Alþjóðlegi veðurdagurinn
Heimildarmynd um starfsemi Veðurstofunnar sýnd á RÚV í kvöld
Í dag, 23. mars, er alþjóðlegi veðurdagurinn.
Þema alþjóðlega veðurdagsins í ár er „Vatn og loftslagsmál“ og er sameiginlegt með alþjóðlegum degi vatnsins sem haldinn var í gær. Á undanförnum áratugum hefur hafsjór athugana leitt í ljós að loftslag jarðar er að breytast. Þessar breytingar má greinilega merkja í vatnshvolfi jarðar, bæði ferskvatni og í hafinu, sem er um 97% alls vatns á jörðinni. Megnið af ferskvatninu er frosið, en einnig er stór hluti þess grunnvatn og afgangurinn af ferskvatninu er svo m.a. í stöðuvötnum og straumvötnum. Loftslagsbreytingar hafa haft áhrrif á alla þessa hluta vatnshvolfsins.
Í samanburði við hnattræn samræmd gögn um hækkandi
hitastig eru gögn um vatnsbúskap mjög gloppótt í tíma og rúmi. Á alþjóðlegum
dögum vatns og veðurs er athyglinni beint að þeirri staðreynd að ekki er hægt
að hafa áhrif á einhverja þróun sem ekki er vöktuð, mæld og rannsökuð –
staðreynd sem kemur kunnuglega fyrir sjónir í þeim faraldri sem nú herjar á
samfélög. Það er því knýjandi þörf til þess að bæta mælingar, spár og styrkja
vatnsbúskap til að kljást við þau vandamál sem snúa að of miklu, of litlu, eða
of menguðu vatni. Hér má lesa frétt sem birtist á Alþjóðlega degi vatnsins.
Í tilefni dagsins sýnir RÚV heimildarmyndina „ Á vaktinni í 100 ár “ um starfsemi Veðurstofunnar. Kvikmyndagerðarfólkið Valdimar Leifsson og Bryndís Kristjánsdóttir fylgdu starfsfólki Veðurstofunnar eftir í eitt ár og veitir myndin innsýn í fjölbreytt verkefni Veðurstofunnar sem fagnar 100 ára afmæli í ár.
Stikla úr myndinni "Á vaktinni í 100 ár"
Myndin verður sýnd kl. 20.05 á RÚV.