Febrúar 1997
Í febrúar rak hver lægðin aðra yfir landið með talsverðri úrkomu og miklum næðingi á köflum. Um miðbik mánaðarins voru tíð skipti frosts og frostleysu, en fyrstu vikuna var mjög kalt og einnig kólnaði talsvert undir lok mánaðrins. Úrkoma var mikil sunnan- og vestanlands fram að þeim 20., en norðanlands gekk á með norðanhríð með jöfnu millibili og varð úrkoman mest í lok mánaðarins.
Í Reykjavík var meðalhitinn -1,3° sem er 1,7° undir meðallagi. Úrkoman mældist 101 mm sem er tæplega hálf önnur meðalúrkoma og sólskinsstundir voru 58 sem er rúmum 6 stundum fleiri en venja er. Á Akureyri var meðalhitinn -2,3° sem er -0,8° undir meðallagi. Úrkoman mældist 52 mm sem er um fimmtungi meira en venja er og þar af mældist sólarhringsúrkoman að morgni þ.28, 17,8 mm. Sólskinsstundir mældust 32 sem er tæpum 4 stundum færri en í meðallagi. Í Akurnesi var meðalhitinn -0,4° og úrkoman mældist 173 mm. Á Hveravöllum var meðalhitinn -7,1°. Úrkoman mældist 38 mm og sólskinsstundir 34.