Árið 1997

Trausti Jónsson 9.1.2007

Árið 1997 var hagstætt hvað tíðarfar snertir en þó var fremur sólarlítið, einkum um norðan- og austanvert landið. Meðalhitinn var talsvert yfir meðaltali áranna 1961-1990 og sérstaklega var hlýtt síðari hluta ársins. Alla mánuði frá því í júlí var hitinn yfir meðallagi og var einnig hlýtt í janúar og apríl. Nokkur kuldaköst gerði í febrúar og mars og aftur á viðkvæmum tíma í maí og júní, einkum norðan- og austantil á landinu. Dagana 14.-16. desember voru hitamet víða slegin, m.a. í Reykjavík. Nóvember og desember voru með þeim hlýjustu á öldinni, aðeins nóvember og desember árið 1987 voru umtalsvert hlýrri.

Úrkomu var misskipt milli árstíða. Vorið reyndist sérlega þurrt. Í apríl, maí og júní var úrkoman langt innan við helmingur þess er venja er, en úr því rættist í júlí og ágúst en þá rigndi talsvert, einkum sunnan- og vestanlands. Um haustið var úrkoman í meðallagi sunnantil á landinu en heldur undir því norðantil.

Í Reykjavík var meðalhitinn 5,1 °C og á Akureyri 4,0 °C og er það 0,8 °C yfir meðallagi á báðum stöðum. Í Reykjavík þarf að fara aftur til ársins 1987 til að finna hærri hita, 5,4 °C, en árin 1996 og 1991 var meðalhitinn 5.0 °C. Árið 1964 var meðalhitinn 5,7 °C, en árin 1939 og 1941 var hann mestur, 6,3 °C. Á Akureyri var hlýrra nokkur ár á áttunda áratugnum og árið 1984.

Úrkoman í Reykjavík mældist 835,7 mm sem er rúmlega meðalúrkoma og á Akureyri var hún 436,3 mm sem er um 9/10 hluta meðalúrkomu.

Sólskinsstundir í Reykjavík voru rúmar 1202,9 klukkustundir sem er u.þ.b. 66 stundum færri en í meðalári. Sólskinsmælingar vantaði á Akureyri í september en sólskinsstundir voru rúmum 122 stundum færri hina mánuðina. Sólskinsstundir á Akureyri voru aðeins umfram meðaltalið í janúar og ágúst.

Í Akurnesi var meðalhitinn 4,8 °C og úrkoman þar mældist 1714,2 mm.

Á Hveravöllum var meðalhitinn 0,0 °C og er það þriðja mesta síðasn mælingar hófust þar árið 1965. Árið 1987 var það hlýjasta með 0,2 °C og næst kom árið 1991 með 0,1 °C. Úrkoman á Hveravöllum var 758 mm og sólskinsstundir 968,9 og hafa þær aðeins verið færri árin 1992 og 1993.



 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica