Ský og sérstök fyrirbæri
haglél2
Haglél sem féll í Vestmannameyjum 13. mars 2022. Ljósmyndari María Erna Hannesdóttir

Snæhagl eða íshagl

Ragnheiður Sylvía Kjartansdóttir 15.3.2022

Sunnudaginn 13. mars 2022 birtust myndir frá Vestmannaeyjum þar sem að bæjarbúar tóku eftir risa hagli en hver er munurinn á snæhagli og íshagli?

Hagl er yfirleitt flokkað í snæhagl og íshagl, en íshagl er sjaldgæft á Íslandi.  Yfirleitt er hagl á Íslandi einungis 2-5 mm að þvermáli, og nær sjaldan yfir 10 mm.  Erlendis eru dæmi um yfir 10 cm hagl-klumpa sem geta valdið miklu tjóni á mannvirkjum og uppskeru.

Hagl myndast í skúra- og éljaflókum, sem myndast þegar loft verður óstöðugt með því að rakt loft nálægt yfirborði verður á einhvern hátt eðlisléttara en loftið fyrir ofan og það verður lóðrétt hreyfing.  Þegar rakt loft rís, þá lækkar loftþrýstingur og hiti og raki loftsins þéttist og myndar skýjadropa.  Við það léttist loftið enn meira.  Þegar skýjadropar fara hærra í uppstreymi þá frjósa þeir og rifna í ísflísar.  Í uppstreymisvindinum hnoðast snjó- og ísflísar í haglkorn.  Haglkornin stækka og á  endanum verða þau of þung og falla á móti uppstreyminu og ná til jarðar.  Í skúraflókum myndast líka hagl, en munurinn er að það bráðnar áður en það nær til jarðar.

Til að ná mikilli stærð þarf haglið að ferðast upp og niður skýið nokkrum sinnum og þarf þá uppstreymisvindurinn að vera mjög hár.  Í íshagli er unnt að sjá lagskiptingu ís/frauð ef korn eru skorin í sundur, líkt og árhringir í trjám, fyrir hverja ferð upp og niður éljaflókann. Yfirleitt fer íslenskt hagl einungis eina ferð upp og niður.

Sama skýjagerð og myndar hagl, getur einnig framleitt eldingar, en engar eldingar mældust yfir Vestamannaeyjum 13. mars.

Skv. veðursjám fór mjög öflugur éljaflóki yfir Vestmannaeyjar 13. mars 2022.  Flókinn kom úr suðri og fór yfir Vestmannaeyjar og náði fyrir tilviljum mestum styrk á sama tíma.  Styrkur endurkasts ofan við Vestmannaeyjar fór hæst upp í 55 dBZ kl. 17:30 séð frá veðursjá í Keflavík, sem er mjög hátt gildi.

 





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica