Febrúar 2000

Guðrún Þ. Gísladóttir 9.1.2007

Tíðarfar í febrúar var lengst af óhagstætt. Snjór var þrálátur á jörðu og olli hann nokkrum samgöngutruflunum.
Meðalhiti í Reykjavík var -1,0 stig og er það 1,4 stigum undir meðallagi áranna 1961-1990. Á Akureyri var meðalhitinn -2,2 stig og er það 0,7 stigum undir meðallagi. Í Akurnesi var meðalhiti -0,5 stig og -6,7 á Hveravöllum. Meðalhiti í febrúar var svipaður og verið hefur nú undanfarin nokkur ár.
Úrkoma í Reykjavík var fimmtung umfram meðallag eða 85 mm. Meiri úrkoma var á Akureyri eða 92,3 mm. Það er rúmlega tvöföld meðalúrkoma. Meiri úrkoma var á Akureyri í febrúar 1990. Í Akurnesi mældist úrkoman 127 mm og 58 á Hveravöllum.
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 53 og er það í meðallagi. Á Akureyri mældist sólskin í 24 klst og er það 12 stundum minna en í meðalári. Á Hveravöllum mældust sólskinsstundirnar 45.

Snjór í Reykjavík í febrúar: Snjóþungt var í Reykjavík í febrúar. Jörð var hulin snjó 28 daga í mánuðinum. Þarf að fara aftur til 1957 til að finna jafn þrálátan snjó í þessum mánuði. Snjódýpt var þó aldrei mikil miðað við það sem mest getur orðið. Hún var mest 28 cm, en mest hafa mælst 48 cm í febrúar. Mesta snjódýpt í Reykjavík mældist 55 cm í janúar 1937. Á síðustu 40 árum hafa nokkrum sinnum komið álíka snjóakaflar og sá sem nú stendur. Mikill snjór var í janúar 1993, álíka og nú. Langir og erfiðir snjóakaflar komu bæði veturna 1989 og 1990 og sömuleiðis 1983 og 1984. Ef mars verður óvenju snjóþungur, á veturinn enn möguleika á að verða sá snjóþyngsti, a.m.k. síðan Veðurstofan flutti á núverandi stað í Reykjavík haustið 1973.



 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica