Fréttir
Fjöldi og tegund viðvarana gefnar út sumarið 2024 eftir spásvæðum.

Aldrei fleiri viðvaranir gefnar út að sumarlagi

Flestar viðvaranir sumarið 2024 voru gefnar út á Suðausturlandi og Breiðafirði en fæstar á höfuðborgarsvæðinu.

11.9.2024

77 viðvaranir voru gefnar út í sumar, þar af átta appelsínugular. Aldrei hafa fleiri viðvaranir verið gefnar út yfir sumartímann frá því að Veðurstofan tók upp nýtt viðvaranakerfi.  

Vidvaranir_mynd1

Fjöldi viðvarana gefnar út yfir sumartímann árin 2018 til 2024.

Vidvaranir_mynd2

Fjöldi viðvarana eftir mánuði sumarið 2024.

Flestar viðvaranir voru gefnar út í júní, 26 gular og átta appelsínugular. Þær tengdust nær allar norðanóveðrinu  sem geisaði í byrjun mánaðarins. Þá gekk yfir landið norðan- og norðvestan hvassviðri eða stormur ásamt mikilli úrkomu á Norður- og Austurlandi. 18 viðvaranir voru gefnar út vegna hríðar og fimm vegna snjókomu, en 11 vegna vinds.

Júlí var nokkuð rólegri, þá voru 13 viðvaranir gefnar út. Óvenju blautt var á vestanverðu landinu, en sex rigningaviðvaranir voru gefnar út í júlí. Eftirstandandi viðvaranir voru vegna vinds.

30 viðvaranir voru gefnar út í ágúst, en þá var bæði úrkomusamt og hvasst í flestum landshlutum. Um verslunarmannahelgina var varað við hvassviðri á sunnan- og vestanverðu landinu. 22. til 24, ágúst rigndi mikið á norðurhelmingi landsins og við lok mánaðar gerði mikið vatnsveður sunnan- og vestanlands.

Vidvaranir_mynd3

Fjöldi og tegund viðvarana gefnar út sumarið 2024 eftir spásvæðum.

Flestar viðvaranir voru gefnar út á Suðausturlandi og Breiðafirði, tíu talsins, en fæstar á höfuðborgarsvæðinu, einungis tvær. Í aðdraganda norðanóveðursins í júní voru gefnar út tvær gular viðvaranir fyrir allt landið, ein vegna vinds og önnur vegna hríðar.

Veturinn 2023-2024 tíðindalítill

Undanfarinn vetur var heldur rólegri með tilliti til veðurs. 194 viðvaranir voru gefnar út, sem er lægsti fjöldi viðvarana yfir vetratímann síðan viðvaranakerfið var tekið upp. Þar af voru 185 gular og einungis níu appelsínugular.

Vidvaranir_mynd4

Fjöldi viðvarana gefnar út yfir vetrartímann frá 2017 til 2024.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica