Fréttir
HH_JH_HI_Celeste_2
Á myndinni sjást (f.v.) Helga Ívarsdóttir, deilarstjóri veðurspár og náttúruvárvöktunar, Celeste Saulo, nýkjörinn aðalritari Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, Hildigunnur H.H. Thorsteinsson, forstjóri Veðurstofu Íslands og Jórunn Harðardóttir, rannsóknarstjóri Veðurstofu Íslands.

Aðalritari Alþjóðaveðurfræði-stofnunarinnar (WMO) í heimsókn á Veðurstofu Íslands

Ísland eitt fyrsta ríkið til að leggja fjármagn í SOFF sem stuðlar að uppbyggingu veðurathugunarnets í þróunarríkjum

20.6.2024

Prófessor Celeste Saulo, nýkjörinn aðalritari Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) kom í heimsókn á Veðurstofuna þann 18. júní og hitti Hildigunni Thorsteinsson, nýráðinn forstjóra. Hún heimsótti m.a. eftirlitssal Veðurstofunnar þar sem Helga Ívarsdóttir, deildarstjóri Veðurspár og náttúruvöktunar, Óli Þór Árnason veðurfræðingur og Salóme Jórunn Bernharðsdóttir náttúruvársérfræðingur sögðu henni frá hinu veigamikla og yfirgripsmikla hlutverki sem vaktin sinnir allan sólarhringinn, alla daga ársins.

Celeste, sem áður stýrði Argentísku veðurstofunni, fannst mikið til þess koma og var mjög hrifin af þeirri þverfaglegu nálgun sem Veðurstofan hefur innleitt á vaktinni. Stofnunin er í fremstu röð í heiminum að byggja upp snemmviðvörunarkerfi náttúruvár þar sem fylgst er samtímis með veðri, vatni, ofanflóðum, jarðskjálftum og eldfjöllum og gefnar út viðvaranir og spár eftir atvikum. Eftir heimsókn í eftirlitssalinn fræddist Celeste frekar um aðra þætti i starfi Veðurstofunnar þar sem sérstaklega var rætt um áskoranir framtíðarinnnar sem snúa að breyttu loftslagi. Í starfi sínu sem veðurstofustjóri í Argentínu og sem aðalritari WMO þekkir hún vel til þessara mála og veit að heilstæð nálgun er nauðsynleg til að ná árangri. 

Hildigunnur_Celeste_Helga

Á myndinni frá vinstri: Hildigunnur H.H. Thorsteinsson forstjóri Veðurstofu Íslands, Celeste Saulo aðalritari Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) og Helga Ívarsdóttir deilarstjóri veðurspár og náttúruvárvöktunar.

Ísland eitt fyrst ríkja til að leggja fram fjármagn í SOFF

Celeste Saulo er stödd hér á landi til að stýra áttunda stýrihópsfundi SOFF (Systematic Observations Financing Facility) sem er fjölþjóðlegur sjóður sem hefur það meginmarkmið að byggja upp veðurathugunarnet í þróunarríkjum og eyþróunarríkjum (SIDS). Utanríkisráðuneytið, í samvinnu við SOFF Secretariat, skipuleggur fundinn en á honum voru m.a. lagðar fram til ákvörðunar óskir sjö þjóða um styrki til uppbyggingar veðurmælingakerfa. Víðtækari og tímanlegri veðurathuganir, sem notaðar eru inn í alþjóðleg veðurspálíkön, skipta sköpum til að bæta hnattrænar veðurspár. Þannig gagnast fjárfestingar sem þessar bæði nærsamfélaginu og alþjóðasamfélaginu. Þær eru einnig  forsenda þess að ná markmiði Sameinuðu þjóðanna um snemmbúnar viðvaranir fyrir allan heiminn árið 2027. 

Celeste

Celeste Saulo aðalritari Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) stýrir áttunda SOFF fundinum sem haldinn var hér á landi.

Ísland var eitt fyrsta ríki heims til þess að leggja fram fjármagn til SOFF og greiddi um 1 milljón USD til sjóðsins á árunum 2022 til 2024, og ráðgerir að endurnýja samning fyrir árin 2025 til 2028.

Veðurstofa Íslands tekur þátt í SOFF verkefninu í Malaví með veðurstofum Malaví og Noregs og Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna, UNDP, með aðstoð WMO. Undirbúningur hefur gengið vel og vonir standa til þess að uppfærslu á veðurmælingakerfi Malaví verði lokið í síðasta lagi árið 2028. 





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica