Árið 2003

Trausti Jónsson 9.1.2007

Árið 2003 er meðal 3 til 4 hlýjustu ára sem komið hafa hér á landi frá upphafi mælinga. Nokkuð er misjafnt eftir landshlutum hvort það er hlýjasta, næsthlýjasta eða þriðja hlýjasta ár sem vitað er um.

Meðalhiti í Reykjavík 6,1°C eða 1,8°C yfir meðallagi, sé leiðrétt fyrir flutningi stöðvarinnar milli staða innan borgarinnar telst árið það hlýjasta frá upphafi mælinga. Munur á hita nú og árin 1939 og 1941 er þó vart marktækur. Í Stykkishólmi var meðalhiti ársins 5,4°C eða 0,3°C hlýrra en 1941 sem var hlýjasta árið fram til þessa. Vegna flutninga veðurstöðva er erfiðara um samanburð á norðanverðum Vestfjörðum, en í Bolungarvík verður árið 2003 jafnhlýtt og 1941 sem var hið hlýjasta á 20. öld á þeim slóðum. Á Akureyri var meðalhitinn 5,1°C og er það 1,9°C yfir meðallagi. Aðeins er vitað um eitt hlýrra ár þar, 1933, en þá var meðalhitinn 5,6°C. Meðalhiti á Dalatanga mældist 5,2°C og hefur ekki orðið hlýrra þar frá því að mælingar hófust þar 1938, árið var einnig hið hlýjasta á Raufarhöfn frá upphafi samfelldra mælinga þar 1921. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var meðalhitinn 2003 6,2°C og er það 1,4°C yfir meðallagi, jafnhlýtt var á Stórhöfða 1941 og nú, en ívið kaldara 1939.

Í Reykjavík hefur mánaðarhiti nú verið í meðallagi eða yfir því í 21 mánuð samfleytt eða frá og með apríl 2002. Í maí 2003 og í júlí og ágúst 2002 var hann þó í meðallagi.
Úrkoma í Reykjavík mældist um 980 mm og er það um 20% umfram meðallag og er árið það úrkomusamasta frá 1992. Á Akureyri mældist úrkoman um 526 mm og er það um 7% umfram meðallag.
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 1308 og er það um 40 stundum umfram meðallag. Á Akureyri mældust 1008 sólskinsstundir og er það um 40 stundum undir meðallagi.

Almennt yfirlit Janúarmánuður var fremur hlýr og í þurrara lagi. Mikil hlýindi voru fram yfir miðjan mánuð en kuldakast með miklu frosti um allt land gerði dagana 18. til 23.

Hlýindi voru um allt land í febrúar, úrkoma víða talsvert umfram meðallag og nokkuð vindasamt var um tíma. Mánuðurinn hófst á kuldakasti, en þ. 5. hlýnaði og var hiti jafn og oftast yfir meðallagi eftir það. Mjög hlýtt var í marsmánuði, en nokkuð úrkomusamt um sunnanvert landið.

Veturinn í heild var mjög hlýr á landinu, í Reykjavík og Stykkishólmi sá þriðji hlýjasti frá upphafi mælinga, aðeins 1964 og 1929 voru hlýrri. Mest munaði um fádæma hlýjan desember, en aðrir mánuðir voru einnig hlýir. Í Vestmannaeyjum var jafnhlýtt nú og 1929, en hlýrra 1964 og á Akureyri var aðeins 1964 hlýrri en nú, en þar hófust mælingar 1881. Óvenju snjólétt var um land allt. Alhvítt var í 18 daga í Reykjavík frá upphafi vetrar í október og hafa alhvítir dagar ekki verið jafnfáir í Reykjavík frá 1977. Snjódýpt var einnig lítil, mest 9 cm.

Mikil hlýindi voru um allt land í apríl og þurrviðrasamt var á norðan- og austanverðu landinu og var mánuðurinn almennt sá næsthlýjasti frá upphafi mælinga, aðeins 1974 var hlýrri. Hitamet voru slegin víða um land um og eftir miðjan mánuðinn. Mestur mældist hitinn á sjálfvirkri stöð á Hallormsstað þ.19. 21,4°C og á Sauðanesi mældist hitinn 21,1°C þ.18. Þetta er mesti hiti sem mælst hefur í apríl hér á landi.

Fyrstu 6 daga maímánaðar var mjög kalt í veðri, en upp frá því var hiti oftar ofan meðallags en neðan þess. Hiti mánaðarins í heild var nákvæmlega í meðallagi í Reykjavík. Meðalhiti í Reykjavík var nánast hinn sami og í apríl og á Akureyri var 0,4 stigum kaldara í maí en í fyrra mánuði. Apríl hefur ekki verið hlýrri en maí á Akureyri síðan 1979 og í Reykjavík hefur munurinn aðeins nokkrum sinnum verið jafnlítill á hita mánaðanna, síðast vorið 1955. Í Reykjavík var vorið það hlýjasta frá 1974 og sjötta hlýjasta vor frá upphafi mælinga. Á Akureyri var vorið það hlýjasta frá 1988. Júnímánuður var mjög hlýr um allt land og var víða mjög vætusamt á sunnan- og austanverðu landinu.

Álíka hlýtt var í Reykjavík í júní 1941 en þá voru mælingar gerðar á þaki Landsímahússins við Austurvöll. Flutningur stöðvarinnar skapar nokkra óvissu þegar þessi tvö meðaltöl eru borin saman. Hitafarið í Reykjavík var óvenju jafnt í mánuðinum. Lægsti lágmarkshiti sem mældist í Reykjavík var 7,1 stig og hefur hann aldrei verið jafn hár áður. Úrkoman í Reykjavík í júní var sú þriðja mesta síðan mælingar hófust. Júlímánuður var einnig mjög hlýr og góða hitabylgju gerði á Suðurlandi um miðjan mánuðinn. Ágústmánuður var einnig óvenju hlýr um land allt. Í Reykjavík var hann sá hlýjasti síðan samfelldar mælingar hófust, næsthlýjastur var ágúst 1880. Á Akureyri er vitað um einn hlýrri ágúst, það var 1947, ómarktækur munur er á ágúst nú og ágúst 1939 og 1936, en samfelldar mælingar á Akureyri hófust 1881. Mánuðurinn var hlýjasti ágúst sem komið hefur í Stykkishólmi, þar var byrjað að mæla 1845 og var næsthlýjast í ágúst 1880 eins og í Reykjavík. Í Vestmannaeyjum er mánuðurinn einnig hinn hlýjasti frá upphafi mælinga 1877 (1880 næsthlýjastur). Í Bolungarvík var álíka hlýtt í ágúst 1947 og á Raufarhöfn var hlýrra en nú bæði 1939 og 1947 og á Dalatanga var ívið hlýrra 1947 og 1955 en nú.

Mánuðirnir júní til ágúst voru samtals þeir hlýjustu í Reykjavík frá upphafi mælinga (12,1°C), næst koma sömu mánuðir 1880 og 1939 með 11,7° og 11,6°C. Á Akureyri voru þessir mánuðir heldur hlýrri 1933 en nú og svipaðir 1955, 1976 og 1984 en öll þau sumur var nær stöðug rigning um sunnanvert landið.

Mjög góð tíð var um land allt fyrri hluta september og var hiti þá u.þ.b. tveimur til þremur stigum ofan meðallags. Síðan kólnaði verulega og kalsaveður var um tíma. Þá snjóaði t.d. óvenju víða um norðanvert landið og varð jörð m.a. alhvít á Akureyri að morgni þ.18, en ekki hefur orðið alhvítt þar svo snemma hausts síðan 1940 (þá varð alhvítt þ.7). Sumarið (júní til september) var óvenju hlýtt um land allt. Í Reykjavík og í Stykkishólmi var sumarið það hlýjasta frá 1941 en þá var hiti mjög svipaður og nú. Lítillega hlýrra var 1939, þannig að sumarið 2003 var hið þriðja hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga. Á Akureyri var sumarið einnig hið hlýjasta frá 1941, þó var álíka hlýtt sumarið 1976. Nokkru hlýrra var á Akureyri sumurin 1939 og 1933.

Sumarúrkoman í Reykjavík var 30% umfram meðallag og úrkomudagafjöldi 13 umfram meðallag. Á Akureyri mældist sumarúrkoman 17% umfram meðallag og úrkomudagar voru þar einnig 13 fleiri en í meðalsumri. Þurrviðrasamt var í október, en hitafar nokkuð kaflaskipt. Í nóvember var tíð talin hagstæð um mikinn hluta landsins. Fremur kalt var fyrstu dagana og var þá nokkur snjór sums staðar um landið norðanvert, en önnur vika mánaðarins var hins vegar óvenju hlý.

Desember var fremur hlýr en úrkomusamur, hiti var u.þ.b. 0,7°C yfir meðallagi í Reykjavík, en 0,6°C ofan meðallags á Akureyri. Úrkomusamt var í desember, að morgni 30. var úrkoman í mánuðinum orðin 123 mm í Reykjavík og er það nærri 60% umfram meðallag, á Akureyri höfðu á sama tíma mælst 92 mm og er það nærri 75% umfram meðallag.



 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica