Áhrifa loftslagsbreytinga farið að gæta í rekstri sveitarfélaga
Vel heppnuð málstofa með sveitarfélögum á Veðurstofunni
Það var góð mæting á málstofu með
sveitarfélögum á suðvesturhorninu sem Veðurstofan hélt í morgun. Umræðuefnið
var áhrif veðurs og loftslagsbreytinga á rekstur sveitarfélaga. Af umræðunum að
dæma sem sköpuðust í lok málstofunnar er greinilegt að það er
umtalsverð þörf fyrir frekari umræðu um málefni
tengd loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á t.d.
skipulagsvinnu sveitarfélaga. Þetta snýr ekki síst að
gagnaöflum, greiningarvinnu og forsendugerð í kringum
skipulagsvinnuna, sem er ef til vill sterkasta verkfæri sveitarfélaga til að
bregðast við þeim áskorunum sem fylgja áhrifum loftslagsbreytinga.
Áskoranir ekki síst í fráveitumálum
Fram kom einnig að áhrifa loftslagsbreytinga er þegar farið að gæta í rekstri sveitarfélaganna og þá sérstaklega í fráveitumálum. Til að mynda er úrkomuákefð að aukast og þeim tilfellum sem reynir verulega á frárennsliskerfi vegna yfirborðsvatns er að fjölga. Þessar breyttu aðstæður kalla nú þegar á aukna gagnaöflun og sérsniðna þjónustu. Hafa sum sveitarfélög, eins og Reykjavík, Garðabær og Árborg, þegar tekið skref í þá átt með uppsetningu veðurmælikerfa. Líta má á þessa málstofu sem fyrsta snertiflöt milli sveitarfélaganna og Veðurstofunnar varðandi þau brýnu málefni sem rædd voru. Fleiri málstofur með öðrum sveitarfélögum um sömu mál eru fyrirhugaðar á næstunni.