Greinar
2. mynd. Veðurlagskort frá miðri 19.öld. Höfundurinn, H.W. Dove, hefur safnað saman upplýsingum um meðalhita í desember 1829 (rauðar línur) og janúar 1814 (bláar línur) og borið saman við meðaltöl lengri tíma.
Heildregnar línur tákna hita undir meðallagi en strikalínur eru þar sem hiti er yfir meðallagi.
Dove hefur ekki haft aðgang að mælingum frá Íslandi 1814, en athuganir Jóns Þorsteinssonar í Reykjavík á árunum 1823 til 1837 voru gefnar út á bók í Kaupmannahöfn 1839 á vegum Vísindafélagsins danska. Dove hefur notað þá bók til að reikna meðalhita í Reykjavík.
Mjög kalt var í mestallri Evrópu í desember 1829 en þá var, samkvæmt mælingum Jóns Þorsteinssonar og meðaltölum Doves, hiti í Reykjavík um 1°Réaumur yfir meðallagi. Hiti í Stykkishólmi hefur verið áætlaður 1,3°C og er það um 2 stigum yfir meðallagi áranna 1961-1990. Réaumur-gráðan er aðeins stærri en celsíus [1°R = 1,25°C].
Kuldinn í janúar 1814 var eftir kortinu að dæma tiltölulega mestur um norðanverða álfuna, langmestur í Finnlandi. Mjög kalt var á Íslandi í þessum janúar, meðalhiti í Stykkishólmi áætlaður -9,2°C og er það nærri 8 stigum undir meðallagi. Sé áætlunin rétt er þetta næstkaldasti janúar síðustu 200 ára í Stykkishólmi. Kaldara var aðeins í janúar 1918.
(Heimild: Dove, H.W., 1864. Die Monats- und Jahresisothermen in der Polarprojection nebst Darstellung ungewörtlicher Winter durch thermische Isametralen. Berlin: Verlag von Dietrich Reimer).