Árið 2005

Trausti Jónsson 3.1.2007

Tíðarfar ársins 2005 - Bráðabirgðayfirlit frá Veðurstofunni 04.01.06

Árið 2005 var hagstætt lengst af, en þótti fremur umhleypingasamt og tíðarfar var talið heldur lakara en næstu þrjú árin á undan. Hiti var þó vel yfir meðallagi, hlýjast að tiltölu um landið vestanvert, en einna kaldast að tiltölu suðaustanlands, þar sem hiti var 0,3 til 0,6 stig yfir meðallaginu 1961-1990. Í öðrum landshlutum var hiti víðast hvar 0,6 til 0,9 stig yfir meðallagi. Meðalhiti í Reykjavík var 5,06 stig og er það 0,75 stigum yfir meðallagi áranna 1961-1990. Á Akureyri var meðalhitinn 3,92 stig og er það 0,63 stigum ofan meðallags. Í Akurnesi var meðalhitinn 4,73 stig og -0,14 stig á Hveravöllum. Á síðarnefnda staðnum var hitinn 0,95 stigum ofan meðallags.

Hæsti hiti ársins mældist á sjálfvirku veðurstöðinni við Búrfell, 25,9 stig þ.23. júlí. Sama dag mældist hiti á Hæli í Hreppum 25,5 stig. Lægsti hiti ársins mældist 2. janúar á sjálfvirku veðurstöðinni Kolku, nærri Blöndulóni, -23,0 stig. Lægsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist í Möðrudal 18. janúar, -22,4 stig. Hæsti hiti ársins við Veðurstofuna í Reykjavík mældist 19,4 stig að kvöldi 26. júlí, en lægst fór hitinn í -10,2 stig þ. 2 janúar. Á Akureyri mældist hæsti hiti ársins 22,5 stig þ. 15. júlí, en lægstur varð hitinn þar -11,0 stig 13. janúar.

Úrkoma var undir meðallagi um sunnan- og vestanvert landið. Úrkoma í Reykjavík mældist 743 mm og er það um 7% undir meðallagi áranna 1961-1990 og var árið hið þurrasta í Reykjavík síðan 1995, en 1998 var úrkoma mjög svipuð og nú. Norðanlands var úrkoma meiri að tiltölu, á Akureyri mældist hún 562 mm og er það um 15% umfram meðallag. Mest sólarhringsúrkoma á árinu mældist í Kvískerjum í Öræfum þ. 15. október, 218,8mm.

Mjög sólríkt var suðvestanlands, sólskinsstundir í Reykjavík mældust tæplega 1548 og er það 280 stundum umfram meðallag. Sólskinsstundafjöldi var vel yfir meðallagi í Reykjavík í öllum mánuðum frá og með apríl til og með október. Sólskinsstundir hafa aðeins einu sinni mælst fleiri á ári í Reykjavík, 1630 árið 1924, árin 1927 og 1966 mældust sólskinsstundir þó litlu færri en nú. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1096 or er það 49 umfram meðallag.

Hafís gerði vart við sig síðla vetrar, í fyrsta sinn um nokkurra ára skeið, eftir óvenju þráláta vestanátt síðari hluta janúar og allan febrúar. Ísinn var mestur við landið í mars.

Yfirlit um einstaka mánuði Mjög umhleypingasamt var í janúar, illviðri nokkuð tíð og framan af mánuðinum var snjór meiri víðast hvar á landinu en verið hafði um nokkurra ára skeið. Allmikla snjóflóðahrinu gerði á Vestfjörðum snemma í mánuðinum. Síðasta vika mánaðarins var hins vegar mjög hlý og leysti þá snjó bæði af láglendi og langt upp eftir fjöllum. Í febrúar var hlýtt lengst af og óvenju snjólétt var á landinu, sérstaklega þó norðanlands. Úrkoma var allmikil um suðvestan- og vestanvert landið, en þurrviðrasamt var í öðrum landshlutum, þurrast þó á Suðausturlandi. Marsmánuður var mjög hlýr á landinu, þriðji mjög hlýi marsmánuðurinn í röð. Mjög hlýtt var um páskana. Óvenju snjólétt var á landinu í mars eins og í febrúar.

Mikill hafís var úti fyrir norðanverðum Vestfjörðum og Norðurlandi öllu meiri hluta marsmánaðar eftir langvarandi vestanátt í Grænlandssundi og norðan við land. Um miðjan mánuð voru ísdreifar á siglingaleiðum úti fyrir öllu Norðurlandi, við Strandir, á leiðinni fyrir Horn og allt suður fyrir Langanes. Fregnir bárust af jökum alveg til Norðfjarðar. Eftir miðjan mánuð greiddist úr ísnum, en ísdreifar héldust á Húnaflóa.

Tíðarfar í apríl var lengst af hagstætt. Svalt var í veðri framan af, en um miðjan mánuð hlýnaði verulega og var hiti síðari hluta mánaðarins vel yfir meðallagi lengst af. Nokkuð hvasst varð víða um land um miðjan mánuð. Veður var óvenju þurrt og sólríkt um meginhluta landsins í maí, en lengst af var fremur svalt og næturfrost viðloðandi þannig að kyrkingur komst víða í gróður. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist úrkoman aðeins 11 mm, hin minnsta í maí frá upphafi úrkomumælinga í Vestmannaeyjum 1881. Fádæma þurrt var einnig um suðaustanvert landið.

Júní var frekar hlýr og sólríkur um sunnanvert landið, en daufari nyrðra og eystra. Júlímánuður var nokkuð votviðrasamur, einkum framan af, en mikinn 10 daga góðviðriskafla gerði á Suður- og Vesturlandi síðari hluta mánaðarins, komst hiti í uppsveitum nokkra daga vel yfir 20 stig. Ágúst var nærri meðallagi á suðvesturhorni landsins en blautur og frekar kaldur norðanlands. Óvenjusólarlítið var um norðanvert landið í ágúst og hafa sólskinsstundir ekki mælst jafnfáar í ágúst á Akureyri síðan 1969. Septembermánuður var kaldur um allt land, hinn kaldasti frá 1982. Óvenju sólríkt var þá um sunnanvert landið.

Tíðarfar í október var fremur hráslagalegt og illviðrasamt. Úrkoma var mikil um norðanvert landið og víða óvenju mikill snjór miðað við árstíma. Snjór og hvassviðri ollu nokkrum samgöngutruflunum undir lok mánaðarins. Flóð varð á Höfn í Hornafirði um miðjan mánuð eftir metúrkomu á þeim slóðum.

Nóvember var nokkuð umhleypingasamur, sértaklega framan af, en úrkoma var þó undir meðallagi víðast hvar. Hlýtt var í desember, en veðurlag fremur órólegt. Úrkomusamt var um sunnanvert landið en þurrara nyrðra. Mjög snjólétt var um sunnanvert landið og lengst af einnig um landið norðanvert og samgöngur greiðar. Óvenju hlýtt var á jóladag.



 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica