Mars 2005

Guðrún Þ. Gísladóttir 3.1.2007

Nýliðinn marsmánuður var mjög hlýr á landinu, meðalhiti í Reykjavík nú var 3,7 stig eða 3,1 stig yfir meðallagi. Ívið hlýrra var í fyrra og svipað í mars í hittiðfyrra, en síðan þarf að fara aftur til 1974 til að finna ámóta hlýjan mars. Á Akureyri var meðalhitinn 2,5 stig og er það 3,7 stigum ofan meðallags. Þar var talsvert hlýrra bæði í mars í fyrra og hittiðfyrra. Í Akurnesi var meðalhitinn 2,5 stig og -2,7 stig á Hveravöllum.

Meðalhiti sólarhringsins í Reykjavík 20. mars var 9,5 stig, það er hærra en gerst hefur áður í marsmánuði síðan 1948, en þá varð lítillega hlýrra þ.27. (9,6 stig).

Mjög hlýtt var um páskana, sérstaklega á laugardag fyrir páska en þá komst hiti í 16,2 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði og á páskadaginn sjálfan en þá fór hiti í 17,3 stig á Húsafelli í Borgarfirði. Þarf að fara aftur til 1965 til að finna dag með hærra hámarki í mars. Hæsti hiti sem mælst hefur hér á landi í mars eru 18,3 stig á Sandi í Aðaldal, það var 1948.

Úrkoma í Reykjavík mældist 37 mm og er það 45% af meðallagi. Á Akureyri mældist úrkoman 21 mm og er það 48% af meðallagi, þetta er þurrasti mars á Akureyri frá 1996. Í Akurnesi mældist úrkoman 87mm.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 89 og er það 22 stundum undir meðallagi. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 109 og er það 34 stundum ofan meðallags.

Óvenju snjólétt var á landinu. Jörð varð aldrei alhvít í Reykjavík, það gerðist síðast í mars 1977. Á Akureyri varð alhvítt 3 daga í nýliðnum mars ámóta snjóleysi var það síðast í mars 1976.



 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica