Greinar
Mynd 1. Lega mælipunkta á Hofsjökli. Fá má stærri mynd og skýringar (smellið).

Haustferð til mælinga á Hofsjökli 2012

Sumarafkoma og prófun bræðslubúnaðar

Þorsteinn Þorsteinsson 3.10.2012

Starfsmenn Veðurstofu Íslands mældu sumarleysingu á Hofsjökli í leiðangri sem farinn var dagana 17.-21. september. Að þessu sinni var færð að jöklinum mjög erfið vegna mikilla snjóa, sem féllu í norðanáhlaupinu 9.-11. september.

Sprengisandsleið var ekin að sunnan og þaðan um Laugafell í Ingólfsskála, þar sem leiðangurinn hafði bækistöð. Um árabil hefur bílum verið ekið að jöklinum austan Krókafells og þar haldið upp á Sátujökul á vélsleðum. Nú brá svo við að síðasti spölurinn að jökli var með öllu ófær þessum farartækjum, því jökullinn hefur hörfað af mikilli grjóturð sem þar leyndist undir honum. Var því ekið vestur fyrir Krókafellið og fannst þar greiðfær leið upp að jökulrönd. Farið var í mælipunkta á norðanverðum, suðaustanverðum og suðvestanverðum Hofsjökli og vitjað um stikur, sem settar voru niður á jöklinum í vorleiðangri í maíbyrjun. Sjá legu mælipunkta á 1. mynd.

Snjóþykkt með mesta móti vorið 2012

Í vorferðum á jökulinn er borað niður í gegnum snjólag vetrarins í 25-30 mælipunktum og dýpið mælt, auk eðlisþyngdar. Þar með má reikna vatnsgildið, sem víðast hvar er tæpur helmingur snjódýpis. Ákoma var með mesta móti veturinn 2011-2012 og á hákolli jökulsins í 1792 m hæð mældist um vorið meiri vetrarsnjór en nokkru sinni frá upphafi mælinga árið 1988, 813 cm. Sjá 2. mynd.

Snjóþykkt á hábungunni
Mynd 2. Nýtt met snjóþykktar mældist á hábungu Hofsjökuls vorið 2012 og reyndist hún um fjórðungi meiri en meðaltal áranna 1991-2010. Vatnsgildi snjóþykktarinnar (vetrarafkoman) er tæpur helmingur þeirra talna, sem hér eru sýndar.

Á 3. mynd er snjóþykkt á mælilínu á norðanverðum jöklinum (Sátujökli) sýnd í samanburði við snjóþykkt vetrarlags vorin 2011 og 2010, auk meðaltals fyrsta áratugar aldarinnar. Snjóalög mældust yfir meðaltalinu í öllum punktum og voru áberandi mikil ofan 1400 m hæðar. Svipaðar niðurstöður fengust á mælilínunum á Þjórsárjökli og Blágnípujökli. Var veturinn 2011-2012 snjóþungur mjög víða um landið, einkum sunnan- og vestanlands; m.a. mældist úrkoma 55% umfram meðallag í Reykjavík á tímabilinu desember-mars.

Snjóþykkt á mælilínu
Mynd 3. Mæld snjóþykkt að vori í 9 punktum á 18 km langri mælilínu, sem liggur frá jaðri Sátujökuls til suðurs upp á hábungu Hofsjökuls (sjá 1. mynd). Hæðarbil milli punktanna eru 80-160 m. Metþykkt mældist í nokkrum punktum vorið 2012. Vatnsgildið er tæpur helmingur snjóþykktarinnar.

Mæling sumarafkomu í haustferðinni

Vorið og sumarið var hlýtt og var meðalhiti tímabilsins maí-júlí á Hveravöllum t.d. 1.6°C yfir meðaltali áranna 1961-1990. Hlýindin voru þó lengi að vinna á hinum óvenju mikla vetrarsnjó á jöklinum og lá hann t.d. enn niður undir 1000 m hæð við júlílok. Mikil leysing var á jöklinum í ágústmánuði og fram að áhlaupinu 9.-11. sept.

4. mynd sýnir vatnsgildi mældrar sumarafkomu 2012 á mælilínunni á Sátujökli, samanborið við fyrri ár. Neðan til á jöklinum leysir allan vetrarsnjó og nokkra metra af jökulís að auki, en ofan jafnvægislínu (13-1400 m) er leysing mun minni. Þar þjappast vetrarlagið ofan á eldri hjarnlögum, sem breytast í jökulís á 20-40 m dýpi. Algengt er raunar að sumarafkoman sé jákvæð ofan til á jöklinum, því þar snjóar talsvert að sumri og er viðbótin oft meiri en leysingin yfir sumarið. Sumarið 2012 var sumarafkoman um 0 á efsta punkti en reyndist annars nærri meðallagi víðast hvar á jöklinum. Meiri leysing mældist sumarið 2010 en þekkst hefur fyrr og síðar, vegna sumarhlýinda og mikillar geislunar auk áhrifa gjóskunnar úr Eyjafjallajökli.

Vatnsgildi sumarafkomu
Mynd 4. Vatnsgildi sumarafkomu á Sátujökli 2012. Hún reiknast með neikvæðu formerki á móti vetrarafkomunni, og er jöfn leysingunni ef enginn snjór fellur að ráði um sumarið. Sumarafkoman getur hins vegar verið jákvæð ef talsverður snjór bætist á jökulinn í viðkomandi mælipunkti, svo sem varð t.d. í punktinum í 1430 m hæð sumurin 2011 og 2012.

Nú er unnið að útreikningi á ársafkomu á öllum mælilínum á Hofsjökli 2011-2012, en hún hefur sem kunnugt er verið neikvæð á hverju ári frá 1995 vegna hlýnunar loftslags.

Prófun á bræðslubúnaði á vegum þýsk-bandarísks vísindahóps

Leiðangur sex þýskra og bandarískra vísindamanna og átta nemenda þeirra var í samfloti við Hofsjökulsleiðangurinn að þessu sinni og höfðu allir aðsetur í Ingólfsskála. Rannsóknahópur þessi hefur hlotið styrk bandaríska vísindasjóðsins (NSF) til könnunar á sérstæðu náttúrufyrirbæri á Taylorjökli í Þurrdölum (Dry Valleys) Suðurskautslandsins. Þar lekur úr jöklinum rauðlitaður, saltur vökvi, sem mun eiga upptök sín í litlu lóni undir jöklinum og þrýstist um farveg í ísnum til yfirborðs í reglulegum gusum. Staðurinn hefur verið nefndur Blood Falls (Blóðfossar) og töldu menn fyrst að þörungagróður legði til rauða litinn, en nú er talið að hann stafi af járnoxíðum í vökvanum. Fyrirbærið hefur verið þekkt frá 1911 og má nánar fræðast um það á veraldarvefnum.

Þýsk-bandaríski hópurinn hyggst bora í Taylorjökulinn til að ná sýnum af vökvanum undir yfirborði og í þeim tilgangi er nú verið að þróa óvenjulegan búnað, svokallaðan IceMole, sem getur brætt sig niður í jökulís á ská og jafnvel tekið beygjur úr lóðréttri stöðu í lárétta. Búnaður þessi er smíðaður við Tækniháskólann í Aachen, en þróun hans er enn á nokkru frumstigi og ekki er gert ráð fyrir borun við Blóðfossa fyrr en 2015. Um tækið má fræðast nánar á veraldarvefnum.

Hópurinn óskaði eftir því að prófa núverandi gerð tækisins á Hofsjökli. Að neðan eru nokkrar myndir frá prófuninni, með skýringum. Ljósmyndirnar tók í flestum tilvikum Julia Kowalski:

Farartæki
Mynd 5. Sérbúinn Ford Econoline Veðurstofunnar og vélsleði við jökulrönd.
Aðsetur
Mynd 6. mynd. Búðir þýsk-bandaríska leiðangursins neðst á Sátujökli.
Tækið hefur för sína
Mynd 7. Julia Kowalski og Clemens Espe fylgjast með Icemole tækinu hefja för sína skáhallt niðurávið í jökulísinn.
Stálskrúfa og trjóna
Mynd 8. Framhluti tækisins. Fremst er stálskrúfa, sem skrúfast inn í ísinn og dregur tækið á eftir sér.Tækið er tengt við rafstöð á yfirborði og í trjónunni eru hitarar, sem bræða ísinn. Frekari hönnun miðast við að mögulegt verði að láta tækið beygja í ísnum með mishitun trjónunnar.
Ferkantaður bor
Mynd 9a: Horft á eftir tækinu, er það bræðir sig niður í ísinn. Mjög óvenjulegt er að borað sé skáhallt í ís líkt og hér er gert (sjá 7. mynd), auk þess sem holur boraðar með kjarna- eða bræðsluborum eru jafnan kringlóttar, en ekki ferkantaðar líkt og holan, sem hér er að myndast.
Stálskrúfan stingst út úr sprunguvegg
Mynd 9b: Í miðju myndar sést skrúfan fremst á tækinu koma út um sprunguvegg á um 2 m dýpi.
Hvíld
Mynd 10. Stjórnendur tilraunarinnar á Sátujökli og verkefnisins, sem ráðist verður í við Blood Falls á Suðurskautslandinu. Fyrir miðju: Bernd Dachwald, Tækniháskólanum í Aachen; t.v.: Jill Mikucki, örverufræðingur við Tennessee-háskóla; t.h.: Slawek Tulaczyk, jöklafræðingur við Kaliforníuháskóla, Santa Cruz.
Hópurinn
Mynd 11. Þýsk-bandaríski hópurinn á Sátujökli. Lengst t.v. er Magnús Þór Karlsson, sem flutti fólk og farangur á vegum hins erlenda leiðangurs.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica