Spá um snjóflóðahættu - Tröllaskagi utanverður

  • mán. 26. feb.

    Töluverð hætta
  • þri. 27. feb.

    Töluverð hætta
  • mið. 28. feb.

    Nokkur hætta

Veikt lag er víða í snjóþekjunni til fjalla sem getur breiðst út ef flóð falla. Það snjóaði til fjalla í N-átt á föstudag og hafa vindflekar vaxið í S-vísandi hlíðum en munu mögulega einnig myndast í N-vísandi hlíðum þar sem búist er við slydduéljum í hvössum S-áttum á mánudag.

Spáin er gerð fyrir stór landsvæði og þarf ekki að vera lýsandi fyrir snjóflóðahættu í byggð. Hún er einkum gerð með ferðafólk í fjalllendi í huga og tekur bæði til snjóflóða af mannavöldum og veðurtengdra snjóflóða.

Snjóflóðavandi á svæðinu

Snjógryfja í NA-vísandi hlíð í Klettahnjúk þann 24.2. sýndi slétt brot við miðlungs álag á köntuðu lagi undir íslagi á 37 cm dýpi í snjóþekjunni. Önnur gryfja í SA-vísandi hlíð Illviðrishnjúks sýndi svipaðar niðurstöður á 76 cm dýpi. Sögunarpróf úr báðum gryfjum gefa til kynna að brot breiðist auðveldlega út ef flóð fara af stað og geta þau orðið stór.

Vindflekar myndast til fjalla í hvassri SV snjókomu á mánudag en hafa einnig stækkað í suðlægum viðhorfum eftir ríkjandi N-NA snjókomu í vikunni.

Lagskipting snævar og snjóþekjan

Það hlánaði uppá fjallatoppa síðustu helgi svo snjór sjatnaði en nú hefur fryst aftur. Veikt lag með köntuðum snjó er þó til staðar í snjóþekjunni sem hefur sést í snjógryfjum af svæðinu. Fyrst í NA-vísandi hlíð Kletthnjúks á laugardag og síðar í SA-vísandi hlíð Illviðrishnjúks. Prófanir í báðum gryfjum sýndu slétt brot á þessu veika lagi við miðlungs álag með möguleika á útbreiðslu. Það snjóaði í skammvinnri NA-lægri átt miðvikudagsmorgun en svo býsna ákaft fimmtudagsmorgun í hægum NV-lægum vindi. Viðvarandi N éljabakkar einkenndu föstudag en nú hefur fryst á ný og stytt upp. Aðfaranótt mánudags má búast við lítilsháttar hlýindum og gæti snjór sjatnað neðarlega í fjöllum.

Nýleg snjóflóð

Nokkur vot og þurr flekahlaup féllu í Ólafsfirði og við Ólafsfjarðarveg á fimmtudag þegar snjóaði ákaft í NV-lægum vindi og fleiri þegar hvessti af NNA síðdegis. Einnig féll flóð um sama leyti í Mjóageira við Dalvík. Um 300 m breiður fleki sást á Burstabrekkudal 19.2. sem líklega féll í þíðunni 18.2.

Veður og veðurspá

SSV hvassviðri 15-20 m/sek og úrkoma á mánudag með hlýindum sem gætu náð lítillega upp til fjalla. Snýr í norðlægar áttir með úrkomuskoti á þriðjudeginum. Rigning á láglendi en snjór til fjalla, vindur 10-15 m/sek.

Spá gerð: 25. feb. 14:16. Gildir til: 26. feb. 19:00.
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica