Greinar

Árið 1998

Trausti Jónsson 9.1.2007

Hitinn á árinu 1998 var ekki fjarri meðallagi áranna 1961-1990. Í Reykjavík var meðalhitinn 4,7 stig og er það 0,4 stigum ofan meðallags. Á Akureyri var meðalhitinn 3,1 stig, 0,1 stigi undir meðallagi. Febrúar, mars og október voru nokkuð kaldir um land allt og auk þess var kalt í júní og júlí um norðaustan- og austanvert landið. Enginn mánuður skar sig úr sem hlýindamánuður á landinu í heild, en janúar var þó hlýr og desember var nokkru hlýrri en í meðalári. Í Reykjavík var júní hinn hlýjasti í meir en 30 ár og ágúst var hinn hlýjasti um nærri 30 ára skeið.

Úrkoma á Akureyri mældist 550mm og er það um 12 prósentum yfir meðallagi. Í Reykjavík mældist úrkoman 751mm og er það um 6 prósentum undir meðallagi. Í hvorugu tilvikinu geta þetta talist veruleg frávik. Í Reykjavík er árið sem er að líða hið fimmta í röð þar sem úrkoma er ýmist rétt við meðallag eða nokkuð undir því. Úrkomunni var nokkuð misskipt á mánuði ársins. Í Reykjavík skáru apríl og september sig nokkuð úr þar sem úrkoma var þá aðeins um þriðjungur meðalúrkomu. Í ágúst og maí var úrkoma í Reykjavík hins vegar langt umfram meðallag. Mjög þurrt var á Akureyri í maí og júní og mældist úrkoma í þessum tveim mánuðum aðeins 15mm samtals.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust alls 1403 og er það 135 stundum umfram meðallag. Jafn sólrík eða sólríkari ár koma um það bil tvisvar á áratug að jafnaði, síðast 1994 en þá voru sólskinsstundir í Reykjavík lítillega fleiri en nú. Á Akureyri mældist sólskin í 1004 klukkustundir það er lítillega minna en í meðalári. Sólskinsstundirnar á Akureyri voru mun færri 1992 og 1993 en nú.

Veturinn 1997 til 1998 fékk almennt góð eftirmæli. Snjólétt var um mestallt land og veður lengst af hæglát. Verulegt kuldakast gerði síðari hluta febrúar og fyrri hluta mars. Frostið komst í 34,7 stig við Mývatn og sums staðar norðaustanlands mældist meira frost en um nokkurra áratuga skeið. Mest frost á árinu í Reykjavík mældist 14,9 stig, en 20,5 stig á Akureyri. Vorið þótti góðviðrasamt.

Sumarið var gott sunnanlands, sérstaklega framan af og aftur í lokin þannig að það fékk góð eftirmæli um mestallt sunnan- og vestanvert landið. Mjög hlýir dagar voru þó fáir. Hæsti hiti ársins í Reykjavík var 18,4 stig, en 22,5 á Akureyri. Um stóran hluta Norðaustur- og Austurlands var sumarið kalt og dauft, þó almennt talið heldur skárrra en sumarið 1993.

Haustveðráttan var meinlítil. Fremur kalt var í október og rysjótt tíð um skeið um norðanvert landið. Tíðin í nóvember og desember var hagstæð og snjólítil.

Eitt nýtt veðurmet var sett á árinu. Þ.20. janúar mældist 10-mínútna meðalvindhraði á Skálafelli 62,5m/s.







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica