Desember 2002
Desember var einn hinn hlýjasti sem vitað er um hérlendis frá því að samfelldar mælingar hófust um 1820 og voru hlýindin voru sérstaklega mikil um sunnanvert landið. Í Reykjavík var álíka hlýtt í desember 1933 og nú, flutningar stöðvarinnar skapa ákveðna óvissu þannig að munur mánaðanna er vart marktækur. Meðalhiti í Reykjavík var 4,5°C, á Akureyri var hann 2,4°C og er þetta þriðji hlýjasti desember sem vitað er um á Akureyri, ívið hlýrra var 1953 og talsvert hlýrra 1933. Meðalhiti í Akurnesi var 3,6°C og -0,6°C á Hveravöllum, en þar hefur desember aldrei orðið jafnhlýr og nú. Mjög hlýtt var einstaka daga og komst hæst í 12,0°C í Reykjavík, jafnhátt og mest hefur orðið áður í desember (en það var reyndar fyrir aðeins ári).
Úrkomusamt var um landið sunnanvert, en þurrt fyrir norðan. Úrkoma mældist 119mm í Reykjavík og er það 50% umfram meðallag. Á Akureyri mældust aðeins 16mm og er það tæplega þriðjungur meðalúrkomu og er mánuðurinn einn af fimm þurrustu desembermánuðum frá því að mælingar hófust 1928. Í Akurnesi mældist úrkoman 231mm, en 65 á Hveravöllum.
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 7,6 og er það 5 stundum undir meðaltali. Á Akureyri mældist sólskin í aðeins 20 mínútur, eins og algengt er í desember, sjö sólskinsstundir mældust á Hveravöllum.
Aldrei varð alhvítt í Reykjavík í desember. Það hefur tvisvar gerst áður í desember, 1952 og 1987, en mælingar hófust 1921. Jörð var flekkótt tvo morgna nú, en alautt var allan mánuðinn 1952 en sá mánuður var fádæma þurrviðrasamur. Aldrei varð heldur alhvítt á Akureyri í desember nú. Þó snjóhuluathuganir hafi verið misáreiðanlegar á Akureyri á árum áður verður að teljast líklegt að snjóleysið norðanlands nú sé einsdæmi. Snjóhula í fjöllum var heldur minni á Akureyri í desember 1997 en nú og var einnig svipuð fyrir ári. Þrátt fyrir snjóleysi var talsvert um hálkuóhöpp og slys á vegum.