Árið 2002

Trausti Jónsson 9.1.2007

Veðurfar var hagstætt meginhluta ársins. Árið var eitt hið hlýjasta á síðari áratugum og um austanvert landið var úrkoma óvenju mikil síðari hluta þess. Meðalhiti í Reykjavík var 5,4°C og var því jafnhlýtt árinu 1987 og ásamt því hið hlýjasta frá 1964. Þetta er 1,1°C ofan við meðallag áranna 1961 til 1990. Á Akureyri var meðalhitinn 4,2°C og er það 1,0°C ofan við meðallag. Eftir 1964 hefur meðalhiti á Akureyri fjórum sinnum verið hærri en nú. Í Stykkishólmi var meðalhiti nú 0,9°C yfir meðaltalinu 1961 til 1990, 1,2°C í Bolungarvík, 1,4°C á Raufarhöfn og 1,1°C yfir meðallagi bæði á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og á Kirkjubæjarklaustri.

Öfgar voru nokkrar í veðri á árinu. Fyrstu og síðustu vikur ársins eru meðal hinna allra snjóléttustu á þeim árstíma, sólarhringsúrkomumet var slegið í janúar og mánaðarúrkomumet í nóvember. Bæði metin voru talsvert hærri en þau fyrri og heildarársúrkomumet virðist einnig vera að falla, en stendur þó gleggra. Þ. 28. október var lágmarkshiti í Neslandatanga við Mývatn -22,3 stig og sama dag var lágmarkið í Möðrudal - 22,0 stig, hvoru tveggja lágmarkið lægra en áður hefur mælst hérlendis í október. Eldra met er frá Möðrudal í október 1957, -21,6 stig.

Úrkoma í Reykjavík mældist 916mm og er það nærri 120mm ofan meðallags, á Akureyri mældist úrkoman 590mm og er það 100mm ofan meðallags. Í Reykjavík er árið hið úrkomumesta frá 1993, en frá 1992 á Akureyri. Í Kvískerjum mældist ársúrkoman 4629 mm og hefur hún aldrei mælst jafn mikil á veðurstöð hérlendis. Fyrra hámark var einnig í Kvískerjum, 4335 mm (1997).

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 1366 og er það 100 stundum umfram meðallag, á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 893 og er það um 150 stundum undir meðallagi. Svo fáar sólskinsstundir hafa ekki mælst á Akureyri frá 1983.

Snjór var lítill á árinu, sérstaklega lítið miðað við meðallag í janúar, nóvember og desember. Í meðalári eru 55 alhvítir dagar í Reykjavík, en 2002 voru þeir aðeins 36, sem þó er ekki það minnsta sem orðið hefur.

Veðurfar í janúar var mjög kaflaskipt, fyrstu þrjár vikurnar voru mjög hlýjar en síðan kólnaði verulega. Í hlýindunum var mjög úrkomusamt um allt sunnanvert landið og að morgni þ. 10. mældist sólarhringsúrkoma á Kvískerjum í Öræfum 293,3mm. Það er mesta úrkoma sem hefur mælst hérlendis á einum degi. Mánuðurinn í heild var einnig úrkomusamur norðanlands og lét nærri að tvöföld meðalúrkoma mældist á Akureyri. Hámarkshiti mánaðarins í Reykjavík mældist 10,6 stig og hefur ekki mælst jafnhár eða hærri í janúar og reyndar aðeins einu sinni áður náð 10 stigum, en það var 1940.

Óvenju snjólétt var á nær öllu landinu í janúar, en sérstaklega um sunnan- og vestanvert landið. Aðeins einu sinni var alhvít jörð í Reykjavík. Þetta er óvenjulegt, í janúar 2001 var þó aðeins alhvítt tvisvar. Enginn alhvítur dagur var í Reykjavík í janúar 1929 og 1940 en einn 1961.

Febrúarmánuður var óvenju kaldur, í Reykjavík sá kaldasti frá 1935, en fara þarf allt aftur til 1892 til að finna áberandi kaldari febrúar. Á Akureyri var kaldara í febrúar 1973. Sólríkt og fremur úrkomulítið var um sunnanvert landið og í Reykjavík var mánuðurinn hinn sólríkasti frá 1966. Fyrstu helgi mánaðarins gerði mikið norðanveður sem olli tjóni allvíða um vestan- og norðvestanvert landið og samgöngutruflunum víða um land. Að öðru leyti var veðráttan tiltölulega meinlítil miðað við árstíma þó tímabundinnar ófærðar hafi gætt síðar í mánuðinum. Úrkoma á Akureyri var tvöföld miðað við meðallag.

Í mars var tíðarfarið kalt og þurrt fram yfir miðjan mánuð, einkum á norðanverðu landinu en ekki var mikið um stórviðri. Eftir það var rysjótt tíð og talsverð úrkoma.

Þrátt fyrir tvö kuldaköst í apríl var hitinn vel yfir meðallagi áranna 1961-1990. Fyrra hretið, kringum þann 11., var stutt en það síðara, sem hófst þann 25., var mun lengra með mikilli fannkomu norðan- og norðaustanlands. Á Akureyri varð mánuðurinn hinn hlýjasti að tiltölu frá 1984.

Tíðarfarið í maí var hlýtt og sólríkt sunnan- og vestanlands, einkum síðari hlutinn. Á norðan- og austanverðu landinu var svalara og vætusamara. Tvö kuldaköst gerði. Það fyrra í upphafi mánaðarins en það síðara rétt fyrir miðjan mánuð og frysti þá um allt land. Mánuðurinn var hinn sólríkasti að tiltölu í Reykjavík frá 1979.

Tíðarfar í júní var mjög gott um sunnan- og vestanvert landið, en dauft austanlands. Einstakur hlýindakafli stóð dagana 3. - 17. og voru júníhitamet slegin víða um land þ.10. og 11. Hiti komst m.a. í 22,4° í Reykjavík síðari daginn. Þetta er hæsti júníhiti sem mælst hefur í Reykjavík frá stofnun Veðurstofunnar (1920), en 24. júní 1891 mældist hiti í Reykjavík 24,7°C. Hiti komst síðast í 20 stig í Reykjavík 1995.

Hlýindakaflanum lauk með miklu úrfelli þ.17. og 18. á norðan- og austanverðu landinu og sólarhringsúrkomumet féllu unnvörpum á Austfjörðum og við Tröllaskaga. Víða var mjög hvasst þessa daga og stórsá á gróðri í Reykjavík vegna saltroks af Sundunum. Stór hluti mánaðarúrkomunnar féll þessa daga, en að öðru leyti var fremur þurrt og úrkomudagar voru fáir. Meðalhiti í júní í Reykjavík var hinn hæsti frá 1941 og á Hveravöllum var mánuðurinn hinn hlýjasti að tiltölu frá því byrjað var að mæla þar 1965. Júnímánuður var hlýjasti mánuður sumarsins suðvestanlands og er það mjög óvenjulegt, hefur t.d. ekki gerst síðan 1898 í Reykjavík.

Tíðarfar var ekki fjarri meðallagi í júlí, en mánuðurinn verður samt að teljast í drungalegra lagi um mikinn hluta landsins. Ágúst var einnig þungbúinn þó hiti væri í meðallagi. Sólskinsstundir hafa ekki mælst jafn fáar í ágúst á Akureyri frá 1989.

Úrkomusamt var í september og hefur úrkoma ekki mælst jafn mikil í þeim mánuði frá 1959 í Reykjavík. Óvenju snarpt illviðri gerði á landinu fyrsta dag mánaðarins er mjög djúp lægð fór yfir landið. Nokkrir óvenju hlýir dagar komu um landið vestanvert í september.

Fremur hlýtt var í október þrátt fyrir kuldakast í lok mánaðarins því einmuna hlýindi voru fram yfir miðjan mánuð. Sólskinsstundir í Reykjavík hafa ekki mælst jafn margar í október frá 1981.

Nóvember var hlýr um allt land. Snarpt kuldakast gerði dagana 15.-17. en annars var hiti langt yfir meðallagi. Óvenju úrkomusamt var á Austfjörðum, Austurlandi og Suðausturlandi. Úrkoma var þar alla daga nema 15.-17. og á köflum mjög mikil. Mánaðarúrkoman á nokkrum stöðvum var mun meiri en áður hefur mælst s.s. á Kollaleiru í Reyðarfirði, en þar mældust tæpir 1000 mm. Ekki hefur verið jafn hlýtt í Reykjavík í nóvember frá 1968, en frá 1993 á Akureyri.

Nýliðinn desember var einn hinn hlýjasti sem vitað er um hérlendis frá því að samfelldar mælingar hófust um 1820 og voru hlýindin sérstaklega mikil um sunnanvert landið. Í Reykjavík var álíka hlýtt í desember 1933 og nú, flutningar stöðvarinnar skapa ákveðna óvissu þannig að munur mánaðanna er vart marktækur. Þetta reyndist þriðji hlýjasti desember sem vitað er um á Akureyri, ívið hlýrra var 1953 og talsvert hlýrra 1933. Desember hefur aldrei orðið jafnhlýr og nú á Hveravöllum, en þar hófust mælingar ekki fyrr en 1965. Mjög hlýtt var einstaka daga og komst hæst í 12,0°C í Reykjavík, jafnhátt og mest hefur orðið áður í desember (en það var reyndar fyrir aðeins ári).

Úrkomusamt var um landið sunnanvert, en þurrt fyrir norðan. Aldrei varð alhvítt í Reykjavík í desember. Það hefur tvisvar gerst áður í desember, 1952 og 1987, en mælingar hófust 1921. Jörð var flekkótt tvo morgna nú, en alautt var allan mánuðinn 1952 en sá mánuður var fádæma þurrviðrasamur. Aldrei varð heldur alhvítt á Akureyri í desember nú. Þó snjóhuluathuganir hafi verið misáreiðanlegar á Akureyri á árum áður verður að teljast líklegt að snjóleysið norðanlands nú sé einsdæmi. Snjóhula í fjöllum var heldur minni á Akureyri í desember 1997 en nú og var einnig svipuð fyrir ári. Þrátt fyrir snjóleysi var talsvert um hálkuóhöpp og slys á vegum.



 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica