Desember 2001

Trausti Jónsson 9.1.2007

Nýliðinn desember var hlýr, sérstaklega þó um landið norðanvert og á Vestfjörðum. Nokkuð illviðrasamt var í upphafi mánaðarins en síðan gerði óvenjulegan kafla með hlýindum og veðurblíðu. Mikið kólnaði um jólin. Meðalhiti í Reykjavík var 2,5°C og er það 2,7°C yfir meðallagi. Desember 1997 var lítið eitt hlýrri en þessi, en desember 1987 talsvert hlýrri. Á Akureyri var meðalhitinn 1,5°C sem er 3,4°C yfir meðallagi og þarf að fara allt aftur til ársins 1953 til að finna hærri desemberhita þar. Sjö desembermánuðir voru hlýrri á 20.öld á Akureyri en þessi, sá hlýjasti 1933 en þá var meðalhiti á Akureyri 3,7°C eða 2° hærri en nú. Á Hveravöllum var meðalhitinn -2,9°C, þar var ámóta hlýtt 1997 en hlýrra var 1987. Í Akurnesi var meðalhiti 1,0°C eða sama og í desember árið 2000.

Úrkoma í Reykjavík mældist 76,4mm og er það í meðallagi. Á Akureyri mældist úrkoman 25,3mm og er það um helmingur meðalúrkomu. Í Akurnesi mældist úrkoman 82,4mm og 63,4mm á Hveravöllum.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 8 og er það 4 stundum undir meðallagi. Á Akureyri mældist sólskin innan við eina klukkustund eins og venja er í desember.



 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica