Mars 1999
Marsmánuður var fremur kaldur, einkum inn til landsins. Sunnanlands var óvenju þurrt og sólríkt. Meðalhiti í Reykjavík var -1,0 stig og er það 1,5 stigi undir meðallagi. Á Akureyri var meðalhitinn -3,8 stig eða 2,5 stigum undir meðallagi. Í Akurnesi var meðalhitinn -0,6 stig og -8,5 stig á Hveravöllum. Þetta er kaldasti mars á Akureyri og á Hveravöllum frá 1979, en þá var talsvert kaldara en nú.
Úrkoma mældist 21 mm í Reykjavík eða aðeins fjórðungur af meðalúrkomu marsmánaðar. Þetta er þurrasti mars síðan 1979 í Reykjavík. Á Akureyri mældist úrkoman 64 mm eða nærri 50% umfram meðallag. Í Akurnesi mældist úrkoman 50mm, en 27mm á Hveravöllum. Á Hveravöllum er þetta þurrasti mars frá 1981.
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 165 og er það 54 stundum umfram meðallag. Þetta var sólríkasti mars frá 1979 í Reykjavík og reyndar einnig á Hveravöllum, en þar mældust sólskinsstundirnar 134. Á Akureyri mældust 60 sólskinsstundir og er það 17 stundum undir meðallagi.