Staðbundið hættumat

Um staðbundið hættumat vegna ofanflóða

Reynt er að koma í veg fyrir að nýbyggingar séu reistar þar sem hætta er talin á ofanflóðum, til þess að minnka líkur á slysum. Áður en nýjar byggingar eru reistar á svæðum þar sem hætta kann að vera á ofanflóðum og staðfest hættumat liggur ekki fyrir, er því gert staðbundið hættumat. Ef þörf er á slíku hættumati sér Veðurstofa Íslands um gerð þess.

Laga- og reglugerðarrammi

Lög nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum fjalla m.a. um gerð hættumats vegna ofanflóða.

Í 4. gr. laganna kemur m.a. fram:

Sveitarstjórnir í sveitarfélögum þar sem ofanflóð hafa fallið á byggð eða nærri henni eða hætta er talin á slíku skulu láta meta hættu á ofanflóðum. Skal hættumat fyrst og fremst ná til þéttbýlis og svæða þar sem þétt byggð er fyrirhuguð. Jafnframt fari slíkt mat fram á skipulögðum skíðasvæðum. Hættumat skal fela í sér mat á þeirri hættu sem lífi fólks er búin vegna ofanflóða á byggð svæði eða skipulögð byggingarsvæði. Við matið skal tekið tillit til varnarvirkja sem reist hafa verið.

Við 4. gr. laganna var sett reglugerð nr. 505/2000 um hættumat vegna ofanflóða og flokkun og nýtingu hættusvæða með síðari breytingum í reglugerð nr. 495/2007.

Framkvæmdaaðili greiðir kostnað við gerð staðbundins hættumats, sjá reglugerð nr. 495/2007.

7. gr. Kostnaður við gerð hættumats, þar með talinn kostnaður vegna hættumatsnefnda og hættumats á skíðasvæðum, er greiddur af ofanflóðasjóði en kostnaður við staðbundið hættumat greiðist af framkvæmdaaðila.

Um þörf á staðbundnu hættumati

Þegar byggingarreitur er nálægt fjallshlíð getur oft verið álitamál hvort þörf sé á staðbundnu hættumati. Veðurstofan mælir með því að nota eftirfarandi viðmið í þessu sambandi:

1. Ofanflóðasaga. Þörf er á staðbundnu hættumati ef a.m.k. annað eftirfarandi atriða á við:

  • Sagnir eða heimildir eru um að ofanflóð hafi fallið á byggingarreit eða nærri honum
  • Jarðfræðileg ummerki eru um að ofanflóð hafi fallið á byggingarreit eða nærri honum
2. Farvegur. Þörf er á staðbundnu hættumati ef a.m.k. eitt eftirfarandi atriða á við:
  • Byggingarreitur er fyrir framan gljúfur eða vel afmarkað gil
  • Byggingarreitur er í eða neðan farvegar vatnsfalls í bröttu landi eða á aurkeilu
  • Ummerki eru um að vatnsfall hafi runnið yfir byggingarreitinn
3. Fjallshlíð. Þörf er á staðbundnu hættumati ef bæði eftirfarandi atriði eiga við:
  • Sjónarhorn frá byggingarreit miðað við lárétt að fjallsbrún er hærra en 15°
  • Landhalli fjallshlíðar ofan við byggingarreit á a.m.k. 25 m löngum kafla er meiri en 25°

Vert er að útskýra þriðja liðinn. Þegar sjónarhorn frá byggingarreit að fjallsbrún er lægra en 15°, þá er byggingarreitur það fjarri fjallshlíð að mjög ólíklegt er að jafnvel öflug snjóflóð nái að honum. Reynslan sýnir ennfremur að til þess að snjóflóð geti runnið af stað þarf landhalli í upptakasvæði að vera a.m.k. 25-28°. Hér er miðað við að slíkt upptakasvæði ofan byggingarreits sé nokkur hundruð fermetrar eða stærra að flatarmáli. Þegar meta þarf sjónarhorn eða landhalla af korti er gott að hafa í huga að hlutfallið 1:4 milli hæðarmunar og fjarlægðar gefur sjónarhornið 14°, og hlutfallið 1:2 gefur landhallann 27°.

Beiðni um staðbundið hættumat

Framkvæmdaaðili greiðir kostnað við staðbundið hættumat. Slík vinna fer eftir gjaldskrá sérþjónustu Veðurstofunnar, en auk tímagjalds, bætist við útlagður kostnaður, s.s. ferðakostnaður.

Eftirfarandi gögn þurfa að berast Veðurstofu Íslands með beiðni um staðbundið hættumat:

1. Formlegt bréf undirritað af ábyrgðarmanni þar sem óskað er eftir að Veðurstofan geri staðbundið hættumat. Í bréfinu þarf að koma fram:

  • Verkkaupi og greiðandi - nafn, póstfang, kennitala, ábyrgðarmaður
  • Tengiliður verkkaupa - nafn, póstfang, sími, netfang
  • Ábendingar um glögga, staðkunnuga menn

2. Kort sem sýnir byggingarreit og alla fjallshlíðina ofan hans í mælikvarða 1:5000 til 1:25000, með a.m.k. 20 m hæðarlínum. Mælikvarði, hæðarlínur, höfuðáttir og byggingarreitur séu auðkennd á korti. Kort þarf að senda í tvíriti til Veðurstofunnar á pappírsformi.

3. Gögn sendist til:
Veðurstofu Íslands
Ofanflóðahættumat
Bústaðavegi 9
150 Reykjavík

Hægt er að senda fyrirspurnir á netfangið hmat @ vedur.is

Þórður Arason, 10. júlí 2007Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica