Júlí 1999

Trausti Jónsson 9.1.2007

Veðurblíða var um mestallt land í upphafi mánaðarins og aftur í lokin. Um miðjan mánuðinn var fremur svalt í veðri og úrkomu- og vindasamt, einkum um landið sunnan- og vestanvert.
Meðalhiti í nýliðnum júlímánuði var 10,9 stig í Reykjavík og er það 0,3 stigum ofan meðallagsins 1961-90. Á Akureyri var meðalhitinn 11,7 stig og er það 1,2 stigum ofan meðallags. Í Akurnesi mældist meðalhitinn 10,6 stig og 8,5 á Hveravöllum.
Úrkoma í Reykjavík mældist 65,6mm og er það um fjórðung umfram meðallag. Úrkomudagar í Reykjavík voru að þessu sinni 16 og er það 2 dögum minna en í meðaljúlí. Á Akureyri mældist úrkoman 19,2mm og er það um 60% af meðalúrkomu. Í Akurnesi mældust 49mm, en 56mm á Hveravöllum.
Sólskinsstundir í Reykjavík urðu 140 og er það 31 stund minna en í meðaljúlí. Oft hefur verið minna sólskin í Reykjavík í júlí, síðast fyrir 2 árum. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 174 og er það 16 stundum umfram meðallag. Á Hveravöllum mældust sólskinsstundirnar 221.



 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica