Desember 1997

Trausti Jónsson 9.1.2007

Mánuðurinn var veðragóður. Mikil hlýindi voru um allt land og hefur aðeins einn desembermánuður á öldinni haft umtalsvert hærri meðalhita þ.e. árið 1987.

Mikil hlýindi voru dagana 14.-16. Desemberhitamet voru víða slegin, m.a. í Reykjavík þar sem mældust 12°C þ. 14. en næst því komst hitinn í 11,4° í desember 1946. Á Akureyri mældust 14,8° þ.15. og hefur ekki mælst svo hár hiti á Akureyri síðan 21. desember 1964 þá mældust 15,1°. Mikið vatnsveður gerði síðustu daga mánaðarins eftir annars fremur þurran mánuð.

Í Reykjavík var meðalhitinn 2,8° sem er 3,0° yfir meðaltalinu. Árið 1987 var meðalhitinn 4,2° . Úrkoman mældist 103,1 mm sem er tæplega þriðjungi umfram meðallag. Sólskinsstundir voru 9 sem er 3 stundum minna en í meðallagi.

Á Akureyri var meðalhitinn 0,6° sem er 2,5° yfir meðaltali. Í desember 1987 var meðalhitinn 1,1° . Úrkoma mældist 43,8 mm sem er tæplega fimmtungi minna en meðallagi. Sólskinsstundir mældust 2,2 en að jafnaði mælist ekki sólskin á Akureyri í desember.

Í Akurnesi var meðalhitinn 2,5° og úrkoman mældist 238,6 mm. Hveravöllum var meðalhitinn -2,7° úrkoman mældist 99,9 mm og sólskinsstundir 4,7. 
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica