Síbreytilegur gosmökkur
Gosmökkurinn úr Eyjafjallajökli er síbreytilegur á meðfylgjandi myndum en ekki er allt sem sýnist.
Ólafur Sigurjónsson í Forsæti flaug yfir eldstöðina, bæði að kvöldi föstudagsins 7. maí og að morgni laugardagsins 8. maí 2010.
Myndin hér til hliðar var tekin klukkan sex að kveldi og sýnir dökkan öskustrókinn einkar vel. Strókurinn hefur sig yfir lágský en háský sjást ofar.
Myndin hér undir er tekin þremur klukkutímum síðar og við þau birtuskilyrði sem þá ríkja, ásamt sjónarhorninu miðað við sól, virkar öskustrókurinn brúnleitur. Þó samsetning hans sé breytileg, hvað varðar kornastærð og jafnvel efnasamsetningu öskunnar, þá eru þetta einungis áhrif birtunnar. Strókurinn sveigir til suðausturs og öskufall yfir nærsveitir er greinilegt.
Daginn eftir, á laugardagsmorgni, sést grábrún slæða ofan lágskýja þegar flogið er í 10 þúsund feta hæð (~3,3 km) og horft er til vesturs; efalaust er um að ræða dreif úr mekkinum.
Slæður af ösku geta verið hvítar, gulleitar, sandgular eða brúnar; allt eftir styrk og eftir því hvort horft er á þær innan að, ofan frá eða neðan. Dropar eru hins vegar mun blárri - til dæmis brennisteinsmóður - en ekki hefur borið mikið á þeim í þessu gosi.