur eða umfjöllun sem væru til þess fallin að styrkja vitund almennings um nauðsyn þess að standa vörð um vatn og um rétt mannkyns á hreinu vatni. Þema dagsins í ár er „Enginn útundan“ (e. Leaving no one behind) og hefur það beina tengingu inn í sjötta markmið Sameinuðu þjóðanna, að tryggja að allir hafi aðgang að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu, og er miðað að því að markmiðinu hafi verið náð fyrir árið 2030. Því miður er það staðreynd að í dag verða ýmsir sem eiga almennt undir högg að sækja útundan í þessu tilliti. Má þar nefna konur, börn, flóttamenn og frumbyggja.
Ríkisstjórn
Íslands hefur sett í forgang að vinna að auknum vatnsgæðum á
Íslandi með því að draga úr mengun, útiloka óæskilega sorplosun, auka skólphreinsun
frá þéttbýli og lágmarka losun hættulegra efna út í umhverfið. Auk þess verði
stuðlað að verndun og endurheimt vatnavistkerfa og koma á stjórnun
vatnsauðlinda sem verði samþætt á öllum sviðum.
Samræmd stjórnun vatns til að tryggja gæði
Ísland er nú að innleiða Vatnatilskipun Evrópusambandsins sem byggir á samræmdri stjórnun vatns með það að markmiði að tryggja gæði vatns og vatnalífríkis til framtíðar. Með þeirri aðferðafræði sem notuð er tryggjum við samanburðarhæfni við aðrar Evrópuþjóðir og væntum þess að geta sýnt fram á góða stöðu vatns á Íslandi. Umhverfisstofnun ber ábyrgð á innleiðingunni, en að henni koma einnig fagstofnanir á borð við Hafrannsóknastofnun, Veðurstofu Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands. Verkefninu er ætlað að auka yfirsýn okkar yfir ástand vatns á Íslandi og stuðla að bættri umgengni um þá verðmætu auðlind sem vatnið er.