Febrúar 1999
Tíðarfarið í mánuðinum var rysjótt og kalt. Mikið kuldakast gerði þ.5. sem varði fram undir þ. 10. með sæmilegum stillum. Enn kaldara varð dagana 15. -25. og jukust þá snjóalög um allt land. Mikil vonskuveður gerði á Vestfjörðum, Norðurlandi og Norðausturlandi síðari hluta mánaðarins í norðanlægri átt og snjókomu.
Í Reykjavík var meðalhitinn -1,3° sem er 1,7° undir meðallagi. Úrkoma var í góðu meðallagi, 82,5 mm, og sólskinsstundir mældust 49,8 sem er álíka og venja er. Á Akureyri var meðalhitinn -1,9° sem er 0,4° undir meðallagi. Úrkoman var heldur meiri en venja er, 47,2 mm, en sólskinsstundir í meðallagi, 37,0. Í Akurnesi var meðalhitinn -1,1° og úrkoman þar mældist 125,4 mm. Á Hveravöllum var meðalhitinn -7,1°, úrkoman mældist 85,9 mm og sólskinsstundir 48,5.