Mars 2000

Guðrún Þ. Gísladóttir 9.1.2007

Marsmánuður var umhleypingasamur og tíð fremur erfið. Venju fremur snjóþungt var suðvestanlands. Að kvöldi þess fimmta gerði óvenju hart veður af norðvestri norðaustanlands. Undir lok mánaðarins voru miklar leysingar og hlýindi víða um land og sums staðar vestanlands og á sunnanverðum Vestfjörðum var óvenju mikið úrfelli.
Meðalhiti í Reykjavík var 0,6 stig og er það 0,1 stigi ofan við meðallag áranna 1961 - 1990. Á Akureyri var meðalhitinn -0,3 stig sem er 1 stigi ofan við meðallag. Í Akurnesi var meðalhitinn 0,1 stig og -5,5 á Hveravöllum og er það 0,3 stigum ofan við meðallag.
Úrkoma í Reykjavík mældist 145,7 mm og er það 80% umfram meðallag. Svo mikil úrkoma hefur ekki mælst í mars í Reykjavík síðan 1953 en þá var úrkoman lítillega meiri en nú. Á Akureyri mældist úrkoman 49,4 mm og er það í ríflegu meðallagi. Í Akurnesi mældust 203,3 mm og 91,4 mm á Hveravöllum sem er svipað og mældist þar í mars fyrir þremur árum.
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 70 og er það 41 stund minna en í meðalári. Færri sólskinsstundir mældust í Reykjavík í mars 1993. Á Akureyri mældust 62 sólskins-stundir sem er 15 stundum undir meðallagi. Á Hveravöllum mældust sólskinsstundirnar 63.
Það sem af er er veturinn einn af þeim snjóþyngstu í Reykjavík síðustu 30 árin eða svo. Svipaður snjór eða öllu meiri var 1984 og 1989. Ef apríl verður óvenju snjóþungur gæti núlíðandi vetur komist í að teljast sá snjóþyngsti en líkurnar á því að svo verði minnka með hverjum deginum sem líður.



 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica