Fréttir
Þema alþjóðlega veðurfræðidagsins í ár er „Framtíð veðurs, vatns og loftslags fyrir komandi kynslóðir“

Alþjóðlegi veðurfræðidagurinn er í dag

Haldinn árlega af Alþjóðaveðurfræðistofnuninni sem fagnar 150 ára afmæli í ár

23.3.2023

Í dag er alþjóðlegi veðurfræðidagurinn sem haldinn er 23. mars ár hvert á vegum Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar. Þema dagsins í ár er „Framtíð veðurs, vatns og loftslags fyrir komandi kynslóðir“

„Við erum öll nátengd og deilum einni jörð með einum lofthjúpi og einu hafi“ segir í tilkynningu frá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni í tilefni dagsins. Þar er lögð áhersla á að veðrið, loftslag og hringrás vatnsins þekkir engin landamæri og hagar sér ekki eftir pólitískum vindum. Alþjóðleg samvinna er  lykilatriði. Þetta hefur verið leiðarljós í starfi alþjóðaveðurfræðinnar allt frá árinu 1873 og mun vísa veginn til famtíðar hvað varðar þjónustu veðurfræðinnar við samfélagið í dag og við komandi kynslóðir.

Alþjóðaveðufræðistofnunin (WMO) fagnar 150 ára afmæli í ár og fer það vel saman við áherslur alþjóðaveðurfræðidagsins um „Framtíð veðurs, vatns og loftslags fyrir komandi kynslóðir“. Lögð er áhersla á hverju veðurfræðin hefur áorkað, þeim framförum sem hefur verið náð og möguleikum til framtíðar – allt frá veðurskeytum í lok 19. aldar til ofurtölva og gervitungla.

Einstök samvinna sem þjónar samfélögum heims

Í gegnum tíðina hafa veðurstofur um heim allan safnað veðurathugunum allan sólarhringinn, alla daga ársins, allt eftir alþjóðlegum stöðlum sem er grundvöllur þess að geta gefið út veðurspár.

Samfelldar veðurathuganir á Íslandi má rekja talsvert lengra aftur en saga Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar nær. Í Stykkishólmi hófust reglubundnar  veðurathuganir í nóvember 1845, eða fyrir um 178 árum, sem hafa staðið nær óslitið fram til dagsins í dag. Alþjóðaveðurfræðistofnunin veitti viðurkenningu fyrir það starf í maí 2019, en einnig var veitt viðurkenning fyrir samfelldar mælingar að Teigarhorni. Í nóvember 1872 hófust veðurathuganir á Djúpavogi, þær mælingar voru fluttar að Teigarhorni árið 1881 og hafa verið þar allt fram á þennan dag.

Fyrstu formlegu veðurskeytin fóru að berast frá Íslandi til útlanda í ársbyrjun 1936 samkvæmt samkomulagi við Alþjóðaveðurfræðistofnunina. Skeytin voru send í gegnum nýja og öfluga stuttbylgjustöð á Vatnsendahæð. Allmörgum árum áður voru veðurskeyti erlendis frá nýtt hér við gerð veðurspáa og ef til er veðurskipið Lima með þekktustu nöfnum á erlendum veðurskeytastöðvum. Saga samstarfsins innan Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar um að deila gögnum á milli landa og veðurstofa er í raun stórmerkileg saga um sterka framtíðarsýn innan vísinda, tæknilega framþróun, en síðast en ekki síst, dæmi um einstaka samvinnu á milli landa til að þjóna samfélögum heims.

Lesa má nánar um sögu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar á vefsíðu þeirra.

Afmælismyndband WMO

Í þessu myndbandi er saga veðurspáa rakin og hverju samstarf á vettvangi Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar hefur skilað í gegnum tíðina.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica