Klósigar og flugslóðar
Laugardaginn 28. júní 2012 mátti líta samspil náttúrulegra og manngerðra skýja yfir vestanverðu landinu.
Flugslóðar, sem eru manngerðir klósigar, myndast þegar heitur og rakur útblástur frá þotum blandast umliggjandi köldu og ómettuðu lofti og úr verður mettuð loftblanda. Þá þéttist vatnsgufan í loftinu og þar sem hiti í flughæð er að jafnaði langt undir frostmarki myndast ískristallar.
Í þessu tilviki var andrúmsloftið mjög þurrt yfir mestum hluta landins, svo að flugslóðar á eftir þotum gufuðu upp mjög hratt. Yfir vestanverðu landinu var loftið aftur á móti fremur rakt og líftími flugslóðanna langur. Þar höfðu þotur flogið yfir þunna klósigabreiðu og flugslóðarnir lágu því ofar. Þetta sást mjög vel, því að skuggar féllu af flugslóðunum á klósigabreiðuna (sjá ljósmynd).
Veður var mjög rólegt, hæg norðlæg eða breytileg átt, og heiðskírt á nær öllu landinu. Allra vestast var þó þessi slæða af klósigum, þunnum ísskýjum, og þvert á hana flugslóðar, eins og sjá má á veðurtunglamynd hér undir. Reyndar er margt annað líka áhugavert á veðurtunglamyndinni, t.d. hafíshvirflar í Austur-Grænlandsstraumnum.
Fleiri myndir
Veðurstofan þiggur með þökkum góðar ljósmyndir af skemmtilegum flugslóðum og/eða klósigum.