Árið 1999

Trausti Jónsson 9.1.2007

Tíðarfar á árinu 1999 var yfirleitt talið tiltölulega hagstætt. Meðalhiti í Reykjavík var 4,5 stig og er það 0,2 stigum ofan meðallagsins 1961- 1990. Á Akureyri var meðalhitinn 3,6 stig eða 0,4 stigum ofan meðaltals. Í Akurnesi var meðalhiti ársins 4,4 stig. Úrkoma í Reykjavík var í meðallagi, mældist 788mm, en meðaltalið er 799mm. Á Akureyri mældist úrkoman 580mm og er það 90mm eða tæp 20% umfram meðallag. Úrkoma í Akurnesi mældist 1262mm. Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 1268,5 eða nánast nákvæmlega í meðallagi (það er 1268,3 stundir). Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1068 eða 22 umfram meðallag.

Veturinn var mildur framan af, en varð kaldari þegar á leið. Snjóþungt var víða norðan til á Vestfjörðum og á Norður- og Norðausturlandi eftir nokkur þung norðanáhlaup í janúar og febrúar. Lægsti hiti ársins á Akureyri mældist 17. febrúar, -16,2 stig. Marsmánuður var fremur kaldur, einkum inn til landsins. Mars var að tiltölu kaldasti mánuður ársins. Sunnanlands var þá óvenju þurrt og sólríkt. Þetta var kaldasti mars á Akureyri og á Hveravöllum frá 1979, en þá var talsvert kaldara en nú. Þetta er þurrasti og jafnframt sólríkasti mars í Reykjavík síðan 1979.

Aprílmánuður var fremur kaldur, einkum norðanlands. Sunnan heiða var sólríkt og þurrviðrasamt. Í Reykjavík hefur aðeins einu sinni mælst meira sólskin í apríl síðan 1934 en það var árið 1994. Maí var fremur hlýr, einkum framan af en vætusamur og sólarlítill. Vætusamt var víða um land og var úrkoman tæplega tvöföld meðalúrkoma í Reykjavík, en ríflega tvöföld á Akureyri.

Veðurlag í júnímánuði var í heild sinni nærri meðallagi á landinu. Þó gerði talsvert kuldakast um miðjan mánuð, en síðustu dagarnir voru víðast hvar hlýir og hæsti hiti ársins á Akureyri mældist 23,5 stig þ.28. Sólskinsstundir sunnanlands voru með færra móti. Mikil veðurblíða var um mestallt land í upphafi júlímánaðar og aftur í lokin. Um miðjan mánuðinn var fremur svalt í veðri og úrkomu- og vindasamt, einkum um landið sunnan- og vestanvert. Hæsti hiti ársins í Reykjavík mældist 28. júlí, 18,9 stig. Ágústmánuður var með hlýrra móti og að tiltölu hlýjasti mánuður ársins, þó álíka hlýtt hafi einnig verið í ágúst 1998. Fremur sólarlítið var á Suðurlandi og þurrkar stopulir. September var fremur hlýr um allt land og komu nokkrir óvenju hlýir dagar kringum þ.20. Vætusamt var þá einkum á norðan- og austanverðu landinu

Októbermánuður var hlýr með miklu votviðri einstaka daga en einnig mjög góða og sólríka kafla. Nóvembermánuður var í hlýrra lagi. Tvisvar gerði mjög góða hlýindakafla og voru hitamet slegin víða um land. Dagana 10.-12. var mjög hlýtt og hæsti hiti sem mælst hefur á Íslandi í nóvember var að kvöldi þ. 10. á Dalatanga, 22,7° og 23,3° mældust á sjálfvirku stöðinni þar á sama tíma. Á Dalatanga hafði áður mælst mestur hiti á landinu 19,7°, þ. 10. nóvember 1971. Hitinn komst yfir 20° á Sauðanesvita þ. 11. og 19. Á Akureyri mældust 17,0° þ. 11. og hefur ekki orðið svo hlýtt þar síðan 3. nóvember 1964 en þá mældust 17,6°. Í síðari hitakaflanum í kringum þ. 19. komst hitinn í Reykjavík í 12,6° sem er það það mesta í nóvember frá upphafi mælinga.

Desember var framan af venju fremur snjóþungur um sunnanvert landið. Mjög kalt var í nokkra daga um og eftir miðjan mánuð og þ. 19. mældist lægsti hiti ársins í Reykjavík, -11,6 stig.



 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica