Tíðarfar árið 2011
Veðurfarsyfirlit
Árið 2011 var í heild hlýtt og veðurfar þess verður að teljast hagstætt. Mikið kuldakast um mestallt land síðari hluta maímánaðar og í byrjun júní spillti þó ásýnd þess að nokkru. Kastið var mun vægara suðvestanlands heldur en í öðrum landshlutum. Annað snarpt kuldakast gerði fyrri hluta desembermánaðar en olli ekki vandræðum. Óvenjuhlýtt var í apríl og nóvember.
Hiti
Ársmeðalhitinn í Reykjavík var 5,4 stig. Hiti hefur nú verið yfir meðallagi í Reykjavík 16 ár í röð, 1,1 stig að þessu sinni. Árið var hið átjánda hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga 1870. Tíu mánuðir voru ofan meðallags í Reykjavík en tveir undir því, nóvember var hlýjastur að tiltölu en þá var hiti meira en 3 stig yfir meðallagi. Kaldast að tiltölu var í desember en þá var hiti 1,7 stigum undir meðallaginu.
Í Stykkishólmi varð meðalhiti árins 4,5 stig, 1,0 stig yfir meðallagi. Árið er það tuttugasta hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga 1845. Á Akureyri var meðalhitinn 4,1 stig, 0,8 stig yfir meðallagi og er 13. árið í röð þar sem hiti er yfir meðallagi. Árið er í 31. sæti hvað hlýindi varðar en samfelldar mælingar hófust á Akureyri 1882.
Í Vestmannaeyjum varð árið það sautjánda hlýjasta frá upphafi mælinga (1877) og 0,9 stigum yfir meðallagi. Hita og vik þess má sjá á fleiri stöðvum í töflu.
Tafla. Meðalhiti og hitavik (m.v. 1961 til 1990) á nokkrum veðurstöðvum. Röð talin frá hlýjasta ári.
stöð | hiti | vik | röð | af |
Reykjavík | 5,4 | 1,1 | 18 | 141 |
Stykkishólmur | 4,5 | 1,0 | 20 | 176 |
Bolungarvík | 3,6 | 0,7 | 37 til 39 | 114 |
Bergstaðir | 3,5 | 13 | 32 | |
Grímsey | 3,6 | 1,2 | 16 | 138 |
Akureyri | 4,1 | 0,8 | 31 | 130 |
Grímsstaðir | 1,4 | 0,9 | 29 | 105 |
Egilsstaðir | 3,9 | 1,0 | 17 | 57 |
Dalatangi | 4,6 | 1,1 | 14 til 16 | 73 |
Höfn í Hornaf. | 5,5 | 1,0 | ||
Fagurhólsmýri | 5,5 | 0,9 | 20 | 109 |
Kirkjubæjarklaustur | 5,2 | 0,7 | 26 til 27 | 86 |
Stórhöfði | 5,7 | 0,9 | 17 | 134 |
Hveravellir | -0,1 | 1,0 | 16 | 46 |
Hæll | 4,4 | 0,8 | 25 | 131 |
Eyrarbakki | 5,2 | 1,2 | 16 | 116 |
Ársmeðalhitinn var hæstur í Surtsey, 6,6 stig, næsthlýjast var á stöðinni í Vestmannaeyjabæ og á Garðskagavita 6,3 stig. Lægstur var ársmeðalhitinn á Brúarjökli (845 m yfir sjávarmáli), -2,1 stig, en næstlægstur á Gagnheiði (949 m yfir sjávarmáli), -1,8 stig. Í byggð var ársmeðalhitinn lægstur á sjálfvirku stöðinni í Svartárkoti, 1,1 stig og 1,4 stig á mönnuðu stöðinni á Grímsstöðum á Fjöllum.
Á fáeinum stöðvum á Austurlandi og á annesjum norðanlands var meðalhiti í júnímánuði lægri heldur en í apríl. Ekki er vitað til þess að það hafi gerst áður hér á landi síðan mælingar hófust.
Hámarks- og lágmarkshiti ársins
Hæsti hiti sem mældist á árinu var 24,8 stig. Það var á Húsavík 27. júlí. Hæstur hiti á mannaðri stöð mældist 22,4 stig á Mánárbakka 2. júlí.
Lægsti hiti sem mældist á árinu var -27,8 stig við Upptyppinga þann 8. desember. Lægsti hiti í byggð mældist -27,3 stig við Mývatn þann 6. desember. Lægsti hiti á mannaðri stöð var -24,1 stig og mældist á Torfum í Eyjafjarðarsveit þann 6. desember.
Hæsti hiti ársins í Reykjavík mældist 20,0 stig þann 5. ágúst. Hæsti hiti á Akureyri mældist 22,1 stig þann 27. júlí.
Lægsti hiti ársins í Reykjavík mældist -12,5 stig þann 13. mars. Á Akureyri mældist lægsti hiti 6. desember, -16,8 stig.
Úrkoma
Árið var mun úrkomusamara heldur en árið næst á undan (2010). Í Reykjavík mældist úrkoman 904 mm og er það um 13% umfram meðalúrkomu. Úrkoma var ofan meðallags í Reykjavík í sjö mánuði, langmest í apríl en þá mældist meira en tvöföld meðalúrkoma. Þurrast var í júní og ágúst, í fyrrnefnda mánuðinum var úrkoma innan við þriðjungur af meðallagi.
Í Stykkishólmi var úrkoma með mesta móti, mældist 915 mm og hefur aðeins 12 sinnum mælst meiri úrkoma þar á einu ári síðan samfelldar mælingar hófust haustið 1856. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist úrkoma um 10% umfram meðallag. Sumarið var þurrt í Stykkishólmi og víða um landið norðvestanvert var það talið í þurrara lagi fyrir gróður.
Í Bolungarvík var ársúrkoman sú mesta sem mælst hefur síðan stöðin var flutt frá Galtarvita 1994. Talsverðu munar á meðalúrkomu þessara tveggja staða og tölur því ekki sambærilegar. Á fyrri tíð mælinga í Bolungarvík, 1934 til 1953, mældist ársúrkoman aðeins einu sinni meiri en nú, það var 1946.
Á Akureyri mældist úrkoman 643 mm og er það um 30% umfram meðallag. Samfelldar úrkomumælingar hófust á Akureyri haustið 1927 og hefur ársúrkoman þar aðeins átta sinnum mælst meiri en nú. Þetta er tíunda árið í röð með úrkomu meiri en var í meðalári 1961 til 1990.
Mjög úrkomusamt var austast á landinu. Á Dalatanga mældist úrkoman um 45% umfram meðallag og er næstmesta úrkoma sem þar hefur fallið á einu ári. Mælingar hófust 1938. Svo virðist sem árið hafi verið meðal þeirra tíu úrkomusömustu á Teigarhorni og Djúpavogi en mælingar hófust á því svæði haustið 1872.
Mesta sólarhringsúrkoma
Mesta sólarhringsúrkoma ársins á mannaðri stöð mældist í Kvískerjum í Öræfum þann 3. júlí, 135,5 mm. Mesta sólarhringsúrkoma ársins á sjálfvirkri stöð mældist í Neskaupstað 19. maí 118,0 mm.
Mesta sólarhringsúrkoma ársins í Reykjavík mældist 38,8 mm þann 1. maí. Mesta sólarhringsúrkoma á Akureyri mældist 25,7 mm þann 10. júní.
Úrkomudagafjöldi
Úrkomudagar voru fleiri en í meðalári. Þeir dagar taldir þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 174 í Reykjavík, 26 dögum fleiri en í meðalári. Er sérlega mikill munur á árunum 2010 og 2011 hvað þetta varðar því þá voru úrkomudagar miðað við sama magn aðeins 109. Mestu munar um apríl en þá voru úrkomudagar í Reykjavík 15 fleiri en í meðalári. Á tímabilinu maí til ágúst voru úrkomudagarnir hins vegar 14 færri heldur en í meðalári.
Miðað við sama úrkomumagn voru úrkomudagar 28 fleiri en í meðalári í Stykkishólmi og 23 á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.
Fyrir norðan og austan voru úrkomudagar einnig fleiri en í meðalári, á Akureyri 12 fleiri en í meðalári og 20 á Dalatanga.
Snjór
Veturinn 2010 til 2011 var snjóléttur. Alhvítir dagar voru aðeins 2 í Reykjavík í janúar og 33 alls á tímabilinu janúar til maí, en í meðalári eru alhvítir dagar á þessu tímabili 36 sé miðað við 1961 til 1990, en 43 sé miðað við 1971 til 1990. Alhvítt var í Reykjavík 1. og 2. maí og er það óvenjulegt.
Snjóþyngsli í lok ársins voru óvenjuleg suðvestanlands. Í Reykjavík voru 29 alhvítir dagar í desember og hafa aldrei áður orðið jafnmargir í þeim mánuði. Þetta varð til þess að alls urðu alhvítu dagarnir 67 á árinu í Reykjavík og er það 12 dögum fleiri en í meðalári sé miðað við 1961 til 1990. Alhvítir dagar hafa ekki verið svo margir í Reykjavík síðan árið 2000, þá voru þeir 69.
Á Akureyri var mjög snjólétt framan af ári. Alhvítir dagar voru aðeins 46 fyrstu mánuði ársins og er það 26 dögum færri en í meðalári (miðað við 1961 til 1990). Desember var alhvítur á Akureyri, í fyrsta sinn í þeim mánuði frá 1996. Á árinu 2011 voru alhvítir dagar á Akureyri 86 og er það 33 dögum færri en í meðalári. Þrátt fyrir þetta hafa mörg ár verið snjóléttari á Akureyri, síðast 2007 þegar alhvítu dagarnir voru aðeins 60.
Sólskinsstundir
Í Reykjavík mældust sólskinsstundir 1464,9 eða 196,4 stundum fleiri en í meðalári. Þetta er tólfta árið í röð með sólskinsstundafjölda yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Meðalskýjahula í Reykjavík var 5,9 áttunduhlutar og er það sú mesta frá 2003 en er í meðallagi áranna 1961 til 1990.
Sólskinsstundir á Akureyri mældust 979,4 og er það um 66 stundum innan við meðallag. Hafa sólskinsstundir ekki mælst færri á Akureyri síðan 2002 en er samt mun meira heldur en í mestu sólarleysisárum.
Loftþrýstingur
Frá árinu 2009 til 2010 hækkaði loftþrýstingur meira en vitað var um áður milli ára (ekki munar þó miklu). Nú bregður svo við að þrýstingur lækkaði meira á milli áranna 2010 og 2011 heldur en dæmi eru um áður. Þrýstingur var með hæsta móti 2010 en með því lægsta árið 2011. Mánaðarmeðalþrýstingur var undir 1000 hPa alla mánuðina september til desember - það gerðist síðast 1863 og meðalþrýstingur þessa mánuði saman er lægri nú en var haustið 1863.
Meðalloftþrýstingur ársins var 1001,0 hPa í Reykjavík og hefur ekki orðið jafnlágur síðan 1990. Þetta er 4,9 hPa undir meðallagi. Ársmeðalþrýstingur hefur aðeins tvisvar orðið lítillega lægri en þetta svo vitað sé, það var 1990 og 1868. Tvisvar hefur hann orðið jafnlágur og nú, 1989 og 1863.
Hæsti loftþrýstingur á mannaðri stöð mældist á Dalatanga 5. mars kl. 3, 1037,3 hPa, en lægstur á Eyrarbakka 24. desember kl. 12, 948,4 hPa.
Vindhraði
Meðalvindhraði á mönnuðum stöðvum var sá mesti síðan 1993. Sérlega illviðrasamt var í apríl.
Illviðri sem náðu til meginhluta landsins voru ekki mörg á árinu. Þau helstu gerði 6. til 7. janúar (af norðri), 11. febrúar (af suðaustri), 6. mars (af suðvestri), 14. og 15. mars (af suðri og suðvestri), 10. apríl (af suðri) og 30. september (af suðri).
Mesti viðurkenndi 10-mínútna vindhraði ársins mældist í Jökulheimum þann 11. febrúar kl. 7, 46,9 m/s. Mesta viðurkennda hviða ársins mældist á Gagnheiði 22. desember kl. 2, 60,1 m/s.
Vindáttir
Vindáttir voru nærri meðallagi fyrir árið í heild en brá talsvert frá því í einstökum mánuðum. Sunnanátt var talsvert algengari í apríl heldur en í meðalári og norðanátt talsvert algengari í maí og júní heldur en var að jafnaði á árunum 1961 til 1990.
Lauslegt yfirlit um einstaka mánuði
Janúar
Hlýtt var í janúar. Meðalhiti var á bilinu 1,1 til 2,5 stigum ofan meðallags. Fremur þurrt var um sunnan- og suðaustanvert landið en annars var úrkoma í ríflegu meðallagi. Nokkrar fokskemmdir urðu í norðanveðri sem gerði 6. til 7. Járnplötur losnuðu á húsum víða um landið og bátar hreyfðust í höfnum. Mjög snjólétt var sunnanlands en meiri snjór var fyrir norðan fyrri hluta mánaðarins og m.a. féllu stór snjóflóð á nokkrum stöðum þar og á Vestfjörðum. Samgöngur lömuðust oftar en einu sinni fyrri hluta mánaðarins fyrir norðan og austan. Krapaflóð féllu í Fáskrúðsfirði í asahláku þann 19. Jakahlaup í Fnjóská lokaði vegi um Dalsmynni þann 23.
Febrúar
Febrúar var hlýr og umhleypingasamur. Úrkoma var mikil um landið sunnan- og vestanvert og loftþrýstingur var óvenjulágur. Minniháttar tjón varð í illviðrum.
Mars
Tíðarfar var nokkuð umhleypingasamt og þótti jafnvel óhagstætt um vestanvert landið. Úrkoma var yfir meðallagi víðast hvar. Snjór var meiri um landið sunnan- og vestanvert en var í marsmánuði árin á undan. Talsvert meiri snjór var þó í mars árið 2000, hann lá þá lengur en nú og að auki var hann þá talsvert meiri að magni til.
Apríl
Mánuðurinn var mjög hlýr, einkum þó um landið austanvert þar sem hann var í hópi hlýjustu aprílmánaða allra tíma. Hann var sá hlýjasti frá upphafi mælinga á Dalatanga og næsthlýjastur á Teigarhorni en þar hefur verið mælt samfellt frá 1873. Á Akureyri var mánuðurinn í 2. til 3. sæti hvað hlýindi varðar en þar hefur verið mælt samfellt frá 1882. Sums staðar austanlands var meðalhiti hærri í apríl heldur en bæði í maí og júní. Illviðrasamt var í mánuðinum og mjög mikil úrkoma féll um landið sunnan- og vestanvert. Aðeins einn alveg þurr dagur var í Reykjavík í mánuðinum. Óvenjusnjólétt var í mánuðinum. Loftþrýstingur var einn sá lægsti sem vitað er um í apríl.
Maí
Tíðarfar í maí skiptist mjög í tvö horn. Dagana 2. til 10. var hiti langt yfir meðallagi og vel yfir því fram til 19. Þá kólnaði verulega, sérlega kalt var þá í nokkra daga og svöl tíð hélst til mánaðamóta. Norðanáhlaup gerði dagana 23. og 24. og snjóaði þá víða norðanlands og sums staðar á Austurlandi snjóaði mikið. Ófærð varð á fjallvegum eystra og truflanir á umferð í byggð. Úrkoma var mjög mikil austast á landinu. Maímet úrkomu voru slegin á allnokkrum stöðvum á svæðinu frá Vopnafirði suður í Neskaupstað. Frekar þurrt var syðst á landinu. Fyrstu tvo dagana var víða alhvítt suðvestanlands, m.a. í Reykjavík. Snjódýpt þar mældist 16 cm þann 1.
Júní
Kalt var víðast hvar á landinu í júní og tíð erfið um landið norðanvert. Sérlega kalt var norðaustanlands og inn til landsins á Austurlandi. Þar þarf að fara marga áratugi aftur í tímann til að finna ámóta kaldan júnímánuð. Hiti var hins vegar í kringum meðallag eða rétt ofan við það á litlu svæði á Suðvesturlandi, þar á meðal í Reykjavík. Mjög þurrt var um landið sunnan- og vestanvert og úrkoma var undir meðallagi á kuldasvæðunum norðanlands en á norðanverðum Austfjörðum rigndi mikið. Snjó festi á nokkrum stöðvum norðanlands framan af mánuðinum. Mest mældist snjódýptin í Svartárkoti 7 cm þann 10.
Júlí
Fremur hlýtt var í júlí og hiti yfir meðallagi um nær allt land. Kaldast að tiltölu var við Austfirði og austast á Suðausturlandi en hlýjast að tiltölu á Vestfjörðum. Þurrt var um landið norðanvert.
Ágúst
Tíðarfar var hagstætt um mestallt land. Hiti var yfir meðallagi um landið sunnan- og vestanvert, í meðallagi norðanlands en á Austurlandi var ívið kaldara heldur en í meðallagi. Vestanlands var þurrt lengst af og úrkoma var undir meðallagi um stóran hluta landsins. Úrkomusamt var allra austast á landinu.
September
Mánuðurinn var hlýr og hiti vel yfir meðallagi í öllum landshlutum. Hlýjast að tiltölu varð suðvestanlands. Hitavik voru minnst á Vestfjörðum. Mjög úrkomusamt var suðaustanlands en annars var frekar þurrt langt fram eftir mánuðinum. Mikið rigndi á Suður- og Vesturlandi síðustu viku mánaðarins. Loftþýstingur í Reykjavík var 10,5 hPa undir meðallagi. Þetta er lægsti mánaðarmeðalþrýstingur sem mælst hefur í september frá því að samfelldar mælingar hófust 1822.
Október
Októbermánuður var fremur hlýr um mestallt land, hlýjastur að tiltölu austanlands en svalastur á Vestfjörðum. Úrkomusamt var í flestum landshlutum og óvenjumikil úrkoma var á fáeinum veðurstöðvum.
Nóvember
Óvenju hlýtt var lengst af í nóvember og þótt síðustu dagarnir hafi verið kaldir er mánuðurinn samt í hópi hlýjustu nóvembermánaða frá upphafi mælinga. Hlýjast var að tiltölu austanlands en heldur svalara um landið norðvestanvert. Úrkoma var í meira lagi um land allt, mest þó að tiltölu suðaustanlands. Lengst af var snjólítið.
Desember
Óvenjukalt var framan af mánuðinum en síðari hlutinn var nærri meðallagi hvað hita áhrærir. Snjór var þaulsetinn á jörðu um mestallt land og mánuðurinn í hópi allra snjóþyngstu desembermánaða um landið suðvestanvert. Slæma hálku gerði í blotum síðari hluta mánaðarins og víða var freði á jörð í lok hans. Óvenjusnjóþungt var í mánuðinum, sérstaklega var snjólagið óvenjulegt um landið sunnanvert. Í Reykjavík voru 29 dagar alhvítir og tveir töldust flekkóttir en enginn alauður, snjólagið var 97%. Að morgni þess 29. mældist snjódýpt í Reykjavík 33 cm og hefur þar aldrei mælst meiri í desember.