Júní 2002
Tíðarfarið var mjög gott um sunnan- og vestanvert landið. Einstakur hlýindakafli stóð dagana 3. -17. og voru júníhitamet slegin víða um land þ.10. og 11. s.s. í Reykjavík þar sem hitinn komst 22,4° þ. 11. Þetta er hæsti júníhiti sem mælst hefur á Veðurstofunni. Hlýindakaflanum lauk með miklu úrfelli þ.17. og 18. á norðan- og austanverðu landinu og sólarhringsúrkomumet féllu umvörpum á Austfjörðum og við Tröllaskaga. Stór hluti mánaðarúrkomunnar féll þessa daga en að öðru leyti var fremur þurrt og fáir úrkomudagar, 15 í Reykjavík og 11 á Akureyri.
Í Reykjavík var meðalhitinn 10,8° sem er 1,8° yfir meðallagi og hefur ekki orðið svo hlýtt í Reykjavík í júní síðan 1941 en þá var hitinn 11,5°. Úrkoman mældist 34,4 mm sem er 2/3 hlutar meðalúrkomu og sólskinsstundir voru 186,4 sem er 25,4 stundum umfram meðallag.
Á Akureyri var meðalhitinn 9,5° og er það 0,4° yfir meðallagi. Úrkoman mældist í rúmu meðallagi 107,1 mm og sólskinsstundir voru 156,9 sem er 20,4 stundum færra en venja er.
Í Akurnesi var meðalhitinn 10,0° og úrkoman þar mældist 111,7 mm þar af 69,2 mm þ. 18.
Á Hveravöllum var meðalhitinn 7,4° og hefur ekki orðið svo hlýtt í júní frá upphafi mælinga þar árið 1965. Úrkoman mældist 17,9 mm og sólskinsstundir 107,6.