Veðurstofan tekur nýja útgáfu að veðurspálíkani í notkun
Þann 19. mars 2024 var ný útgáfa af veðurspálíkani Veðurstofunnar sett í rekstur
Þann 19. mars 2024 varð ný veðurspákeyrsla sem keyrð er fyrir Ísland og Grænland að aðalveðurspá Veðurstofu. Sú spákeyrsla, nefnd IG, er keyrð í hærri upplausn en þær eldri, bæði lárétt og lóðrétt. Auk þess er spálengdin 72 klst og spárnar keyrðar átta sinnum á sólarhring.
Forsaga
Veðurstofa Ísland hefur frá haustinu 2011
reiknað skammtíma veðurspár, að þremur dögum fram í tímann, með veðurlíkaninu HARMONIE-AROME.
Veðurlíkanið er háupplausnarlíkan sem reiknar veðurspá yfir skilgreint svæði í
þéttu reiknineti og getur reiknað beint ýmis ferli sem hafa áhrif á t.d. þróun
skýja og úrkomu. Árið 2014 hóf Veðurstofan svo samstarf við dönsku veðurstofuna um sameiginlegan rekstur
ofurtölvu í húsnæði Veðurstofunnar þar sem m.a. yrði reiknuð veðurspá fyrir
svæði sem næði yfir bæði Ísland og Grænland.
Í upphafi náði reiknisvæðið einungis yfir Suður-Grænland en árið 2017 var
svæðið stækkað til að ná yfir allt Grænland.
Tafla 1 sýnir í stórum dráttum hver var þróun
spálíkanakeyrsla frá upphafi þeirra.
Heiti | Útgáfa |
Upplausn lárétt og lóðrétt |
Spáfjöldi á6 sólarhring og spálengd | Reikninet | Svæði & uppfærslur |
Harmonie-Ísland (2011-2015) | cy37h1.2 | 2,5 km x 65 fletir | 4 x 48 klst | 300x240 | Ísland |
Harmonie-Ísland (2015-2022) |
cy38h1.2 | 2,5 km x 65 fletir | 4 x 66 klst |
500x480
|
Uppfærsla á landgerð ofl. |
IGA (2016-2017) |
cy40h1.1 | 2,5 km x 65 fletir | 4 x 48 klst | 1000x800 |
Ísland
og S-Grænland Uppfærsla á landgerð ofl. |
IGB (2017-2024) |
cy40h1.2 | 2,5 km x 65 fletir | 4 x 66 klst | 1080x1280 | Ísland og Grænland |
Veðurspáreikningar eru flóknir og dýrir
Þörf er á aðgangi að stóru safni athugana í nær rauntíma og ofurtölvu. Í viðbót þarf að reikna fyrir svæði sem er nokkuð stærra en það svæði sem þörf er á spám fyrir og því skarast að spásvæði samliggjandi landa mikið.
Veðursetur vestur
Árið 2018 var ákveðið að veðurstofur Íslands, Danmerkur, Holland og Írlands myndu sameina sína krafta, reka sameiginlega ofurtölvu og reikna veðurspár fyrir tvö svæði. Í fyrsta lagi fyrir sama svæði og áður sem nær yfir Ísland og Grænland, nefnt IG, og í öðru lagi fyrir svæði sem nær yfir öll löndin, nefnt DINI (Danmörk, Ísland, Holland og Írland). Seinni spákeyrslan er svokölluð safnspá, þ.e. keyrðar eru nokkrar keyrslur í einu, þar sem upphafskilyrði eru aðeins frábrugðin, til að geta metið spágildi og líkur á ákveðnum aðstæðum.
Tafla 2 gefur yfirlit yfir þessar spáskeyrslur.
Heiti | Útgáfa |
Upplausn lárétt og lóðrétt |
Spáfjöldi á sólarhring og lengd | Reikninet | |
IG | cy43h1.2 | 2,0 km x 90 fletir | 8 x 72 klst | 1350x1600 | Aðalspá Veðurstofunnar |
DINI | cy43h1.2 | 2,0 km x 90 fletir |
24 x (1 + 5) 54 klst |
1920x1620 | Safnspá |
Mynd 1: Spásvæði Veðurseturs vesturs. Fyrir sameiginlegar keyrslur var hver veðurstofa að keyra veðurspá fyrri sitt svæði (svæði merkt með rauðu, bláu, grænu og gulu), og var mikil skörun á milli þeirra svæða. Sameiginleg svæði eru sýnd með fjólubláu. Athugið að sameiginlegt svæði sem þekur Ísland og Grænland var áður sameiginlegt svæði Veðurstofu Íslands og dönsku veðurstofunnar.
Frá árinu 2019 hefur undirbúningur átt sér stað fyrir þetta samstarf, kaup og uppsetning á ofurtölvu í húsnæði Veðurstofunnar og þróun og uppsetning veðurlíkansins og allra þeirra kerfa og gagnastrauma sem þörf er á. Samstarfið hlaut nafnið Veðursetur vestur (e. United Weather Centre West). Tilsvarandi samstarf er á milli norsku (MET Norway), sænsku (SMHI) og finnsku veðurstofunnar (FMI) auk veðurstofanna í Eystrasaltslöndunum Lettlandi (LVGMC), Litháen (LHMT) og Eistlandi (ILM) sem kallast MetCoOp.
Veðursetur Vestur samstarfið er samstarf um veðurreikninga og ofurtölvu. Veðurstofa Íslands á 10% í tölvunni en hin löndin hvert um sig 30%. Í raun er um að ræða tvær tölvur, rekstrartölvuna Áróru og rannsóknartölvuna Bórealis. Sameiginlegu keyrslurnar eru á Áróru, en auk þess er þar rými fyrir eigin keyrslur hverrar veðurstofu fyrir sig.
Sameiginlegur keyrslurnar eru eins og áður
var nefnt tvær. Sú fyrri, IG-keyrslan, er aðalspákeyrsla Veðurstofunnar, sjá mynd 2.
Mynd 2: Vindaspá úr IG-keyrslunni, 12 klst spá í gildi 19. mars 2024 kl. 12. Myndin sýnir vindhraða (m/s, með lit) og vindátt (örvar) á öllu spásvæðinu.
Þó svæðið sé það sama og notað hefur verið síðustu 5 árin þá eru ýmsar uppfærslur sem hafa átt sér stað:
- Lárétt upplausn var aukin úr 2,5 km í 2,0 km
- Fjöldi lóðréttra flata fór úr 65 í 90, þar sem neðsti flöturinn er í 5 m hæð
- Lengd spákeyrslunnar fór úr 66 klst í 72 klst
- Fjöldi keyrslna á sólarhring fór úr fjórum í átta
- Líkanið var uppfært í útgáfu cy43h1.2
- Uppfærð landgerð er byggð á gögnum úr vistgerðarkorti Náttúrufræðistofnunar
- Mun meira af gögnum eru nýtt í gagnahermun
Seinni spákeyrslan, DINI, er keyrð í safnspáham. Hún er keyrð yfir gríðarlega stórt svæði sem nær yfir löndin öll í sömu láréttu og lóðréttu upplausn eins og IG, sjá mynd 3.
Mynd 3: Vindaspá úr DINI-keyrslunni, 12 klst spá í gildi 19. mars 2024 kl. 12. Myndin sýnir vindhraða (m/s, með lit) og vindátt (örvar) á öllu spásvæðinu.
Á hverri klukkustund er keyrð ein aðalkeyrsla og fimm spár sem byggja á aðeins breyttum skilyrðum. Á þriggja og sex klukkustunda fresti er þessum spám safnað saman í safnspá til að meta líkindi á t.d. úrkomu eða vindhraða yfir ákveðnum skilyrðum. Þekkt er að veðurspár hafa mismikið spágildi. Er það bæði vegna þess að líkönin geta ekki reiknað alla ferla sem að máli skipta, en verða að nálga suma þeirra, en einnig vegna óreiðu í lofthjúpnum (hlekkur: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=2876). Þessi safnspá er í mun hærri upplausn en þær safnspár sem Veðurstofan hefur haft aðgang að hingað til og verður spennandi að sjá hvernig hún nær líkindum á veðri sem er magnað upp af landslagi, s.s. aftakavindhraða. Nú og á næstu mánuðum verður unnið í því að koma spánum á form sem að í fyrstu umferð nýtist veðurfræðingum á vakt og í seinni umferð þróaðar aðferðir til að geta birt líkindi á ákveðnum veðuraðstæðum á vef Veðurstofunnar.
Eins og kemur fram hér að ofan þá hefur Veðurstofan tækifæri til að setja upp eigin keyrslur á ofurtölvunni. Á undanförnum árum hefur verið í tilraunakeyrslum hektómetrísk keyrsla yfir Íslandi og miðin, þ.e. keyra með 750 m lárétta upplausn í að 48 klst. Sú spákeyrsla hefur gefið góðar niðurstöður enda er þar landslagi Íslands mun betur lýst en í grófari upplausn. Veðurstofan vinnur nú í því að koma upp sambærilegri keyrslu í rekstur á ofurtölvunni.
Veðurlíkanaþróun er samstarfsverkefni þvert á landamæri
Vinna við þróun og uppfærslur á veðurlíkanakerfinu og öðrum nauðsynlegum kerfum heldur áfram bæði innan Veðurseturs vesturs og innan evrópskra veðurlíkanasamstarfsins ACCORD.
Það er mikill styrkur fyrir Veðurstofu Íslands að vinna með þessum samstarfsaðilum að þróun veðurlíkana og afurða þeirra. Þannig vinna saman sérfræðingar, þvert á landamæri, sem hafa þekkingu á mismunandi þáttum kerfisins.